Fréttablaðið - 17.03.2007, Page 46
INNBAKAÐUR BBQKJÚKLINGUR
2 msk. olía
4 kjúklingabringur, skornar í litla bita
200 g salamipylsa eða önnur góð pylsa, skorin í smáa
bita
1 lítill laukur, fínt saxaður
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
salt og cayennepipar
2 dl vatn
2 dl sæt BBQ-sósa
3 msk. steinselja, söxuð
5 msk. rifinn parmesanostur
1½ dl brauðmylsna
smjördeig eða gerdeig
Brúnið kjúklinginn í olíu á heitri pönnu í 2-3 mín.,
látið pylsuna saman við og steikið í 2 mín., þá lauk-
inn og hvítlaukinn og svitið í 5 mín. Kryddið með
salti og cayenne-pipar eftir smekk. Hellið vatni á
pönnuna, BBQ-sósu, steinselju og osti og blandið
saman. Takið af hitanum og hrærið brauðmylsnu
saman við. Kælið.
Nú er margt hægt að gera – nota smjördeig eða
gerdeig; gera eina stóra rúllu úr smjördeigi til að
baka heila og skera í sneiðar, sbr. á myndinni, (þ.e.
setja blönduna á mitt deigið og rúlla því saman)
eða gera litla snúða úr gerdeigi sem flatt er út,
blandan smurð á deigið og rúllað upp . Einnig er
hægt að setja blönduna í tartalettur eða litlar
smjördeigsskeljar sem fást í stórmörkuðum eða
setja inn í rúllutertubrauð. Bakið við 200 gráður
þar til deigið/brauðið er gullið. (Magn sbr. í 2 rúllu-
tertubrauð eða í um 25 snúða).
INNBAKAÐ HAKK Í SÆTRI CHILLÍSÓSU
450 g nautahakk
125 g beikonbitar
1 msk. olía
1 stór laukur, smátt saxaður
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
2 msk. tómatpasta/púrra
1 msk. söxuð basilíka
salt og chillíduft
SÆT CHILLÍSÓSA:
200 g niðursoðnir, saxaðir tómatar
1 dl sæt chillísósa
safi úr einu lime
1 msk. púðursykur
chillípipar eftir smekk
Mýkið lauk og hvítlauk í olíu á pönnu, hrærið
hakkið og beikonbitana saman við og látið brún-
ast. Þegar það fer að gerast er tómatpúrran
hrærð saman við ásamt basilíku. Smakkið til
með salti og chillídufti. Látið kólna. Setjið í mat-
vinnsluvél og maukið örlítið, til að hakkið og
beikonið blandist betur saman og eins verður
það áferðarfallegra og gott að eiga við þegar
sett er í snúða. Hrærið saman allt hráefnið í
sætu chillísósuna. Blandið saman við hakkið.
Nú er margt hægt að gera (sbr. í uppskrift-
inni að bbq-kjúklingnum).
OSTAFYLLT EGGJABRAUÐ
Gerdeig (mæli með að nota uppskrift að deigi
sem þið þekkið og hafið gert áður. Ef hugað að
þægindum þá er gott að kaupa deigið tilbúið í
bakaríium)
6 harðsoðin egg
200 g skinka, hráskinka, steikt beikon eða salami
250 g smurostur að eigin vali
1 mosarellakúla, skorin í smáa bita
100 reyktur ostur, skorinn í smáa bita
Fletjið út deigið í langa og beina lengju, um 20
cm breiða. Smyrjið það með smurostinum. Strá-
ið skinku eða öðru áleggi í eina, beina röð eftir
miðju deiginu, um 5 cm breiða. Þá mosarella-
ostinum og þeim reykta. Setjið heil, harðsoðin
egg í röð ofan á ostinn og áleggið, hafið jafnt bil
á milli þeirra. Rúllið deigið upp, þ.e. lokið því
yfir eggjablönduna. Setjið upprúllað deigið í
hringlaga bökunarform, formkökuform með
staut í miðjunni, og festið endana vel saman.
Bakið við 180 gráða hita í 40-50 mín. eða þar til
deigið er gullið og osturinn vel bráðinn.
Umsjón og eldamennska: Halla Bára Gestsdóttir
Myndir: Gunnar Sverrisson
17. MARS 2007 LAUGARDAGUR4 fréttablaðið fermingar
Einhverra hluta vegna er það brauðmeti sem
hvað mest gengur á þegar sett er saman fjöl-
breytt veisluborð sem á að ná hylli allra aldurs-
hópa.
Í fermingarveislum er aldurssamsetningin mjög
breið og margt sem þarf að hafa í huga við að ákveða
hvað skal hafa á boðstólum.
Hér eru uppskriftir að þremur brauðréttum sem
ganga hæglega með ólíkum réttum á hlaðborði. Ann-
ars vegar er um að ræða ostafyllt brauð með heilum
harðsoðnum eggjum en eggin eru skemmtileg viðbót
í nýbakað brauð. Hins vegar eru uppskriftir að tveim-
ur kjötfyllingum sem hægt er að nota á ýmsa vegu;
með smjördeigi jafnt sem gerdeigi og að sjálfsögðu
einnig fílódeigi ef vilji er fyrir. Fyllingarnar er hægt
að nota í rúllutertubrauð eða setja þær í tartalettur.
Jafnvel setja þær ofan á pítsubotna, strá osti yfir og
inn í ofn.
Það sem gerir það hins vegar hentugt að hafa
brauðmeti sem þetta á borðum er að það má undirbúa
allt fyrirfram. Fyllingarnar er hægt að gera daginn
áður, jafnvel setja þær í deigið, sbr. ef um snúða er að
ræða og baka á veisludaginn (einnig má undirbúa
þetta mun fyrr og hafa tilbúið í frystikistunni í nokkra
daga). Eggjabrauðið má sömuleiðis hafa tilbúið
kvöldið áður.
Brauð á fermingarborðRÁÐ FYRIR FERMINGUNA Verið ófeimin að biðja ættingja og vini að baka og hjálpa til við fermingarundirbúninginn. Aðalatriðið er
að biðja tímanlega um greiðann.
Takið fermingarbarnið með þegar velja á kerti og servíettur. Flest
börn vilja fá að vera með í ráðum um skreytingar í sinni eigin veislu.
Ef bjóða á upp á kaffi og kökur í fermingarveislunni er sniðugt að
byrja strax í janúar að huga að bakstri. Veljið tertur sem auðvelt er að
setja í frysti og þær sem ekki þarf að skreyta mikið. Veljið fimm sortir
og bakið eina tertu hverja helgi og skellið í frysti. Sniðugra er að hafa
tegundirnar færri en fleiri og hafa frekar tvær kökur af hverri tegund.
Úr hverri tertu í venjulegri stærð fást 12 sneiðar. Mátulegt er að
reikna með þremur sneiðum á mann, þannig að auðvelt er að áætla
hversu mikið þarf að baka.