Fréttablaðið - 06.05.2006, Qupperneq 65
LAUGARDAGUR 6. maí 2006
Stutta, einfalda svarið er að það
var aldrei til nein fyrsta kona eða
fyrsti maður; slíkt er ekki hægt að
skilgreina eða afmarka.
Maðurinn hefur orðið til við
þróun
Samkvæmt vísindum nútímans
(þróunarkenningunni) hefur teg-
undin maður eða nútímamaður,
Homo sapiens, orðið til við þróun
á sama hátt og aðrar tegundir lífs
á jörðinni. Hugsum okkur að ein-
hvern tímann í fyrndinni hafi
verið til einhver tegund lífvera
sem við köllum X. Þetta merkir að
ákveðinn stofn eða hópur hefur
myndað eina heild að því leyti að
einstaklingar innan hans hafa
getað æxlast innbyrðis og átt frjó
afkvæmi. Þannig hafa þeir getað
viðhaldið og jafnvel fjölgað í
stofninum ef aðstæður hafa verið
nógu hagkvæmar til þess. Ein-
staklingar í stofninum X geta hins
vegar ekki átt frjó afkvæmi með
einstaklingum af öðrum tegund-
um.
Umhverfið eitt og sér veldur ekki
breytingum
Ef stofninn er vel lagaður að
umhverfi sínu, það breytist ekki
verulega og ekkert annað sérstakt
kemur fyrir, þá er líklegt að það
gerist ósköp lítið með þennan
stofn. Það fjölgar eða fækkar í
honum eftir aðstæðum á hverjum
tíma, en einstaklingar í stofninum
taka litlum breytingum ef á heild-
ina er litið. Breytist aðstæður hins
vegar verulega getur það gerst að
einstaklingar með tiltekna eigin-
leika hverfi úr stofninum og aðrir
standi eftir. Þeir hafa þá sömu eig-
inleika og hluti stofnsins hafði
áður, en nýir eiginleikar verða
ekki til við breytingar á umhverfi
einar og sér.
Stökkbreytingar og náttúruval
Til þess að nýir arfgengir og þar
með varanlegir eiginleikar verði
til í stofninum þurfa að koma til
stökkbreytingar eða endurröðun
erfðaefnisins í einstaklingi. Flest-
ar stökkbreytingar eru að vísu
óhagstæðar þannig að einstakling-
urinn deyr eða á ekki frjó afkvæmi.
Engu að síður verða öðru hverju
hagstæðar stökkbreytingar sem
haldast í stofninum og breiðast út,
meðal annars af því að einstakl-
ingarnir sem bera þær eru á ein-
hvern hátt „hæfari“ sem kallað er,
en það nefnist náttúruval. Þessar
hagstæðu stökkbreytingar mega
ekki vera of miklar því að þá er
líklegt að einstaklingurinn verði
ófrjór. Þess vegna þurfa venju-
lega að verða margar stökkbreyt-
ingar til þess að ný tegund verði
til, það er að segja nýr stofn Y sem
aðskilur sig þannig frá gamla
stofninum X að einstaklingar af
stofni Y og X geta ekki átt saman
frjó afkvæmi.
„Fyrsti maðurinn“ var ekki til
Á þennan hátt hefur nútímamað-
urinn sem tegund orðið til og er nú
talið að það hafi gerst fyrir um
það bil 130.000 árum, það er að
segja löngu, löngu áður en nokkr-
ar sögur hófust. Jafnvel þótt þeir
sem þá voru uppi hefðu kunnað
skil á tegundarhugtaki og þróun-
arkenningu nútímans hefðu þeir
ekki getað bent á einhvern tiltek-
inn einstakling, karl eða konu, og
sagt: „Þú ert fyrsti maðurinn“. Og
þó svo að við gætum til dæmis
horft á einhvers konar kvikmynd
af því sem var að gerast í náttúr-
unni þegar tegundin maður varð
til, þá mundum við heldur ekki
geta tilgreint hver var fyrstur. Til
þess eru skrefin í þróuninni alltof
smá eins og áður var lýst.
Hvað þarf mörg sandkorn í eina
hrúgu?
Þess eru mörg dæmi í umhverfi
okkar og talsmáta að við getum
ekki sagt til um hver sé fyrstur,
stærstur, minnstur eða bestur.
Dæmið um fyrsta manninn er
kannski líkast því þegar við hell-
um úr sandpoka og spyrjum hve-
nær verður til hrúga. Við getum
þá ekki bent á tiltekið sandkorn og
sagt að hrúgan hafi orðið til þegar
þetta sandkorn bættist við.
Þorsteinn Vilhjálmsson,
prófessor í vísindasögu og
eðlisfræði
Hvað er krían lengi að fljúga
frá Íslandi til Suðurskauts-
landsins?
Enginn fugl í heiminum ferðast
jafnlanga leið á milli varp- og vetr-
arstöðva og krían (Sterna parad-
isaea). Flugleiðin frá varpstöðv-
um á norðurhjaranum suður að
ísbreiðunum við Suðurskautsland-
ið getur verið rúmlega 15 þúsund
km og þessa vegalengd fer fuglinn
tvisvar á ári. Krían eltir því í raun
sumarið og birtuna þar sem hún
heldur í sumarið á Suðurskauts-
landinu þegar vetur er hér og
kemur svo aftur í vorið á norður-
hveli þegar haustar á suðurhveli
jarðar.
Ferðalög í 5 mánuði á ári
Fuglafræðingar hafa rannsakað
þetta langa ferðalag kríunnar,
bæði farleiðina og hversu langan
tíma ferðalagið tekur. Að vori er
ferðatíminn um 60 dagar. Hún
leggur upp í byrjun mars og kemur
hingað til lands um mánaðamótin
apríl/maí. Haustfar kríunnar er
hægara og tekur um 90 daga. Hún
fer þá héðan í lok ágúst og er
venjulega komin til Suður-Afríku í
nóvember eða desember. Þannig
ver krían samtals 5 mánuðum á
ári í ferðalög.
Ferð í mörgum áföngum
Krían fer þessa löngu leið hægt og
bítandi og leitar fæðu á leiðinni.
Flughraði hennar í logni er ein-
hvers staðar á bilinu 50-60 km á
klukkustund. Ferðin til og frá Suð-
urskautslandinu er hins vegar í
mörgum áföngum og því verður
meðalhraði ferðalagsins lágur.
Höfundur þakkar Guðmundi A.
Guðmundssyni fuglafræðingi
aðstoð við gerð þessa svars.
Jón Már Halldórsson,
líffræðingur
Hvernig varð fyrsta konan
eða maðurinn til?
�������������
���������������
Vísindavefur Háskóla Íslands fjallar um öll vísindi, hverju nafni sem þau nefnast. Að
jafnaði birtast þar 15-20 ný svör í hverri viku. Meðal spurninga sem glímt hefur verið
við að undanförnu eru: Af hverju fær maður prófkvíða og hvernig getur maður losnað
við hann, getið þið sagt mér eitthvað um beltisþara, hvaða áhrif hafa berserkjasveppir
á mann, af hverju varpast skuggar ekki í lit, hver er munurinn á trölli, jötni og risa, hvað
er módernismi og úr hverju er augað? Hægt er að lesa svör við þessum spurningum og
fjölmörgum öðrum á slóðinni www.visindavefur.hi.is
Enginn fugl ferðast eins langt á milli árs-
tíðabundinna heimkynna og krían.