Morgunblaðið - 05.01.2005, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 05.01.2005, Blaðsíða 28
28 MIÐVIKUDAGUR 5. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR E in var sú bók sem synti hávaðalaust gegnum bókaflóð liðins árs, en á ekki síður en margar aðr- ar skilið að vakin sé á henni ein- hver athygli. Þetta er sjöunda sýn- isbók íslenzkrar alþýðumenningar; Landsins útvöldu synir, sem Bragi Þorgrímur Ólafsson tók saman úr ritgerðum skólapilta Lærða skól- ans í íslenzkum stíl á síðari hluta nítjándu aldar. Áður en lengra er haldið skulu taldar upp fyrri sex bækur ritrað- arinnar; Bræður af Ströndum – Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19ndu öld, sem Sigurður Gylfi Magnússon tók saman (1997). Kraftbirting- arhljómur Guðdómsins- Dagbók, sjálfs- ævisaga, bréf og kvæði Magn- úsar Hj. Magn- ússonar, skáldsins á Þröm. Sigurður Gylfi Magnússon tók saman (1998). Elskuleg móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur. Fjölskyldubréf frá 19. öld. Sigrún Sigurðardóttir tók saman (1999). Fjórða bókin var Orð af eldi – Bréfasamband Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og Þor- steins Erlingssonar. Erna Sverr- isdóttir tók saman (2000). Burt – og meira en bæjarleið geymir dagbækur og persónuleg skrif Vesturheimsfara á síðari hluta 19. aldar. Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon tóku saman (2001). Til merkis nafn mitt eru dómabækur Markúsar Bergs- sonar, sýslumanns Ísafjarðarsýslu 1711–1729. Már Jónsson tók sam- an (2002). Heiti bókarinnar Landsins út- völdu synir er sótt í Sögukafla af sjálfum mér eftir Matthías Joch- umsson: „Þegar ég var nú kominn inn og allir piltar komu saman og ég horfði yfir hópinn – hóp lands- ins útvöldu sona, fannst mér mikið um og hið ólíklega orðið eftir hrakning æskuára minna.“ Í inngangi bókarinnar segir Bragi Þorgrímur Ólafsson m.a. að skrifaðar hafi verið upp 178 rit- gerðir frá árunum 1846–1904. „Þegar litið er á þessar ritgerðir má sjá að á tímabilinu 1847–1892 fjölluðu ritgerðarefnin að miklu leyti um það hvernig hægt væri að lifa dyggðugu líferni, hvernig mætti efla hag þjóðarinnar, hvað bæri að varast á lífsleiðinni og þess háttar, en eftir 1892 var meiri áhersla lögð á að piltarnir lýstu umhverfi sínu og lífsreynslu, til dæmis með því að segja frá ferða- lögum, lýsa heimahögum sínum og daglegu lífi.“ Auk þess sem Bragi gerir grein fyrir ritgerðunum sjálfum fjallar hann í innganginum um sögusvið- ið; Lærða skólann. Ritgerðarefni skólapiltanna eru anzi fjölbreytt. Þeir skrifa um sumarleyfið, Vetur og sumar, Ferðalýsingar, Hugsanir um him- ingeiminn, Hjátrú og vantrú, Kirkjulýsingar, Fermingardaginn, Freistingar, Lestur rómana, Lat- ínukennslu, Hinn æskilega náms- mann, Sveitalíf-bæjarlíf, Meðferð dýra, Þekktu sjálfan þig, Lýsingar á heimaslóðum, Æsku og elli, Þjóð, framtíð og framfarir, Lýðræði og önnur stjórnarform, Manngerðir, Söguna og sjálfstæðisbaráttuna, Tísku og glæsileika, Vini og vin- áttu, Íþrótti og leiki og Listina að lifa. Í Konum í Lærða skólanum eru birtar ritgerðir tveggja kvenna, en ekki var gert ráð fyrir því að konur stunduðu nám við Lærða skólann fyrr en árið 1886. Ritgerðahöfundarnir eru Ólafía Jóhannesdóttir, sem tók 4. bekkjar próf 1890 og Elínborg Jakobsen sem tók fyrst kvenna stúdentspróf á Íslandi. Í sérstökum viðauka; fyrstu skref fræðimanns er birt ritgerð, sem Sigurður Nordal skrifaði tví- tugur um nauðsyn þjóðar að leggja rækt við sögu sína og fyrri aldar bókmenntir. Ritgerðunum öllum fylgir stutt kynning á höfundinum og palla- dómur skólabræðra, þar sem hann er til. Nærri má geta að úr svo miklum fjölda yrði erfitt að nefna hér nöfn nokkurra ritgerðahöfunda svo vel færi en meðal höfunda eru skóla- piltar sem síðar urðu þjóðþekktir menn. Eins er mér erfitt að velja stuttan kafla úr bókinni, ekki vegna þess að úrvalið sé ekki nægt, heldur vegna hins, að úrval- ið má kallast yfrið og betra en það! Engu að síður ætla ég að birta hér hluta úr ritgerð Sigurðar Páls- sonar, sem síðar varð bóndi á Barðaströnd. Skrif hans um sanna ættjarðarást og skyldu hvers manns til þess að elska ættjörð sína töluðu sérstaklega til mín um þessi áramót: „Hver maður, sem kominn er til vits og ára ætti að elska ættjörð sína og stuðla að því af öllu megni að framfarir hennar yrðu sem mestar. Hann hlýtur að bera elsku til þess lands, sem hann er fæddur í ef hann horfir til bernskustunda sinna og allra þeirra gleðitíma, er hann naut er hann var ungur. Hann verður að kannast við með sjálfum sjer hversu margs góðs hann hafi orðið aðnjótandi, og þótt síðar hafi eitthvað það komið fyrir hann, sem honum í einhverju hefur fundist vera mótdrægt, þá má hann alls eigi hata fósturjörð sína fyrir það, því margar orsakir hafa getað verið til þess, sem hann sjálf- ur ef til vill hefði getað afstýrt, ef hann hefði haft nóga fyrirhyggju. Ættjörðin hefur fóstrað hann, veitt honum uppeldi eptir því, sem hún frekast gat. Hann á henni að þakka allar sínar gleðistundir, auð- æfi, metorð og heiður, sem hann öðlast. Þegar ættjörðin leggur þannig allt sitt fram, er hún hefur til að bera, þá ætti það líka aptur á móti að vera skylda hvers manns að bera umhyggju fyrir velferð hennar og vinna að því að hagur hennar í öllum greinum tæki sem mestum framförum.“ Þessar ritgerðir allar urðu mér ótrúlega skemmtileg og fróðleg lesning. Þær brugðu ljósi á tíma, sem virðist horfinn, en býr þó enn í þeirri arfleifð, sem við byggjum á. Eða eins og Bragi Þorgrímur Ólafsson segir í niðurlagi inngangs síns; Frásagnir skólapiltanna og lýsingar þeirra í ritgerðunum bregða upp fyrir okkur hugarfari og staðháttum þeirra tíma og gefa okkur innsýn í íslenskt samfélag sem lagði grunninn að samfélagi nútímans.“ Elskum ættjörðina Hér segir af sjöundu bók ritraðarinnar um íslenzka alþýðumenningu, sem geymir úrval ritgerða skólapilta Lærða skólans í Reykjavík 1846–1904. VIÐHORF Eftir Freystein Jóhannsson freysteinn@mbl.is ✝ Jón Bjarni Ólafs-son fæddist á Hlaðhamri í Bæjar- hreppi í Standasýslu 29. nóvember 1930. Hann lést á Sjúkra- húsinu á Akranesi 27. desember síðastlið- inn. Foreldrar hans voru Jóna Jónsdóttir, f. 9. október 1888, d. 30. október 1974, og Þorsteinn Ólafur Þorsteinsson, f. 23. júní 1891, d. 7. mars 1972. Systkini Jóns eru: Sigurjón, f. 17. júní 1915, Ingibjörg Gunnlaug, f. 22. ágúst 1917, d. 15. maí 2004, Þorsteinn, f. 6. október 1919, Vil- hjálmur, f. 31. júlí 1922, Kjartan, f. 5. maí 1924, og Kristín, f. 24. desember 1926, d. 23. júní 2001. Jón kvæntist hinn 21. nóvember 1959 Sólveigu Sigurbjörgu Sæ- mundsdóttir frá Hrútatungu í Hrútafirði, f. 6. maí 1933, d. 8. maí 1985. Börn þeirra eru: 1) Kristrún Jóna, f. 19. október 1958, sam- býlismaður Guðmundur Arason, f. 17. október 1955, fósturdóttir þeirra er Ísfold Grétarsdóttir, f. 24. mars 1994. 2) Sæmundur, f. 25. maí 1963, kvæntur Kristínu Önnu Kristjánsdóttur, f. 10. júlí 1965. Börn þeirra eru Jón Krist- ján, f. 1. ágúst 1992, og Sólveig Sigur- björg, f. 22. septem- ber 2000. Jón var í sambúð á árinu 1992 með Mar- gréti Kristínu Helgadóttur, f. 20. mars 1929, d. 28.12. 1992. Hún á fjögur uppkomin börn. Jón kvæntist 19. maí 1997 Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur, f. 1. maí 1934, d. 12. júní 2000. Hún eignaðist sjö börn, fjögur þeirra eru á lífi. Jón starfaði á jarðýtum og við vélaviðgerðir hjá Ræktunarsam- bandi Bæjar- og Óspakseyrar- hreppa frá 1950 til 1961. Starfs- maður hjá Vegagerðinni frá 1962 til 1. desember 2000, eftir það greip hann í akstur hjá Sæmundi Sigmundssyni, sérleyfishafa í Borgarnesi. Jón var virkur félagi í Kiwanisklúbbnum Smyrli í Borg- arnesi frá 1982. Jón verður jarðsunginn frá Borgarneskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 14. Þegar ég á sínum tíma fyrst heyrði að móðir mín, Anna Ólöf Kristjáns- dóttir, hefði kynnst manni í Borgar- nesi og sá maður væri Jón Ólafsson, hlýnaði mér um hjartarætur. Honum hafði ég kynnst tveimur áratugum áður, þegar ég þá um tvítugt starfaði í Borgarnesi við brúargerð, og var Jón mér hugstæður æ síðan. Hann hafði afar þægilega návist, góðlegur maður og traustur. Við endurnýjuð kynni, sá ég að sú mynd sem ég átti af Jóni frá tíma mínum í Borgarnesi hafði ekki breyst. Og sá trausti bak- hjarl sem hann var, ekki bara móður minni við erfiðar aðstæður, heldur fjölskyldu okkar allri, mun aldrei gleymast. Frá fyrsta degi tók hann okkur öllum sem við værum hans eigin börn og var það svo til síðasta dags. Þegar hann kemur inn í líf móður minnar hafði hún átt í sorg- arraunum, búin að missa annan son sinn og hafði flust búferlum í Borg- arnes til þess að geta verið til staðar fyrir son sinn sem þar bjó en hann átti þá í erfiðum veikindum. Í hönd fór tvísýn barátta bróður míns fyrir lífi sínu sem tapaðist. Í gegnum þær raunir stóð Jón sem klettur við hlið móður minnar. Sjálf- ur hafði Jón ekki farið varhluta af sorginni, hafði misst tvær eiginkon- ur auk þess að hafa glímt sjálfur við krabbamein. Þessi reynsla hlaut því að vera honum mikil raun, en aldrei sýndi hann það eða ræddi. Saman áttu móðir mín og Jón góð- an tíma, þótt stuttur væri. Það var hamingjuríkur og fallegur dagur þegar þau gengu í hjónaband hinn 19. maí 1997. Þau voru afar samheld- in og gerðu sér jafnan sérstakt far um að gleðja hvort annað og þurfti þar ekki stóra hluti til svo vel væri. Jón var einstaklega ræktarsamur við fjölskylduna rétt eins og hvern þann sem á vegi hans varð. Að fyrir Jóni ætti eftir að liggja að missa móður mína einnig er eitthvað sem enginn hefði trúað en hún dó í júnímánuði árið 2000. Enn sýndi Jón sitt mikla þrek og vék ekki frá henni í þá mán- uði sem hún mátti berjast fyrir lífi sínu. Jón var einstakur verkmaður og á langri starfsævi við vegagerð og vél- ar þótti hann mörgum öðrum færari og traustari við meðferð þeirra. Árið 1971 var reistur minnisvarði um Reynistaðarbræður á Beinahóli. Þar er viðkvæm náttúra og þurfti að koma þar að vörubíl og yfir mjög við- kvæmt svæði að fara, sem auk þess var erfitt yfirferðar. Var því gerð sérstök leit um landið að þeim bíl- stjóra sem hæfur þótti til verksins. Eftir nokkra leit fannst hann og var þar um að ræða Jón Ólafsson. Veit ég til að hann leysti það verk vel úr hendi. Hann var lengi flokks- og verkstjóri hjá Vegagerð ríkisins. Þeir sem unnu undir hans stjórn bera honum einstaklega góða sögu. Hann þótti úrræðagóður yfirmaður af því tagi sem með sínum eigin verk- um og ósérhlífni hvatti samverka- menn sína til samviskusemi og dugn- aðar. Jón lést eftir skamma sjúkrahúslegu á Sjúkrahúsi Akra- ness. Hann tók örlögum sínum af miklu æðruleysi og var reiðubúinn að mæta skapara sínum. Sagt er að varanlegur auður hvers manns verði aldrei meiri en breytni hans í lífinu segir til um. Þannig segir í ljóði Ein- ars Benediktssonar sem ég vil gera að lokaorðum mínum og tileinka minningu Jóns, því að þar fór maður er virtist búa yfir óþrjótandi sjóðum hjartagæsku; Gengi er valt þar fé er falt, fagna skaltu í hljóði. Hitt kom alltaf hundraðfalt, er hjartað galt úr sjóði. Guð blessi og styrki fjölskyldu Jóns Ólafssonar. Minning hans lifir. Eyþór Eðvarðsson. Elsku Jón minn. Ekki hafði ég ímyndað mér í sum- ar, þegar þú komst í brúðkaup okkar Reynis, að ég myndi þurfa að kveðja þig tæpu hálfu ári seinna. Ég fékk ekki að vita af veikindum þínum fyrr en fyrir um mánuði síðan og þaðan af gerðust hlutirnir mjög hratt. Ég hugsaði mikið um það hvað mig langaði að hringja í þig og segja þér hvað þú skiptir mig miklu máli og að í raun hafir þú verið eini afinn sem ég nokkurn tímann þekkti. En ég þorði það ekki, fannst það væmið og asnalegt. En auðvitað er það ekkert asna- legt. Ég man eiginlega ekki eftir tím- anum áður en þú og amma rugluðuð saman reytum ykkar. En ég man þegar ég og Anna Bára vorum að koma til þín og ömmu á sumrin og amma lét þig um að gefa okkur að borða og þú gafst okkur alltaf eitt- hvað gott og óhollt sem yfirleitt færði þér skammir frá ömmu um að þú hefðir átt að gefa okkur eitthvað hollt og uppbyggjandi, en kom ekki í veg fyrir að næsta dag beið okkar eitthvert gotterí þegar amma sá ekki til. Og alltaf þegar við komum í heim- sókn í Borgarnes laumaðir þú smá pening til mín. Við systkinin vorum einmitt að tala um það fyrir ekki svo löngu hvað þú værir yndislegur maður, alltaf tilbúinn að gera allt fyrir alla og svo góður við okkur og ömmu. Eins og þér einum er lagið þá hafðir þú búið okkur vel undir brott- för þína, alltaf að hugsa um þá í kringum þig. Ég sakna þín sárt, Jón minn, en ég veit að það verður höfðinglega tekið á móti þér, og ekki á þér eftir að leið- ast í félagsskapnum. Ég sendi samúðarkveðjur og styrk til barna Jóns og allra þeirra sem nutu þeirrar gæfu að þekkja hann og þakka um leið fyrir að hafa fengið að kynnast þessum undra- verða manni. Margrét Kristín Helgadóttir. Látinn er Jón Ólafsson föðurbróð- ir minn í Borgarnesi. Jón var afar hlýr maður. Þegar ég var barn kom- um við alltaf við í Borgarnesi hjá Jóni, yngsta bróður pabba, þegar við fórum norður að Hlaðhamri í Hrúta- firði þar sem föðurfólkið bjó og býr enn. Það var alltaf gott að koma til Jóns og fjölskyldu hans. Þau voru mjög rausnarleg og hlý og alltaf vor- um við drifin í veislumáltíð eða köku- hlaðborð. Ég minnist sérstaklega hvað handtak Jóns var þétt og gott og mikil vinátta sem fólst í því. Jón var mjög vandaður maður. Hann var greiðvikinn og hjálpfús og vildi allt fyrir alla gera. Megi Guð blessa minningu hans. Ég sendi Rúnu Jónu, Sæmundi og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Heiðdís Þorsteinsdóttir. Góður vinur, Jón Bjarni Ólafsson í Borgarnesi, er fallin frá. Okkar vinskapur hófst þegar hann og tengdamóðir mín, Margrét Helgadóttir, rugluðu saman reitum. Þau höfðu þá bæði misst maka sína, Alla og Veigu, og var mjög ánægju- legt að fylgjast með þeim takast á við lífsgönguna saman. Á þeim tíma þeg- ar þeirra samband hófst var Jón að takast á við krabbamein sem hann yfirvann. Þetta voru yndislegir tímar hjá þeim, en varð ekki langur því hún veiktist af krabbameini og lést úr því árið 2002. Í veikindum hennar sýndi Jón þvílíkum mannkostum hann var gæddur. Jafnframt því að vaka yfir henni var hann í stöðugu sambandi við okkur Helga þar sem við bjugg- um á Akureyri. Það var á þessum tíma sem vinaböndin á milli okkar Jóns styrktust enn meir. Hann talaði alltaf hreinskilnislega, en sagði það samt allt með fallegum orðum. Við Helgi höfum örugglega aldrei þakk- að honum nógsamlega hvernig hann reyndist okkur á þessum tíma og alla tíð síðan. Jóni auðnaðist seinna að kynnast henni Önnu sinni sem kom með birtu og yl inn í líf hans, en hana átti Jón einnig eftir að missa úr veikindum. Þó að ný fjölskylda kæmi inn í líf Jóns hélt hann samt alltaf samband- inu við okkur. Það má segja að Jón hafi þurft að ganga í gegnum meiri missi en margur í lífinu, að missa þrjár konur sem allar voru honum kærar, en alltaf sagði hann við mig: Svona er nú lífið, Gerða mín. Þetta sagði hann við mig síðast núna síð- ustu dagana fyrir jól þegar hann var orðinn miklu veikari en ég hélt, en þá hafði krabbameinið tekið sig upp að nýju fyrir um einu og hálfu ári. Jón átti tvö yndisleg börn, Rúnu Jónu og Sæmund, tengdabörnin tvö, Kristínu og Guðmund, og litlu sólargeislana þrjá, nafna sinn og Veigu litlu og Ís- fold sem kom eins og sólargeisli inn í líf fjölskyldunnar. Fjölskyldan var hans auður. Við Helgi viljum þakka Jóni fyrir yndislega vináttu og ræktarsemi sem hann sýndi okkur. Sendum börnum Jóns, tengdabörnum, barna- börnum, öðrum ættingjum og vinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þorgerður Þorgils. Í dag er til grafar borinn Jón Bjarni Ólafsson móðurbróðir minn eða Nonni frændi eins og ég kallaði hann í sveitinni sem strákpjakkur. Í minningunni er Nonni maðurinn sem ég leit mjög upp til, já hann var eig- inlega stóri bróðir og leit ég á hann sem slíkan. Ekki sakaði að hann var að vinna á jarðýtum og síðar á stórum vörubílum, við höfðum báðir mikinn áhuga á öllu slíku. Eftir að Jón og Veiga fóru að búa í Hrúta- tungu var það mikið tilhlökkunarefni þegar fara átti í heimsókn þangað. JÓN BJARNI ÓLAFSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.