Morgunblaðið - 30.11.2004, Side 33
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. NÓVEMBER 2004 33
MINNINGAR
Tengdafaðir minn, Guðjón Magn-
ússon, lést hinn 14. nóvember sl.
Hann var Strandamaður að ætt og
uppruna, fæddur á Hlíð við Kolla-
fjörð í Strandasýslu 21. júlí 1911, en
flutti ungur að árum með foreldrum
sínum að Arnkötludal í Tungusveit
við Steingrímsfjörð og ólst þar upp
fram á unglingsárin, en síðan lá
leiðin til næsta þéttbýliskjarna,
Hólmavíkur.
Árið 1935 gekk Guðjón að eiga
Elínu Jónsdóttur frá Broddanesi
við Kollafjörð og bjuggu þau á
Hólmavík fyrstu búskaparárin en
síðan um tíma á Broddanesi. Árið
1943 fluttu þau að Miðhúsum í
Kollafirði og bjuggu þar í ellefu ár
en brugðu þá búi og fluttu á mölina
sem kallað var.
Ekki verður Guðjóns minnst án
þess að Elínar sé getið, en hún lést
árið 2001.
Ég var svo lánsöm að tengjast
fjölskyldu þeirra er ég giftist Gunn-
ari syni þeirra árið 1971. Ég held að
betri tengdaforeldrar en Elín og
Guðjón voru séu vandfundnir. Þau
voru alltaf boðin og búin að hjálpa
okkur, hvort sem um var að ræða
barnapössun eða aðstoð við lagfær-
ingar á húsakynnum, svosem múr-
verk, flísalögn og annað slíkt.
Börnum okkar voru þau ómet-
anleg. Við bjuggum í nágrenni við
þau er börnin voru lítil og ósjaldan
var trítlað til ömmu og afa til að
spila á spil, gæða sér á pönnukök-
um og brúntertu eða bara til að
spjalla. Amma hafði alltaf tíma og
eftir að afi hætti að vinna, sem var
ekki fyrr en undir áttrætt, hafði
hann líka tíma til að spila og tefla.
Hann eignaðist aldrei bíl en fór
allra sinna ferða gangandi, hjólandi
eða í strætó. Hjólið lét hann þó
flakka er hann var kominn yfir átt-
rætt, hann var þá farinn að kenna
svima og hafði að eigin sögn dottið
af hjólinu hinum megin er hann var
að stíga á bak.
Eins og áður sagði stundaði Guð-
jón búskap í Miðhúsum í rúman
áratug fram á árið 1954 er hann brá
búi og fluttist til Reykjavíkur. Vafa-
laust hefur þar margt komið til,
ekki síst þær miklu þjóðfélags-
breytingar sem urðu á þeim árum
með vaxandi tæknivæðingu og þeim
breytingum á atvinnutækifærum
sem fylgdu í kjölfarið. Ljóst var að
hvorugur sonanna myndi hyggja á
sveitabúskap í framtíðinni, hugur
þeirra stefndi í aðrar áttir. Elín og
Guðjón gátu ekki hugsað sér að
verða eftir í sveitinni þegar þeir
væru farnir.
Ekki er mér grunlaust um að það
hafi verið erfið ákvörðun fyrir Guð-
jón að bregða búi á besta aldri enda
lá búskapur á hans áhugasviði og
ljóst er að á efri árum leitaði hugur
hans æ oftar á fornar slóðir og síð-
ustu árin dvaldi hann löngum
stundum við minningar um víðáttur
fjallanna og gat hann kallað fram í
hugann myndir frá löngu liðinni tíð.
Gengin spor, já glöggt það dæmin sanna
geislar bjartir lýstu morgunstund.
Aftangeisla endurminninganna
er unaðslegt að muna litla stund.
Svipur minn þótt fölni og fækki hárum
fótur stirðni og dvíni þrótturinn,
minningar frá löngu liðnum árum
líða rótt í gegnum huga minn.
Svo kvað Guðjón eitt sinn á efri
árum en kveðskapur, ásamt kímni
og glettni, var aðal hans alla tíð.
Eftir hann liggur fjöldinn allur af
vísum og ferskeytlum, ort við hin
ýmsu tækifæri. Hann var til
margra ára virkur félagi í Kvæða-
mannafélagi Reykjavíkur, eignaðist
þar marga kvæðabræður og -systur
og sótti fundi og skemmtanir fé-
lagsins.
Fróns að grundu fellur rós
fölnar æskudraumur,
senn að lífs míns lækjarós
líður ævistraumur.
Svo kvað Guðjón einhverju sinni
er halla tók ævi.
Guðjón var vel að sér og las mik-
ið, ekki síst kveðskap og þjóðlegan
fróðleik, kunni feiknin öll af kvæð-
um og vísum.
Hann gerði ekki víðreist um æv-
ina, fór einu sinni til Kulusuk á
Grænlandi með syni sínum. Ég held
að hann hafi litið á ferðalög sem
tímaeyðslu. En eftir að hann
minnkaði við sig vinnu gaf hann sér
tíma til að ferðast um Ísland ásamt
Elínu, sem hafði yndi af ferðalög-
um. Þau ferðuðust með félagi eldri
borgara og nutu þeirra ferða ríku-
lega.
Síðustu árin bjuggu þau á dval-
arheimilinu Seljahlíð. Þar nutu þau
frábærrar umönnunar og undu hag
sínum vel miðað við þær hömlur
sem ellin hafði á þau lagt. Við frá-
fall Elínar missti Guðjón lífsföru-
naut sinn til sextíu og sex ára. Við
skynjuðum söknuð hans. Hann gat
orðið lítið lesið, stytti sér stundir
við hljóðbækur, undi sér við minn-
ingarnar, sagðist sjá fullt af mynd-
um úr fortíðinni.
Það voru fallegar minningar úr
sveitinni, gönguferðir á fjöllum,
Elín að sýsla við bústörfin, fjalla-
lækur í Miðhúsadal þar sem rennur
tærasta og svalasta vatn sem fyr-
irfinnst, fjárleitir að hausti.
Blærinn strýkur blítt um kinn
bros í sinni laðar,
alltaf heilla huga minn
haustsins björtu dagar.
Guðjón var nokkur ákafamaður
um dagana og kunni illa að fara sér
hægt.
Þegar hann var farþegi í bíl sem
nálgaðist ákvörðunarstað hafði
hann ævinlega opnað hurðina áður
en bíllinn stöðvaðist og virtist nokk-
ur hætta á að missa hann fyrir
borð.
Undir lokin þegar sýnt var að
skurðaðgerð yrði ekki umflúin var
læknirinn að skýra út fyrir honum
að aðgerðin væri ekki með öllu
áhættulaus.
Þá svaraði Guðjón: „Drífið bara í
þessu, ég er þá búinn að lifa nógu
lengi.“ Aðgerðin heppnaðist vel en
líkamsþróttur Guðjóns dugði hon-
um ekki til að ná sér á strik, hann
lést þremur dögum síðar og hélt
meðvitund fram undir það síðasta
og náði að skynja nærveru ástvina
sinna sem voru saman komnir við
sjúkrabeð hans til að kveðja.
Blessuð sé minning hans.
Aðalheiður Sigvaldadóttir.
Elsku afi minn er dáinn.
Afi minn var yndislegur afi. Afi
sem safnaði skeggi á veturna og
leyfði mér að toga í það eins og ég
vildi þegar ég var lítil. Afi með
stóra, rauða tóbaksnefið sitt. Afi
sem hjólaði út um allt á bláa, forna
reiðhjólinu fram eftir öllum aldri.
Afi sem labbaði út í kjötbúð þegar
ég kom í heimsókn og keypti salt-
kjöt handa mér því mér þykir það
svo gott. Amma sauð það og svo
borðuðum við öll saman við litla
eldhúsborðið þeirra. Afi hirti alla
fituna af disknum mínum og borð-
aði hana því honum þótti hún svo
góð, það fannst mér mjög einkenni-
legt. Afi með litlu bangsakörfuna á
herbergishillunni sinni með kand-
ísnum í sem ég laumaðist í við hvert
tækifæri.
Ég mun alltaf sakna hans, sakna
öryggisins hjá honum, sakna lykt-
arinnar af honum, sakna háu hnerr-
anna hans eftir að hann fékk sér
rækilega í nefið, sakna rólegheit-
anna í kringum hann, sakna óend-
anlegrar góðmennsku hans og gull-
hjarta, sakna hans. En það er samt
svo gott að hann fékk loksins að
fara og fyrir það er ég svo þakklát
því að það var orðið svo tímabært.
Nú er hann loksins þar sem hann á
að vera, hjá ömmu.
Elín Heiður.
Nú hefur Guðjón Magnússon,
fyrrverandi bóndi í Miðhúsum á
Ströndum, safnast til feðra sinna á
94. aldursári og veit ég að hann var
hvíldinni feginn.
Mín fyrstu kynni af Guðjóni voru
í sextugsafmæli hans en yngsta
systir mín, Aðalheiður, og Gunnar
sonur hans voru þá að byrja að
draga sig saman. Mér er minnis-
stætt hve Sigríði mágkonu hans
lágu þá vel orð til hans og við nán-
ari kynni komst ég fljótlega að raun
um að þar var ekkert ofsagt. Guð-
jón var mjög hlýr og elskulegur
maður með sérstaklega þægilega
nærveru. Ég minnist þess þegar
hann var að koma í heimsókn, oft á
laugardagsmorgnum, alltaf á hjóli
fram eftir öllu. Hann stóð aldrei
lengi við, drakk einn kaffibolla,
spjallaði við mig og svo var hann
farinn en eftir var svo gott andrúm
í sálu minni. Svona perlur í mann-
hafinu eru fágætar og gleymast
aldrei. Síðustu árin hafa verið Guð-
jóni erfið. Hann var orðinn ellimóð-
ur en frábær umhyggja barna hans
og barnabarna léttu honum róður-
inn. Eftir að Elín eiginkona hans
lést fyrir 3 árum fannst mér lífsvilji
hans þverra. Hún sem hann bar á
höndum sér alla tíð þurfti ekki
lengur á honum að halda hér og
hann vildi losna við farinn líkama
sem hélt sálu hans fanginni. Von-
andi hittir hann Elínu og Ingimar,
soninn sem lést á besta aldri, fyrir
á ódáinsökrum eilífðarinnar.
Megi blessun þess er öllu veldur
fylgja honum og hans um alla tíð.
Hrefna Sigvaldadóttir.
Morgunblaðið birtir minningar-
greinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgunblaðsins:
mbl.is (smellt á reitinn Morgun-
blaðið í fliparöndinni – þá birtist
valkosturinn „Senda inn minning-
ar/afmæli“ ásamt frekari upplýs-
ingum).
Skilafrestur Ef birta á minning-
argrein á útfarardegi verður hún
að berast fyrir hádegi tveimur
virkum dögum fyrr (á föstudegi ef
útför er á mánudegi eða þriðju-
degi). Ef útför hefur farið fram
eða grein berst ekki innan hins til-
tekna skilafrests er ekki unnt að
lofa ákveðnum birtingardegi. Þar
sem pláss er takmarkað getur
birting dregist, enda þótt grein
berist áður en skilafrestur rennur
út.
Lengd Minningargreinar séu ekki
lengri en 2.000 slög (stafir með
bilum - mælt í Tools/Word Count).
Ekki er unnt að senda lengri grein.
Hægt er að senda örstutta kveðju,
HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur, og
votta þeim sem kvaddur er virð-
ingu sína án þess að það sé gert
með langri grein. Ekki er unnt að
tengja viðhengi við síðuna.
Minningar-
greinar
Minningarkort
Krabbameinsfélagsins
540 1990
krabb.is/minning www.mosaik.is
LEGSTEINAR
sendum myndalista
MOSAIK
Hamarshöfði 4 - sími: 587 1960
Guðmundur
Jóhannsson
f. 10. 6. 1932
d. 8. 3. 1989
Minning þín lifir
Hvíl í friði
Elskulegur sambýlismaður minn, faðir okkar,
tengdafaðir, afi og langafi,
HREGGVIÐUR EYFJÖRÐ GUÐGEIRSSON
byggingameistari
og fyrrv. byggingafulltrúi,
Hlíðarhjalla 61,
Kópavogi,
sem lést á Landspítalanum við Hringbraut
þriðjudaginn 23. nóvember, verður jarðsung-
inn frá Kópavogskirkju í dag, þriðjudaginn 30. nóvember, kl. 15.00.
Þeim, sem vilja minnast hans, er bent á líknarfélög.
Ólafía S. Jensdóttir,
Samúel Smári Hreggviðsson, Sigríður Kr. Jóhannsdóttir,
Ólafur Magnús Hreggviðsson,
Guðgeir Veigar Hreggviðsson, Sigrún Gestsdóttir,
Margrét Dögg Hreggviðsdóttir,
Hólmar Eyfjörð Hreggviðsson,
Veiga Eyfjörð Hreggviðsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Hjartkær sonur okkar, bróðir, mágur og frændi,
GÍSLI FRIÐRIK ÞÓRISSON
læknir,
Sóltúni 28,
Reykjavík,
verður jarðsunginn frá Digraneskirkju fimmtu-
daginn 2. desember kl. 13.00.
Helga Sigurjónsdóttir, Þórir Gíslason,
Brynjólfur Þórisson,
Herdís Þórisdóttir, Ingvi Kristján Guttormsson.
Guttormur Arnar, Eva Írena,
Áki Elí og Hilmir Már.
Ástkær móðir okkar, stjúpmóðir, tengdamóðir,
amma og langamma,
ÞÓRDÍS JÓNÍNA BALDVINSDÓTTIR,
dvalarheimilinu Höfða,
Akranesi,
lést á Sjúkrahúsi Akraness föstudaginn
26. nóvember.
Útförin fer fram frá Akraneskirkju mánudaginn
6. desember kl. 14.00.
Brynja Einarsdóttir, Örnólfur Þorleifsson,
Fanney Lára Einarsdóttir, Þórður Jónasson,
Sólveig Einarsdóttir, Kjartan Rafnsson,
Jakob Þór Einarsson, Valgerður Janusdóttir,
Sonja Hulda Einarsdóttir, Gísli Bjarnason,
barnabörn og langömmubörn.
Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og
langafi,
SIGURÐUR MAGNÚSSON
frá Þórarinsstöðum, Seyðisfirði,
áður til heimilis á Kirkjuvegi 57,
Vestmannaeyjum,
verður jarðsunginn frá Seyðisfjarðarkirkju laug-
ardaginn 4. desember kl. 14.00.
Þórunn Sigurðardóttir, Finnur Jónsson,
Magnús Helgi Sigurðsson, Inger Helgadóttir,
Ásdís Sigurðardóttir, Sveinn Valgeirsson,
Ólafur Már Sigurðsson, Sigrún K. Ægisdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Móðir okkar og tengdamóðir,
RAGNHEIÐUR FINNSDÓTTIR
fyrrv. kennari og skólastjóri,
verður jarðsungin frá Langholtskirkju fimmtu-
daginn 2. desember kl. 13.00.
Geir Agnar Guðsteinsson, Sigurbjörg Gestsdóttir,
Finnur Jakob Guðsteinsson, Fanney Sigurðardóttir,
Guðlaug Guðsteinsdóttir, Örn Blævarr Magnússon.