Morgunblaðið - 05.01.2005, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. JANÚAR 2005 29
MINNINGAR
Það var svo gaman og gott að koma
til þeirra, svo gat líka verið að maður
yrði heppinn og fengi að fara með
Nonna upp á Holtavörðuheiði væri
maður í heimsókn að vetri til, en það
var vinna hans í fjöldamörg ár að sjá
um snjómokstur á Heiðinni. Ég man
eftir að í einni slíkri ferð þurfti að
draga rútu sem hafði farið út í kant
og var föst. Við fórum upp fyrir
Miklagil og drógum hana upp, þvílíkt
ævintýri, það sló út allar kökurnar
og matinn hjá Veigu og er þá mikið
sagt.
Jón frændi vann alla sína starfs-
ævi hjá Vegagerðinni. Eitt árið fékk
hann nýjan stóran Volvó vörubíl M 9,
þetta var bíll með drifi á öllum hjól-
um með krana og allt. Á þessum bíl
vann hann í mörg ár bæði við snjó-
mokstur og í vegagerð víða um land.
Alltaf kom hann við heima á Hlað-
hamri þegar hann átti leið um. Það
er ótrúlegt og þó ekki, hvað hann var
að vinna víða fyrir Vegagerðina. T.d.
í Vestmannaeyjagosinu, þegar ég
kom út í Eyjar að moka vikur, hver
var ekki komin þar, jú hann Nonni
frændi. Þá hafði Vegagerðin sent
menn út til Eyja og auðvitað fór
hann í það verkefni. Eins vissi ég af
honum austur á Söndum þegar verið
var að undirbúa brúarsmíðina þar.
Ég dáðist alltaf að véla- og tækja-
áhuga hans og tel ég að hann hafi vit-
að flestallt um jarðýtur og bíla, sem
og hann gerði. Því fannst mér það
mikil upphefð þegar hann hringdi í
mig í fyrra til að ræða um vandamál
við jarðýtu sem frændi okkar á.
Hann var að vinna á henni og fannst
eitthvað vera að. En auðvitað vissi
Jón allt miklu betur en ég en mikið
var gaman að fá að spekúlera í þessu
með honum.
Já, svona er lífið, ekki hugsaði ég
út í það að það væri í síðasta skipti
sem ég kæmi heim til hans á Borg-
arbrautina einn laugardagsmorgun
um miðjan nóvember. Hann hellti
upp á kaffi fyrir mig úr nýju kaffivél-
inni sem hann sagðist hafa verið að
fá sér. Það segir mér að hann var
ekki neitt að fara þó svo að hann hafi
verið tilbúinn þegar kallið kom, mað-
ur með mikla lífsreynslu.
Rúna Jóna, Guðmundur, Sæ-
mundur, Kristín og börn. Ykkar er
missirinn mestur, en minningin um
Jón Bjarna Ólafsson mun lifa.
Guð blessi ykkur öll.
Ólafur Hjálmarsson.
Stutt kynni geta markað djúp spor
og orðið uppspretta áratuga vináttu.
Ég var einn af þeim sem átti því láni
að fagna sem ungur maður að fá að
kynnast Jóni og vinna með honum í
sigtisflokknum hjá Vegagerðinni.
Hann tók við mér óreyndum strák úr
sveit og gerði mig að þokkalegum
vélamanni. Það var alveg sama hvað
gekk á, alltaf var sama ljúfa viðmótið
og í versta falli var sagt; strákar mín-
ir, þetta gengur betur næst. Hann
fylgdist með okkur með sínu síkvik-
ula augnaráði, oft með áhyggjusvip
en alltaf var stutt í brosið.
Þau tvö sumur sem ég var með
Jóni og Veigu konu hans í vegagerð-
inni voru ógleymanleg, skemmtileg
og gefandi. Þau voru gefandi því að í
Jóni eignaðist ég vin sem ég hef haft
samband við alla tíð síðan, aldurs-
munurinn skipti ekki máli. Oft leið
langt á milli heimsókna en tengslin
rofnuðu aldrei, síðast var símtal
nokkrum dögum áður en hann lést
og þá var ljóst að hverju stefndi. Eft-
ir erfið veikindi er lífshlaupi Jóns
lokið og ekki hvaða lífshlaupi sem er.
Fáir hafa í lífi sínu gengið í gegnum
hamingjuna og sorgina eins oft og
Jón. Það var sama hvað gekk á, alltaf
var erfiðleikunum mætt með sama
jafnaðargeðinu og jákvæðu lífssýn-
inni sem honum var gefin.
Ég vil með þessum fáu orðum
þakka góðum vini fyrir samveruna
og veganestið sem gefið var fyrir
áratugum. Fjölskyldu Jóns færum
við hjónin okkar innilegustu samúð-
arkveðjur í minningu um góðan
dreng.
Ágúst Oddsson.
Það var á haustmánuðum 1958
sem kynni okkar Jóns hófust fyrir al-
vöru. Fyrr á því ári höfðu Jón og Sól-
veig (Veiga) systir mín opinberað
trúlofun sína. En um haustið settust
þau að hér í Hrútatungu. Þau fluttu í
austurendann á íbúðarhúsinu, en það
var á sínum tíma byggt sem tvíbýlis-
hús. Í vesturendanum bjuggu for-
eldrar okkar Veigu, ásamt mér, einn-
ig var móðursystir okkar Veigu til
heimilis hér.
Það voru frumstæð skilyrði sem
blöstu við unga parinu þegar þau
settust að og erfitt fyrir fólk í dag að
skilja þær aðstæður. Það var ekki
rafmagn, ekki heitt vatn í krana, og
húsnæðið lítið.
Á þessum tíma vann Jón á jarðýtu
hjá Ræktunarsambandi Bæjar- og
Óspakseyrarhreppa. Hann hafði haf-
ið þar störf á árinu 1950. Ekki var nú
ýtan stór, Caterpillar D 4. Unnið var
hjá bændum, en Jón þó mest hjá
Vegagerðinni. Jón hafði aflað sér vél-
stjóraréttinda og auk þess að vinna á
ýtunni sá hann um viðhald á vélunum
og frá vetrinum 1954 var hann svo
við snjómokstur með ýtuna á Holta-
vörðuheiði og hélt þá ýmist til í Sím-
stöðinni Brú eða Fornahvammi.
Hann hélt þessum störfum svo áfram
eftir að hann settist að hér.
Haustið 1958 eignuðust svo þau
Veiga og Jón sitt fyrsta barn, stúlku
sem skírð var Kristrún Jóna. Hún
fór brátt að vappa um og koma yfir í
vesturendann til afa og ömmu og
frænda. Á vordögum 1963 fæddist
svo drengur, sem hlaut nafnið Sæ-
mundur. Fæðingin var erfið og var
Veiga mjög mikið veik um tíma. Það
var oft líflegt hér heima á þessum ár-
um og krakkarnir sannir sólargeisl-
ar.
Þau Jón og Veiga voru aldrei með
neinn búskap hér. Auk þess sem ég
hef rakið af því sem Jón vann við afl-
aði hann sér réttinda til ökukennslu.
Það var á þessum árum að tekin var
upp sú nýbreytni að nemendur á
lokaári í Héraðsskólanum á Reykj-
um áttu þess kost að læra á bíl og var
það Jón sem fenginn var til að kenna
þar fyrstu árin, þó að fleiri kæmu svo
þar við sögu. Á þessum árum átti Jón
forláta Rússajeppa sem hann hafði
látið byggja yfir og sett í hann dís-
elvél. Þetta var eini bíllinn á bænum.
Ég naut mikið góðs af þessum bíl eft-
ir að ég var kominn með prófið, eða
þangað til ég eignaðist minn eigin bíl.
Í ársbyrjun 1962 kom Jón að máli
við mig og spurði hvort ég væri ekki
til með að vera með sér á heiðinni
dag og dag ef þyrfti. Ég varð bæði
glaður og feginn. Bæði hagaði því
svo til að ég var heima og eins vant-
aði ungan strák aura. En þar var
nokkur vandi á ferð því að ég var að
byrja að læra á bíl hjá Jóni og myndi
ekki öðlast ökuréttindi fyrr en um
mánaðamótin mars/apríl. Ég fór að
vera með Jóni uppi á heiði. Hjálpaði
til við ýmislegt sem til féll og svo fór
ég að læra á ýtuna. Það er hægt að
segja frá því nú að þarna var próf-
laus unglingur farinn að ýta snjó
þegar leið á veturinn. Þennan vetur
var Jón með, auk ýtunnar, gamlan
GMC-hertrukk, sem Vegagerðin
átti. Skráningarnúmerið var R 2962.
Komin var snjótönn á þennan bíl og
var hún skekkt með handafli, en lyft
með spilinu sem var á bílnum. Jón
var á þessum árum orðinn vel þekkt-
ur fyrir dugnað sinn við mokstur og
aðstoð á heiðinni. Þetta var upphaf
að löngu samstarfi okkar Jóns. Sam-
starfi sem alla tíð gekk einstaklega
vel og aldrei bar skugga á.
Í ársbyrjun 1962 gerðist Jón fast-
ur starfsmaður hjá Vegagerðinni og
þá um vorið fékk hann nýjan vörubíl
af Volvo-gerð, sem Vegagerðin átti
og bar skráningarnúmerið M 9.
Þetta var bíll með drifi á öllum hjól-
um. Hann var notaður í snjómokstur
yfir veturinn, vorviðgerðir á vegum
og í alls konar vinnu á sumrin. Í þess-
ari vinnu fór Jón víða um land og
mjög oft þar sem verið var að byggja
brýr og má m.a. nefna að Jón var í
vinnu á Skeiðarársandi þegar brýrn-
ar voru byggðar þar.
Í febrúarmánuði árið 1967 fluttu
Jón og Veiga í Borgarnes en þau
höfðu ákveðið að byggja sér hús þar.
Fyrst leigðu þau sér húsnæði en síð-
an fluttu þau í sitt nýja hús á Kveld-
úlfsgötu 11 í Borgarnesi. Það varð
mikil breyting hér heima þegar fjöl-
skyldan flutti í burtu. En hins er líka
að minnast að það var stundum
skroppið í Borgarnes og þau komu
hingað. Þessar ferðir í Borgarnes
eru margar hverjar mikill fjársjóður
minninga, en bæði voru þau Veiga og
Jón ákaflega gestrisin, reyndar svo
af bar.
Jón hélt áfram starfi sínu á heið-
inni og nú komu þeir vegagerðar-
menn úr Borgarnesi til að moka og
héldu þá til í Fornahvammi og síðan í
Sveinatungu eftir að Fornihvammur
var aflagður. Ég kom að norðan til
móts við þá sunnanmenn. Frá þess-
um tíma er margs að minnast og
miklar breytingar urðu bæði á tækj-
um og búnaði, umferð og allri vinnu.
Um vetrarstarf á Holtavörðuheiði
mætti skrifa heila bók og þáttur Jóns
Ólafssonar yrði þar stór.
Snemma árs 1970 gerðist Jón
verkstjóri hjá Vegagerðinni, fyrst
sem verkstjóri í hörpunarflokk og
síðan við hin ýmsu verkefni í vega-
gerð. Veiga var oftast með honum yf-
ir sumartímann, sem ráðskona.
Það dimmdi yfir á vordögum 1985.
Veiga fékk hjartaáfall og var flutt á
sjúkrahúsið á Akranesi. Og örfáum
dögum síðar annað sem leiddi hana
til dauða. Áfallið fyrir fjölskylduna á
Kveldúlfsgötu 11 var mikið og Jón
tók missinn mjög nærri sér. Snemma
árs 1989 kenndi Jón sér lasleika og
leitaði læknis. Hann fékk þann úr-
skurð að hann væri með maga-
krabbamein. Hann fór í aðgerð og
stór hluti magans var tekinn. Jón
fékk góðan bata en vissulega var
starfsþrekið ekki það sama og hann
hætti að mestu vetrarvinnu á heið-
inni.
Jón kynntist Margréti Kristínu
Helgadóttur og hófu þau sambúð
1992. Hún greindist með krabba-
mein sem dró hana til dauða í árslok
sama árs.
Seint á árinu 1994 kynntist Jón
Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur. Þau
fóru fljótlega að búa saman og gengu
síðan í hjónaband. Þau höfðu komið
sér vel fyrir og maður var farinn að
sjá fram á góðan tíma hjá þeim. En
hamingjan er hverful, Anna veiktist
alvarlega í ársbyrjun 2000 og hún
lést í júní sama ár.
Það var mikið lagt á herðar Jóns
og var undravert hvað hann bar sig
vel þrátt fyrir allt. Jón hætti störfum
hjá Vegagerðinni þegar sjötugsaldr-
inum var náð. Eftir það stundaði
hann nokkuð akstur hjá Sæmundi
Sigmundssyni, sérleyfishafa í Borg-
arnesi. Bæði var það skólaakstur og
eins styttri ferðir sem til féllu. Þetta
starf átti vel við Jón og kannski
skólaaksturinn best enda maðurinn
afskaplega barngóður.
Nú síðustu árin brá hann sér
nokkrum sinnum heim á æskuslóð-
irnar að Hlaðhamri, nokkra daga yfir
sumartímann, en þar var Sigurður
frændi hans Kjartansson að mestu
tekinn við búi. Sigurður hafði keypt
sér jarðýtu. Hann fékk Jón til að
vinna á ýtunni hjá sér. Og það kom
vel í ljós að Jón hafði engu gleymt,
um það bera nýju túnaslétturnar á
Hlaðhamri og Kollsá best vitni.
Fyrir rúmu ári greindist Jón með
krabbamein í lungum. Það var talið
hægfara og fékk hann lyf sem virtust
gefa góðan árangur. En nú í vetr-
arbyrjun var ljóst að meinið var
komið af stað og þegar dró að jólum
varð séð að ekki yrði við það ráðið.
Jón náði þó að komast heim og
halda aðfangadagskvöldið og fram á
jóladaginn með börnum sínum og
barnabörnum, sem voru honum
mjög kær. Til þessa neytti hann síð-
ustu krafta sinna og ég veit að það
var honum og hans fjölskyldum mik-
ils virði.
Með Jóni er genginn einn af þeim
mönnum sem mega ekki vamm sitt
vita, hafa unnið alla tíð hörðum hönd-
um og viljað skila sínu dagsverki vel
af hendi og ekki alltaf spurt um umb-
un að kveldi.
Að leiðarlokum hrannast minning-
arnar upp ein af annarri, minningar
sem geymast um góðan vin og sam-
starfsmann og ekki síst sem góðan
mág.
Við í Hrútatungu sendum Rúnu og
Sæmundi og fjölskyldum þeirra okk-
ar bestu kveðjur og biðjum þann sem
öllu ræður að styrkja þau og styðja.
Gunnar Sæmundsson.
Fleiri minningargreinar um Jón
B. Ólafsson bíða birtingar og munu
birtast í blaðinu næstu daga. Höf-
undar eru: Guðmundur Egilsson og
fjölskylda.
✝ Hrafnhildur Að-alsteinsdóttir
fæddist á Jórunnar-
stöðum í Eyjafirði 5.
sept. 1920. Hún lést á
hjúkrunarheimilinu
Hlíð á Akureyri 24.
desember síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Aðalsteinn
Tryggvason bóndi á
Jórunnarstöðum, f.
15. sept. 1889, d. 11.
febr. 1970 og kona
hans Pálína Frí-
mannsdóttir, f. 18.
okt. 1888, d. 7. febr.
1971. Systkini Hrafnhildar eru:
Skarphéðinn, f. 24. mars 1916, d. 5.
júlí 1993, Tryggvi, f. 12. mars
1919, d. 18. mars 1980, Valgerður,
f. 12. júlí 1923 og Garðar, f. 3. apríl
1931.
Hrafnhildur giftist hinn 18.
ágúst 1946 Sigtryggi Guðbrandi
Símonarsyni bónda og mjólkurbíl-
stjóra, f. í Ölversgerði 16. jan.
1915, d. á Akureyri 4. ágúst 1997.
Börn þeirra eru: 1) Torfi, f. 26.
febr. 1947, búsettur í Vestmanna-
eyjum, kvæntur Hólmfríði Val-
gerði Jónsdóttur, f. 19. des. 1944.
Börn þeirra: a) Guðrún, f. 3. maí
1965, gift Tryggva Arnsteini Guð-
mundssyni, f. 28. jan. 1964. Börn
þeirra eru Torfi Þór, f. 12. maí
1992, Thelma Rut, f. 17. apríl 1996
og Guðný Vala, f. 1. okt. 1998. Son-
ur Guðrúnar með Starra Hjartar-
syni, f. 7. sept. 1963, er Daníel, f.
14. okt. 1987. b) Kristinn Már, f. 10.
júní 1968, kvæntur Sunnu Vil-
borgu Jónsdóttur, f. 1. nóv. 1971
Börn þeirra: Jón Stefán, f. 25. okt.
1994, Patrekur Örn, f. 24. ágúst
1997 og Þórgunnur Ása, f. 17. júlí
2000. c) Védís Elfa, f. 3. júlí 1972,
gift Helga Ingimarssyni, f. 21. júlí
1972. Börn þeirra: Hinrik Pétur, f.
17. des. 1998, Hákon Ingi, f. 28.
júní 2002 og Hrafnhildur, f. 10.
nóv. 2004. d) Árni Kár, f. 3. okt.
1977, kvæntur Evu Hrund Einars-
dóttur, f. 26. febr. 1977. 2) Svan-
hildur húsfreyja á Engi í Bárðar-
dal, f. 12. júní 1948, gift Tryggva
Valdimarssyni bifvélavirkja, f. 25.
ágúst 1942. Börn þeirra: a) Hrafn-
hildur, f. 30. ágúst 1969. b) Valdi-
mar, f. 19. ágúst
1970, í sambúð með
Dóru Hrönn Gústafs-
dóttur, f. 26. ágúst
1970. Barn þeirra:
Svanhildur Marín, f.
6. des. 2003. c) Aðal-
steinn, f. 6. ágúst
1971. d) Ragnheiður,
f. 19. júní 1975, gift
Haraldi Jónassyni, f.
30. ágúst 1976. e)
Rósa, f. 21. okt. 1978.
3) Kolfinna, hús-
freyja á Akureyri, f.
11. ágúst 1950, gift
Símoni Inga Gunn-
arssyni mjólkurfræðingi, f. 21. des.
1946. Börn þeirra: a) Sigtryggur, f.
11. okt. 1975, í sambúð með Ingi-
gerði Einarsdóttur, f. 8. sept. 1977.
b) Oddrún Helga, f. 24. jan. 1978,
gift Davíð Rúnari Jóhannessyni, f.
9. mars 1980. c) Gunnar, f. 8. mars
1981. d) Símon, f. 1. okt. 1987. e)
Bjarki, f. 15. maí 1993. 4) Jórunn, f.
11. ágúst 1950, húsfreyja í Löngu-
hlíð í Hörgárdal, d. 25. júní 2002,
eftirlifandi eiginmaður hennar er
Kristján Ingi Hermannsson, f. 18.
des. 1939, búsettur á Akureyri.
Börn þeirra: a) María Björk, f. 3.
júlí 1970, í sambúð með Ágústi
Ólafssyni, f. 30. maí 1971. Dóttir
þeirra: Íris Björk, f. 7. sept. 2001.
b) Sigurður Hörður, f. 5. júlí 1971,
barn hans með Karen Björk Ósk-
arsdóttur, f. 29. sept. 1974, er
Andrea Ósk, f. 10. maí 2000. c)
Heiðdís Harpa, f. 5. okt. 1976. d)
Sólveig Halla, f. 14. des. 1977.
Hrafnhildur ólst upp á Jórunn-
arstöðum, fór vestur á Ísafjörð
rúmlega tvítug, vann þar á elli-
heimili og sjúkrahúsi og fór í Hús-
mæðraskólann. Þau Sigtryggur
hófu búskap á Jórunnarstöðum
1948 og fluttust til Akureyrar
1974. Þar starfaði Hrafnhildur
m.a. við fiskvinnslu hjá ÚA og á
saumastofu Heklu um árabil. Auk
hefðbundinna húsmóðurstarfa í
sveit sinnti hún heimilisaðstoð og
var gerð heiðursfélagi í Kven-
félaginu Hjálpinni árið 1991 fyrir
störf í þágu félagsins.
Útför Hrafnhildar verður gerð
frá Akureyrarkirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.30.
Jólin eru tími gleði og kærleika, allt
svo fallegt og friðsælt. Amma gat ekki
valið fallegri dag en aðfangadag jóla
til að kveðja þetta líf og hefja nýtt líf á
himnum. Eftir erum við með söknuð í
hjarta en glöð ömmu vegna því hún er
komin til afa og Jórunnar sinnar. Hve
afi hefur verið glaður að hitta hana
aftur, svo reffilegur í sparifötunum
sínum, svolítið glottandi en örugglega
með tár á hvörmum.
Það er ekki hægt að lýsa ömmu í
einu orði, hún var svo einstök kona.
Minningarnar hlaðast upp, við áttum
margar góðar stundir saman. Ég man
eftir jólaboðum, heitu súkkulaði með
þeyttum rjóma, fallega röðuðum smá-
kökum á fati, lærisneiðum í raspi með
laukhring ofan á, heitum rabarbar-
agraut, ís og ávöxtum, man eftir jóg-
úrti úr mjólkurbílnum hans afa sem
var svo miklu betra en úr búðinni,
man eftir þvottadögum á laugardög-
um og bílferðum í Skodanum hans
afa. Sérstaklega man ég eftir helgarg-
istingum í Norðurgötunni. Afi pikkaði
á ritvélina sína og raulaði lagstúf,
amma settist á rúmstokkinn hjá mér,
fór með bænirnar og signdi yfir mig.
Það var notalegt og gott að koma til
þeirra. Um tíma bjó ég í þarnæsta
húsi við þau, þá var stutt að hlaupa yf-
ir í kaffisopa og spjall. Það var oft
mikið hlegið og amma sagði mér sög-
ur úr sveitinni frá því hún var ung
kona, frá því börnin hennar voru lítil
og margt fleira sem ég geymi. Mér
þykir vænt um þessar stundir og
þessi samtöl.
Amma átti ekki auðvelda ævi, var
mikið fötluð en aldrei heyrði ég hana
kvarta. Hún var lagin í höndunum,
gerði við prjónaföt til margra ára,
saumaði mikið og bjó til besta flat-
brauð í heimi. Hún var aldrei verk-
efnalaus, enda mörg sokkapörin og
vettlingarnir sem hafa hlýjað köldum
puttum og tásum í gegnum tíðina. Það
eru forréttindi að hafa átt svona ein-
staka ömmu. Ég lærði mikið um lífið
og tilveruna af henni, að vera þakklát
fyrir allt. Rétt fyrir jólin fór ég til
ömmu með nýjasta langömmubarnið
hennar, hana Hrafnhildi litlu, þá 5
vikna gamla. Amma ljómaði öll þrátt
fyrir veikindi sín, sat með hana um
stund og bað guð að blessa hana.
Elsku amma, nú biðjum við Guð að
blessa þig og þakka þér fyrir allar
góðu stundirnar okkar saman.
Þín
Védís og fjölskylda.
HRAFNHILDUR AÐ-
ALSTEINSDÓTTIR
Morgunblaðið birtir minningargreinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is
(smellt á reitinn Morgunblaðið í fliparöndinni – þá birtist valkosturinn „Senda
inn minningar/afmæli“ ásamt frekari upplýsingum).
Skilafrestur Ef birta á minningargrein á útfarardegi verður hún að berast fyr-
ir hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða
þriðjudegi). Ef útför hefur farið fram eða grein berst ekki innan hins tiltekna
skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er tak-
markað getur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skilafrestur renn-
ur út.
Lengd Minningargreinar séu ekki lengri en 2.000 slög (stafir með bilum -
mælt í Tools/Word Count). Ekki er unnt að senda lengri grein.
Minningargreinar