Fréttablaðið - 10.11.2007, Blaðsíða 74
Hver voru morgunverkin?
Fyrst: Létt ab-mjólk með Cheerios, blaðalest-
ur og stór krús af assam-tei. (Lauftei, að
sjálfsögðu!) Síðan: Svaraði fyrirliggjandi
tölvupósti og skellti mér því næst á hlaupa-
brettið og gekk þrjá kílómetra.
Ég var með asnalegustu hárgreiðsluna árið...
1980. Þá lét ég setja í mig tryllt permanent,
svona afró-krullur sem voru í tísku á þessum
tíma. Hvílíkur hryllingur!
Hver er besta minning síðasta árs?
Ég safna góðum minningum – mjög meðvitað
– og á heilan helling af þeim. Sú síðasta
bættist í safnið fyrir nokkrum kvöldum
þegar sonur minn galdraði fram besta
grænmetislasanja allra tíma og mamma kom
og borðaði með okkur.
Þú ert ofuruppfinningamaður – hvaða
sniðuga tæki býrðu til og gefur öllum í
jólagjöf?
Auðvitað tæki til að lengja sólarhringinn.
Flestir sem ég þekki eiga þá ósk heitasta að
hafa meiri tíma til umráða. Og það á að
sjálfsögðu líka við um sjálfa mig.
Hvaða kæki ertu með?
Ég er sífellt að rífa af mér gleraugun og
pússa þau. Ég þoli ekki skítug gleraugu og
hef stundum orðið mér til skammar með því
að bjóða öðrum að pússa gleraugun þeirra.
Svo er það hálfgerður kækur hjá mér að
klína á mig eldrauðum varalit. Mér finnst ég
alveg ómöguleg ef ég er ekki með varalit.
Poka af hverju gætirðu borðað án þess að
blása úr nös?
Ostapoppi. Þó er ég eiginlega hætt að þora að
borða popp. Ég hef nokkrum sinnum þurft að
leita á náðir tannlæknis þegar maís festist í
tannholdinu á mér. Afar vandræðalegt.
Hvað ættirðu í raun að vera að gera núna?
Mér heyrist garnirnar vera að gaula eitthvað
um að ég ætti að vera að borða kvöldmat.
Hvað fær þig alltaf til að brosa sama hversu
ómögulegur dagurinn var?
Sjónvarpsþáttur á BBC sem Stephen Fry
stjórnar og nefnist QI. Ég hlæ alltaf svo
undir tekur í Vesturbænum þegar sá þáttur
er á dagskrá og myndi varla slíta mig frá
sjónvarpstækinu þótt eldur kæmi upp í
íbúðinni.
Vinsamlegast gefið mér ...
... óskastein með ótæmandi innistæðu. Ég
lofa að nota hann allri heimsbyggðinni til
hagsbóta.
Hvaða leikkonu myndir þú fá til að leika í
ævisögulegri kvikmynd um þig? Hver yrði
lokasetning kvikmyndarinnar?
Það verður náttúrulega að ráða nokkrar
leikkonur ef myndin á að spanna alla ævina.
Lokasenan yrði svona: Grátbólgnir ættingjar
og vinir í jarðarförinni, miður sín af sorg og
söknuði. En ég sit í lótusstellingu uppi á
kistunni – gegnsæ en ekki með vængi – og
segi: „Hættið nú að gráta, greyin mín, og
verið glöð!“
Hvaða frasa ofnotar þú?
Ooo, ég þoli ekki að missa út úr mér
„nákvæmlega“ í staðinn fyrir „einmitt“. Samt
er þetta alltaf að gerast.
Ef þú yrðir að fá þér tattú – hvernig tattú
myndirðu fá þér og hvar myndirðu láta setja
það?
Ég myndi berjast um á hæl og hnakka og
aldrei, aldrei, aldrei láta tattúera mig á
meðan ég væri með fulla meðvitund. En
sniðugasta tattú sem ég hef séð er örsmátt
letur á ökkla systurdóttur minnar. Þar
stendur: Made in Iceland. Skemmtilegur
húmor!
Hvaða teiknimyndapersónu myndirðu búa
með ef þú yrðir að velja eina?
Stjána bláa. Ekki spurning. Hann er svo
sterkur að hann gæti varið mig fyrir öllu illu.
Svo er ég líka mjög sólgin í spínat, eins og
hann.
Eftirlætislykt?
Er til betri lykt en af gróskumikilli basilíku-
plöntu? Ég efa það stórlega.
Hvað er það hégómlegasta sem þú veist um?
Líf okkar Vesturlandabúa er einn allsherjar-
hégómi.
Snögg – skáldaðu nýtt heiti á gosdrykk!
Gosi. Er svoleiðis drykkur kannski þegar til?
Hverju tekurðu fyrst eftir í fari fólks?
Hvort það er einlægt eða að leika.
Þú tekur að þér gæludýraapa. Hvað nefnirðu
hann?
Níels, í höfuðið á apa Línu langsokks.
Frægasti ættingi þinn?
Ætli það sé ekki Loftur Guðmundsson,
móðurafi minn, sem var ljósmyndari og einn
af fyrstu kvikmyndagerðarmönnum á
Íslandi.
Þú ert heygð að víkingasið – hvaða þrjá hluti
viltu láta grafa með þér?
Í fyrsta lagi vil ég láta brenna mig og í öðru
lagi finnst mér illa farið með góða hluti að
grafa þá með dauðum skrokkum.
Besta bók allra tíma?
Það getur engin bók staðið undir slíkum titli.
Ég get hins vegar nefnt bók sem hafði mikil
áhrif á mig. Hún er eftir Brian L. Weiss,
nefnist Many Lives, Many Masters og er til í
íslenskri þýðingu.
Hvert sækirðu innblástur?
Ég sæki hann ekkert. Hann mætir bara á
staðinn.
Á hvaða tíma sólarhrings hentar þér best að
skrifa?
Frá níu á morgnana til miðnættis.
Og að lokum – um hvað er skemmtilegast að
skrifa?
Mannleg samskipti, mannleg samskipti,
mannleg samskipti.
Var með asnalegustu
hárgreiðsluna árið 1980
Jónína Leósdóttir hefur í rúm 30 ár starfað við skriftir. Meðfram því að skrifa skáldsögur og þýða starf-
aði hún sem blaðamaður og aðstoðarritstjóri á tímaritinu Nýju lífi þar sem hún skrifaði meðal annars
áhugaverða pistla um mannleg samskipti. Nú hefur Jónína einmitt gefið út bókina Talað út, bók um
mannleg samskipti, og skáldsögu fyrir unglinga sem ber heitið Kossar og ólífur. Jónína var tekin í yfir-
heyrslu helgarinnar.