Fréttablaðið - 30.07.2005, Blaðsíða 41
HVERJIR VORU KRÓMAGNON-
MENN?
Hugtakið krómagnonmenn á ræt-
ur sínar að rekja til fornleifafund-
ar í Cro-Magnon hellisskútanum
við bæinn Les Eyzies í Dordogne-
héraði í suðvesturhluta Frakk-
lands árið 1868. Verkamenn sem
unnu við lagningu járnbrautar
komu niður á mannabein og að lok-
inni rannsókn á staðnum höfðu
bein úr fimm til átta einstakling-
um verið grafin upp, auk ýmissa
dýrabeina og steinverkfæra.
Dýrabeinin, meðal annars úr
mammútum, bentu til þess að
fundurinn væri frá síðasta hluta
ísaldar. Steinverkfærin sýndu að
auki að hann væri frá því menn-
ingarsögutímabili sem kallað er
Aurignacien, en það hófst fyrir um
36 þúsund árum og stóð yfir í 6
þúsund ár.
Nútímamaðurinn og neanderdals-
maðurinn
Það vakti strax athygli vísinda-
manna að beinin frá Cro-Magnon
voru af nútímamönnum (Homo
sapiens sapiens). Þróunarkenning-
in var enn ung og mjög umdeild og
þessi niðurstaða var því vatn á
myllu andþróunarsinna sem töldu
að nútímamaðurinn hefði verið
skapaður í sinni núverandi mynd
og væri ekki afkomandi frumstæð-
ari manntegunda, svo sem neand-
erdalsmannsins (en uppgötvun
hans varð árið 1856 og var því að-
eins rúmlega tíu ára gömul).
Reyndar kom snemma í ljós að
beinin í Cro-Magnon voru 10 til 20
þúsund árum yngri en fundur
neanderdalsmannsins úr Feld-
hofer-hellinum í Neanderthal.
Í dag eru fundarstaðir stein-
gervinga nútímamannsins í Evr-
ópu orðnir þónokkuð margir. Auk
Cro-Magnon eru þeir elstu í
Móravíu í Tékklandi, það er í Mla-
dec (um 33 þúsund ára) og Pred-
mostí (um 28 þúsund ára). Forn-
leifafræðingar og þróunarmann-
fræðingar eru sammála um að
Aurignacien-menningarskeiðið sé
skeið nútímamannsins en forn-
leifafundir frá því tímabili eru allt
að því 40.000 ára gamlir. Einnig er
nú vitað að nútímamaðurinn og
neanderdalsmaðurinn lifðu saman
í Evrópu í um 7 til 10 þúsund ár, en
yngsti fundur neanderdalsmanns-
ins, í Zafarraya á Suður-Spáni, er
um 30 þúsund ára gamall.
Nútímamenn kenndir við
Cro-Magnon hellisskútann
Snemma skapaðist sú hefð að
kenna alla forna nútímamenn við
hellisskútann í Les Eyzies og kalla
þá krómagnonmenn. Sumir vís-
indamenn vilja líka kalla frum-
gerðir nútímamannsins sem fund-
ist hafa í Miðausturlöndum (til
dæmis í Qafzeh og Skuhl í Ísrael)
og eru um 100.000 ára gamlar,
frum-krómagnonmenn (e. Proto-
Cromagnoids). Mörgum þykja
þessar nafngiftir aftur á móti svo-
lítið villandi þar sem hinir eigin-
legu krómagnonmenn eru aðeins
fulltrúar nútímamannsins sem
settist að í Evrópu.
Afríkuútrásin
Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að á
þessu tímabili var formfræði nú-
tímamannsins nokkuð einsleit sem
þýðir að líkamsgerð hans í Afríku,
Evrópu, Asíu og Ástralíu var mjög
svipuð. Þetta styrkir stoðir þeirrar
tilgátu um uppruna nútímamanns-
ins sem jafnan er kennd við Afr-
íkuútrásina (e. the Out-of-Africa
Hypothesis). Samkvæmt henni
þróaðist nútímamaðurinn (Homo
sapiens sapiens) í Afríku fyrir um
200 þúsund árum. Fyrir rúmum
100 þúsund árum hóf hann svo út-
rás sem náði til flestra meginland-
anna fyrir um 40 til 50 þúsund
árum. Síðast náði hann þó til Am-
eríku en þangað kom nútímamað-
urinn fyrst fyrir um það bil 20 þús-
und árum.
Evrópubúar í dag eru töluvert
ólíkir krómagnonmönnum og í
raun má segja það sama um skyld-
leika íbúa annarra heimsálfa við
fyrstu nútímamenn hvers svæðis
fyrir sig, eins og til dæmis Asíu-
búa við hina tæplega 30 þúsund
ára gömlu steingervinga úr Efri-
helli í Zhoukoudian nálægt Peking.
Fjölbreytileiki mannkyns er til-
kominn á síðustu 10 þúsund árum.
Við erum afkomendur einsleits
hóps nútímamanna sem var uppi á
síðasta hluta ísaldar. Krómagnon-
mennirnir voru hluti þessa hóps.
Kristján Mímisson, fornleifa-
fræðingur og þróunarmannfræð-
ingur á Fornleifafræðistofunni.
HVERS VEGNA HEITIR ÖSKJU-
HLÍÐ Í REYKJAVÍK ÞESSU
NAFNI?
Öskjuhlíð getur verið gamalt nafn.
Hún hefur vafalaust tilheyrt land-
námsbænum Vík (Reykjarvík) frá
upphafi. Nafnið Víkurholt, sem
nefnt er í máldaga Víkur frá 1379,
gæti átt við Skólavörðuholt en þó
fremur Öskjuhlíð, þar sem segir:
„Víkurholt með skóg og selstöðu“
(Íslenskt fornbréfasafn III, bls.
340).
Öskjuhlíð í heimildum frá 19. öld
Elín Þórðardóttir hét síðasta sel-
ráðskonan í Víkurseli. Árið 1828
gaf hún vitnisburð um landamerki
Reykjavíkur og Skildinganess,
meðal annars með þessum orðum:
„Sel hafði faðir minn og allir hans
forfeður vestan og sunnan undir
Öskjuhlíð“ (Helgi M. Sigurðsson
og Yngvi Þór Loftsson, Öskjuhlíð,
náttúra og saga. Reykjavík 1993,
bls. 24). Nafnið hefur stundum
verið stytt því að í áreiðargerð
vegna landamerkja, þar sem farið
er eftir landamerkjum jarða til
upprifjunar eða staðfestingar, frá
1787 er talað um „Trevarder paa
Hlidin“ (Ólafur Lárusson, Byggð
og saga. Reykjavík 1946, bls. 106).
Jónas Hallgrímsson nefnir Öskju-
hlíð í dagbók sinni frá 1840 (Rit-
verk II (1989), bls. 364).
Öskjuhlíð / Eskihlíð
Að minnsta kosti frá því um miðja
19. öld bar hæðin einnig nafnið
Eskihlíð. Á korti frá 1850 er nafnið
Öskjuhlíð aðalnafnið en Eskihlíð
smáletrað (Öskjuhlíð, náttúra og
saga, bls. 7). Býlið Eskihlíð (síðar
við Miklatorg) var þó ekki stofnað
fyrr en 1891.
Eski (eskigras) hefur fundist í
hlíðinni en líklegra er að nöfnin
Öskjuhlíð/Eskihlíð séu dregin af
líkingu við öskjur, sem höfðu kúpt
lok og voru notaðar meðal annars
til að geyma í lín, einkum höfuð-
búnað kvenna. Orðin askja, eski og
eskja merkja hið sama, oft notað í
fleirtölu, trafaöskjur = trafeskjur.
Eski er upphaflega trjátegundin
askur, en síðan haft um ílát úr
þeim viði. Tvímyndir nafnsins
kunna því að hafa þekkst frá fornu
fari: Eskihlíð og Öskjuhlíð, saman-
ber Eskiholt (Eskjuholt) og Öskju-
holt á Mýrum (Íslenskt fornbréfa-
safn XV, bls. 258).
Svavar Sigmundsson, forstöðu-
maður Örnefnastofnunar.
Vísindavefur Háskóla Íslands fjallar um öll vísindi,
hverju nafni sem nefnast. Að jafnaði birtast þar
15-20 ný svör í hverri viku. Meðal spurninga sem
þar hefur verið glímt við að undanförnu eru: Hvaðan kemur nafnið Garður á byggðarlagi á Suður-
nesjum, eru til vampírur, af hverju fer að rigna ef maður drepur járnsmið, hvar geta Reykvíkingar
skoðað stjörnuhimininn, er til steinn sem flýtur og hvað er einn rúmkílómetri af lofti þungur? Hægt
er að lesa svör við þessum spurningum og fjölmörgum öðrum á slóðinni www.visindavefur.hi.is.
VÍSINDAVEFUR
HÁSKÓLA ÍSLANDS
Krómagnonmenn og
Öskjuhlí›in
LAUGARDAGUR 30. júlí 2005