Morgunblaðið - 31.01.2006, Blaðsíða 16
16 ÞRIÐJUDAGUR 31. JANÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
HÓPUR vopnaðra manna réðst inn í skrifstofu
Evrópusambandsins í Gaza-borg í gær til að mót-
mæla birtingu umdeildra teikninga af Múhameð
spámanni í dönskum og norskum blöðum. Menn-
irnir kröfðust þess að stjórnvöld í Danmörku og
Noregi bæðust afsökunar á málinu og sögðu að
Dönum og Norðmönnum væri bannað að vera á
Gaza-svæðinu.
Danska utanríkisráðuneytið ráðlagði Dönum,
sem ferðast um Mið-Austurlönd, að „sýna ýtrustu
aðgæslu“.
Kveikt í dönskum og
norskum fánum
„Við hvetjum ríkisborgara Danmerkur og Nor-
egs til að taka þessa hótun alvarlega vegna þess að
sellur okkar eru tilbúnar að koma banninu í fram-
kvæmd út um allt Gaza-svæðið,“ sagði einn fimm-
tán manna sem réðust inn í skrifstofu Evrópusam-
bandsins í Gaza-borg. Þeir voru vopnaðir
handsprengjum og byssum en beittu ekki vopn-
unum. Þeir fóru út úr byggingunni um hálfri
klukkustund síðar.
Al Aqsa-hersveitirnar, herská hreyfing sem
tengist Fatah, flokki Mahmouds Abbas, leiðtoga
Palestínumanna, lýsti áhlaupinu á hendur sér. Að
sögn fréttavefjar danska ríkisútvarpsins krafðist
hreyfingin þess að allir Danir og Svíar færu af
Gaza-svæðinu innan þriggja daga. Önnur herská
hreyfing Palestínumanna, Íslamskt jíhad, krafðist
þess að Danir, Norðmenn og Svíar færu af svæð-
inu innan tveggja daga.
Palestínumenn mótmæltu einnig birtingu teikn-
inganna af Múhameð spámanni með því að kveikja
í dönskum og norskum fánum.
Danska dagblaðið Jyllands-Posten birti teikn-
ingarnar í september og kristilegt tímarit í Nor-
egi, Magazinet, endurbirti þær 10. janúar. Sam-
kvæmt kenningum íslam er það guðlast að sýna
Múhameð spámann í myndum og teikningarnar
hafa valdið miklu uppnámi í löndum múslíma.
Sumar þeirra minntu á skopmyndir og á einni
þeirra var spámaðurinn með túrban sem líktist
sprengju.
Sendiráði Líbýu lokað
Danska utanríkisráðuneytið gaf í gær út yfirlýs-
ingu þar sem Danir eru hvattir til að vera á varð-
bergi í Sádi-Arabíu, Alsír, Egyptalandi, Jórdaníu,
Líbanon, Pakistan, Íran, Sýrlandi, Ísrael og svæð-
um Palestínumanna.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu kölluðu sendiherra
sinn í Kaupmannahöfn heim í vikunni sem leið
vegna málsins. Stjórn Líbýu kvaðst á sunnudag
hafa lokað sendiráði sínu í borginni til að mótmæla
birtingu teikninganna. Stjórnin kvaðst einnig ætla
að grípa til „efnahagslegra refsiaðgerða“ gegn
Dönum.
Í löndum múslíma, einkum Sádi-Arabíu og Kúv-
eit, hefur fólk verið hvatt til að kaupa ekki varning
frá Danmörku. Danska matvælakeðjan Arla sagði
í gær að allir viðskiptavinir hennar í Mið-Aust-
urlöndum hefðu afturkallað pantanir og sala á
varningi fyrirtækisins hefði stöðvast í nær öllum
löndunum.
Arla selur matvæli fyrir sem samvarar 26 millj-
örðum króna á ári í Mið-Austurlöndum og starfs-
menn fyrirtækisins þar eru um þúsund.
Dönum og Norðmönnum
bannað að vera á Gaza
Danir hvattir til að
sýna ýtrustu aðgæslu í
Mið-Austurlöndum
Reuters
Palestínumenn kveikja í norskum fána á Gaza-svæðinu í gær til að mótmæla birtingu danskra og norskra blaða á teikningum af Múhameð spámanni.
Eftir Boga Þór Arason
bogi@mbl.is
Chorzow. AFP, AP. | Rannsóknarmenn í
pólsku borginni Chorzow hófu í gær
leit að vísbendingum um hvers vegna
þak sýningarhúss hrundi undan mikl-
um snjóþunga á laugardag. Að
minnsta kosti 62 manns létu lífið.
Fólk, sem komst lífs af, sagðist hafa
þurft að brjóta upp lokaða neyðarút-
ganga til að komast út úr sýningar-
húsinu.
„Sjónarvottar sögðu okkur að þeir
hefðu notað bekki og slökkvitæki til
að brjóta hurðir,“ sagði Tomasz
Tedla, talsmaður saksóknara í grann-
borginni Katowice. „Skoðun á vett-
vangi leiddi líka í ljós að neyðarút-
gangar voru brotnir upp. Við þurfum
að ganga úr skugga um hvort dyrnar
hafi verið læstar eða hvort þær hafi
lokast vegna snjóskafla.“
Á meðal þeirra sem létu lífið voru
að minnsta kosti átta útlendingar –
tveir Slóvakar, tveir Tékkar, tveir
Þjóðverjar, Belgi og Hollendingur.
Tala látinna gæti hækkað þar sem
enn er leitað að fimmtán mönnum
sem talið er að hafi verið í sýning-
arhúsinu þegar þakið hrundi. Af um
140 sem slösuðust voru 70 enn á
sjúkrahúsi í gær.
Alls voru um 500 manns í bygging-
unni. Lögreglumenn og sérfræðingar
á vegum saksóknarans rannsökuðu í
gær rústir hússins og leituðu að vís-
bendingum um orsök slyssins.
Lögfræðingur eigenda hússins
sagði að snjó hefði verið mokað af
þakinu reglulega. Haft væri eftir
manni, sem varð vitni að slysinu, að
gólf sýningarhússins hefði hrunið áð-
ur en þakið gaf sig. Að sögn lögfræð-
ingsins er hugsanlegt að einhvers
konar galli í byggingarefni hafi orðið
til þess að það hafi ekki þolað frostið
sem var þegar slysið varð.
214 hafa dáið úr kulda
Allt að 35 stiga frost hefur verið í
Póllandi að undanförnu. Pólska rík-
islögreglan skýrði frá því í gær að alls
hefðu 214 manns dáið af völdum kuld-
ans í vetur, þar af 87 heimilislausir.
Yfir 190 manns dóu úr kulda í Pól-
landi í fyrravetur.
Þurftu að
brjóta upp
neyðar-
útganga
SILVIO Berlusconi, forsætisráð-
herra Ítalíu, hefur komið stuðn-
ingsmönnum sínum á óvart með
því að lofa því að hafa ekki hold-
leg mök fyrr en að loknum þing-
kosningum 9. apríl.
Að sögn ítalskra fjölmiðla gaf
forsætisráðherrann þetta fyrirheit
á kosningafundi í Sardiníu með
vinsælum sjónvarpspredikara,
Massimiliano Pusceddu.
Predikarinn hafði lokið lofsorði á
Berlusconi fyrir að verja hefð-
bundin fjölskyldugildi og leggjast
gegn því að samkynhneigð pör
fengju að ganga í hjónaband.
Pusceddu hét því að styðja
Berlusconi í kosningunum og það
varð til þess að forsætisráð-
herrann hét honum skírlífi. „Ég
ætla að reyna að bregðast ekki
vonum þínum og lofa hér með al-
geru kynlífsbindindi í tvo og hálf-
an mánuð, til 9. apríl,“ hafði dag-
blaðið Il Giornale eftir forsætis-
ráðherranum.
Berlusconi er 69 ára og tvígift-
ur. Hann skildi við fyrri eiginkonu
sína fyrir 27 árum til að kvænast
föngulegri leikkonu, Veronicu
Lario. Að sögn fréttavefjar BBC
er hann mikið kvennagull og hefur
verið orðrómur á kreiki síðustu
árin um að það séu brestir í hjóna-
bandinu.
Berlusconi
lofar skírlífi
Reuters
Silvio Berlusconi á kosningafundi.
Houston. AFP. | Réttarhöld yfir tveim-
ur helstu forráðamönnum orkusölu-
fyrirtækisins Enron hófust í Houston
í Texas í gær en gjaldþrot Enron
skók bandarískt fjármálalíf fyrir fjór-
um árum. Báðir sakborningar, Kenn-
eth Lay og Jeffrey Skilling, halda
fram sakleysi sínu en þeir gætu átt
yfir höfði sér langan fangelsisdóm
verði þeir fundnir sekir um fjársvik
og glæpsamlegt samsæri.
Gjaldþrot Enron í desember 2001
er eitt það umfangsmesta í sögunni.
Um fjögur þúsund starfsmenn misstu
vinnuna og mikill fjöldi starfsmanna
og fyrrverandi starfsmanna glataði
öllu sparifé sínu, sem var bundið í
hlutabréfum í Enron, en þau urðu
verðlaus eftir hrunið. Hafði ýmsum
bókhaldsbrellum verið beitt til að
leyna raunverulegri stöðu fyrirtæk-
isins, þ.e.a.s. gífurlegum skuldum
þess.
Málið vakti mikla athygli á sínum
tíma en það þótti til marks um að víða
væri pottur brotinn í rekstri stærstu
fyrirtækja í Bandaríkjunum. Fleiri
hneykslismál fylgdu í kjölfarið, s.s.
hrun fjarskiptafyrirtækisins World-
Com, og brást Bandaríkjaþing við
með því að samþykkja svokallaða
Sarbanes-Oxley-löggjöf til höfuðs
fjársvikum.
Grannt fylgst með málinu
Kenneth Lay, fyrrverandi forstjóri
og yfirframkvæmdastjóri Enron,
sagðist á sunnudag „afar bjartsýnn“
vegna réttarhaldanna. Og Skilling,
sem um tíma var framkvæmdastjóri
Enron, bar sig líka vel í viðtali í síð-
ustu viku. „Það er enginn vafi í mín-
um huga að allt sem við gerðum hjá
Enron var rétt. Ég efast alls ekkert
um að við erum saklausir af ákærum
um glæpsamlegt athæfi,“ sagði hann.
Gert er ráð fyrir að réttarhöldin
standi í nokkra mánuði en allir helstu
fjölmiðlar Bandaríkjanna fylgjast
grannt með málinu. Segja sérfræð-
ingar að þeir Lay og Skilling muni
byggja vörn sína á því að þeir hafi að-
eins fylgt ráðleggingum endurskoð-
enda.
Réttarhöld hafin yfir stjórnendum Enron
Segjast bjart-
sýnir á sýknu
London. AP. | Áhrif loftslagsbreyt-
inga í heiminum kunna að verða al-
varlegri en menn hafa fram til þessa
talið. Þetta er meginniðurstaða
nýrrar vísindaúttektar sem gerð var
á vegum breskra stjórnvalda og birt
í gær.
Í skýrslunni eru teknar saman
helstu niðurstöður ráðstefnu um
loftslagsbreytingar sem haldin var á
vegum bresku veðurstofunnar í
fyrra. Segir þar að vísindamenn hafi
nú „skýrari sýn og minni efasemdir“
um líkleg áhrif loftslagsbreytinga.
„Það er nú ljóst að losun gróð-
urhúsalofttegunda, sem rakin er til
iðnvæðingar og efnahagslegrar út-
þenslu jarðarbúa, en fjöldi þeirra
hefur sexfaldast á 200 árum, veldur
hækkun hitastigs með slíkum hraða
að eitthvað verður undan að láta,“
segir breski forsætisráðherrann,
Tony Blair, í inngangsorðum skýrsl-
unnar.
Er varað við því í skýrslunni að yf-
irborð sjávar muni hækka um sjö
metra á næstu 1.000 árum, sökum
þess að íshellan við Grænland
bráðni, og raunar segir í skýrslunni
að báðir pólarnir kunni að byrja að
bráðna á þessari öld. Stormviðri
verði einnig algengari, sjúkdómar
dreifist út til nýrra svæða og lofts-
lagsbreytingar valdi því að sums
staðar verði ræktarland þurrara,
annars staðar aukist væta í eyði-
mörkum. Kemur fram að fátækustu
lönd jarðar muni verða fyrir hvað
mestum áhrifum vegna þessa.
Varað við áhrifum
loftslagsbreytinga
♦♦♦