Morgunblaðið - 12.11.2006, Qupperneq 26
lífshlaup
26 SUNNUDAGUR 12. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Fékk það einhvern tímann á þig, að
þurfa að skrifa heila bók um reynsl-
una sem Thelma og systur hennar
höfðu orðið fyrir sem börn?
„Pyntingarnar sem þær þurftu að
þola fylltu mig fyrst og fremst reiði.
Ég hafði áður skrifað um kynferð-
isglæpi fyrir blöð og tímarit og vissi
því vel hvers kynferðisofbeldismenn
eru megnugir. Styrkur Thelmu
sjálfrar er líka alveg einstakur og
frásögn hennar einföld og blátt
áfram. Ég passaði mig samt á því að
hvorug okkar skrifaði undir samning
við útgefandann fyrr en Thelma
hafði lesið alla bókina og var orðin
sátt við hana. Ef hún hefði verið
ósátt hefðum við strax hætt við að
gefa hana út, en það var aldrei neitt
hik á Thelmu.“
Siðareglur og verðlaun
Þú fékkst Blaðamannaverðlaun
Íslands árið 2005 fyrir Myndina af
pabba. En tveimur árum áður komst
siðanefnd Blaðamannafélags Íslands
að þeirri niðurstöðu að þú, sem rit-
stjóri Mannlífs, hefðir brotið með al-
varlegum hætti gegn siðareglum
blaðamanna með umfjöllun um kyn-
ferðislega misnotkun og afleiðingar
hennar. Hver er munurinn á þessum
frásögnum?
„Forsaga málsins er sú að í lok
ársins 2002 hringdi í mig kona og
sagði mér að hún hefði orðið fyrir
kynferðisofbeldi, en þá þegar hafði
ég birt margar greinar, bæði karla
og kvenna, um kynferðisofbeldi í
blaðinu. Hún bað mig um að birta
sögu sína sem hún hafði skrifað sjálf.
Ég las hana yfir og fannst hún vel
skrifuð. Við hittumst einu sinni til að
fylla upp í frásögnina. Þegar þessi
kona var aðeins sex ára gömul fór 12
ára gamall bróðir hennar að leita á
hana en hann var elstur í systk-
inahópnum. Ofbeldið jókst stig af
stigi og endaði með nauðgunum sem
stóðu yfir þar til hún var 14 ára.
Þessi stúlka varð síðan alvarlega
veik á geði. Eins og ég nefndi er
Thelma Ásdísardóttir mjög sterk en
það er líka til fólk sem brestur und-
an þessum pyntingum. Það sýndi
grein konunnar vel og það var meðal
annars tilgangurinn með því að birta
hana. Þarna birtust raunverulegar
afleiðingar kynferðisofbeldis. Konan
hafði oft reynt að svipta sig lífi og
inn á það var líka komið í greininni.
Ég ákvað að bíða með að birta grein-
ina til að gera hana sem best úr
garði og birti hana síðan í jan-
úarblaði Mannlífs árið 2003. Þá hafði
ég bætt við viðtölum við starfsfólk
Barnahúss og Stígamóta, sem sagði
mér meðal annars að það væri ekki
svo óalgengt hér á landi að stúlkur
yrðu fyrir kynferðisofbeldi af hendi
bræðra sinna. Ekki man ég eftir því
að fjallað hafi verið um það í öðrum
fjölmiðlum hvorki fyrir né eftir um-
rædda grein. Síðan hringdi konan í
mig og spurði hvar blaðið væri statt.
Ég sagði henni að það væri farið í
prentsmiðjuna og hún kvaddi.
Nokkrum dögum síðar hringdi mág-
kona hennar í mig og sagði mér að
hún hefði svipt sig lífi.“
Gerður segir að einn bræðra
stúlkunnar hafi kært hana fyrir siða-
nefnd Blaðamannafélagsins.
„Siðanefnd gerði aðallega at-
hugasemd við það að ég skyldi birta
sögu eftir svona veika manneskju og
að ég hefði átt að átta mig á því
hversu veik hún var. Auðvitað fór
ekki á milli mála að hún var veik, en
mér fannst það skipta máli því
ástæðan fyrir þessum veikindum var
kynferðisofbeldið. Ég birti hvorki
nafn konunnar né mynd af henni.
Ekki kom heldur fram hvar á land-
inu atburðirnir hefðu orðið. Það
furðulega í málinu var, að það bar
aldrei neinn á móti því að þessi saga
væri sönn, en það var helst það sem
ritstjóri blaðs hefði átt að hafa
áhyggjur af. Úrskurður siðanefndar
barst mér á afmælisdaginn minn, 10.
júní árið 2003, en sá sem margoft
nauðgaði litlu systur sinni hefur
aldrei tekið út refsingu fyrir glæp-
inn og er enn þann dag í dag frjáls
maður. Ég ákvað að læra ekkert af
þessu og hélt mínu striki.
Gleymist ekki
Mér finnst úrskurður siðanefndar
bara hafa sýnt hvað kerfinu er mikið
í mun að vernda hvers konar misind-
ismenn. Kannski finnst fólki þessir
glæpir ennþá svo ógeðslegir að það
vill ekki meðtaka að þeir geti átt sér
stað. Eða kannski heldur fólk að
börn gleymi. Sumir þeirra sem
stoppuðu mig á götu eftir bókina um
Thelmu höfðu orð á því hversu gott
það væri hvað hún og systur hennar
hefðu jafnað sig vel og hefðu verið
kátar og hressar í Kastljósinu! Þeg-
ar Thelma sagði mér sögu sína fyrst
hugsaði ég auðvitað til úrskurðar
siðanefndar og velti fyrir mér hvað
ég væri að fara út í og hvað gæti
hugsanlega gerst. Samt fannst mér
ég þurfa að skrifa þessa sögu. Ég
efast um að þessi úrskurður hefði
fallið ef saga Thelmu hefði verið
komin út. Saga hennar veitir fólki
innsýn í líðan barna sem þolað hafa
kynferðisofbeldi, meðan á því stend-
ur og á fullorðinsárum. Reynsla af
því tagi rjátlast hvorki af börnum né
gleymist.“
Kaflaskipti
Snemma vors árið 2003 fór Gerð-
ur Kristný í þriggja mánaða leyfi frá
ritstjórastarfinu, leigði sér íbúð í
Nice í Frakklandi og sat þar ein og
skrifaði Bátur með segli og allt, sem
síðar átti eftir að fá Bókmenntaverð-
laun Halldórs Laxness. Ákvað hún
þá að verða rithöfundur í fullu starfi.
„Mér leið svo óskaplega vel þarna
suður frá, mikið sem mér fannst
þetta skemmtilegt. Ég var einmitt í
Nice þegar ég frétti að ég hefði feng-
ið Bókaverðlaun barnanna fyrir
Mörtu smörtu. Þarna fann ég líka að
þegar ég fékk svona góðan tíma fyr-
ir sjálfa mig vöknuðu hugmyndir
kvölds, morgna og um miðjan dag.
Því ákvað ég að hætta hjá Fróða
þótt vissulega hafi oft verið
skemmtilegt að ritstýra tímariti.
Tölublöðum hafði verið fjölgað úr tíu
í tólf í ritstjóratíð minni og sömuleið-
is hafði aukablöðum líka fjölgað.
Fyrst var gefið út aukablaðið Feg-
urð og heilsa, svo bættist við annað
um ferðalög og loks það þriðja um
bíla og þá tók nú að syrta í álinn,
fannst mér, enda lítil áhugamann-
eskja um spojlera. Starfsfólki hafði
ekki verið fjölgað að sama skapi og
þessi eini blaðamaður sem ég mátti
ráða varð að geta skrifað jafn vel um
varaliti, dómsmál, poppkúltúr og
viðskipti, sem reyndar er afar sjald-
gæft. Í stað þess að blaðamaðurinn
gæti sökkt sér ofan í áhugaverðar
greinar fyrir Mannlíf fór mesta orka
hans í að finna út úr því hvað hægt
væri að gera við inngrónum tánögl-
um svo auglýsingar seldust í Fegurð
og heilsu. Það var kominn tími til að
söðla um. Ég ákvað því að eignast
barn og hætta síðan, sem ég og
gerði. Starf rithöfundarins er líka of-
boðslega skemmtilegt. Það er gam-
an að skrifa bækur um það sem
mann lystir, ferðast um landið eða út
fyrir landsteinana og lesa upp ásamt
kollegum sínum.“
Stöðug fjölskylda
Hvar sleistu barnsskónum?
„Ég bjó fyrstu fimm árin á Háa-
leitisbraut en flutti svo í Safamýrina
og bjó þar þangað til ég flutti að
heiman. Fjölskyldulífið var stöðugt,
einn pabbi, Guðjón Sigurbjörnsson
læknir, og ein mamma, Ingunn
Þórðardóttir, húsmóðir og hjúkr-
unarfræðingur, við erum fjögur
systkinin, tvær stelpur og tveir
strákar, og ég er næstelst. Ég var í
fimleikum, æfði með Fylki og einn
vetur með Ármanni. Reyndar var ég
svo skelfilega léleg að það jaðraði við
ég væri læknisfræðilegt undur.
Samt mætti ég árum saman á æfing-
ar bara vegna þess að það var svo
gaman að sprikla.“
Gerður Kristný segist hafa lesið
mikið sem barn og vildi eiginlega
frekar vera inni að lesa en úti að
leika sér. „Ég var óttalegur innipúki,
eins og það hét þá. Foreldrar mínir
eiga sumarbústað í Grafningnum
þar sem við vorum allar helgar á
sumrin. Þar rigndi reyndar lungann
úr áttunda áratugnum og því hafði
ég næga ástæðu til að vera inni að
lesa allt sem ég náði í.“
Og það kemur upp úr kafinu að
upplestur hefur legið vel fyrir Gerði
Kristnýju allt frá unga aldri, sem
kannski var fyrirboði þess sem koma
skyldi? „Kannski, ég var læs þegar
ég byrjaði í sex ára bekk og fór alls
ekki dult með það. Ég man eftir mér
sitjandi uppi á kennaraborðinu að
lesa fyrir allan bekkinn,“ rifjar hún
upp.
Bitin í rassinn
Lestrarkunnáttan var á meðal
þess sem fékk umsjónarkennarann
til þess að senda Gerði til skólasál-
fræðingsins í þroskapróf. „Ég man
að ég þurfti að svara spurningunni
hver fyrsti landnámsmaðurinn hefði
verið. Ég hafði ekki hugmynd og
svaraði loks: „Adam og Eva“. Samt
var ég send upp í sjö ára bekk.“
Gerður lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum við Hamrahlíð og
fór svo í frönsku og almenna bók-
menntafræði í Háskóla Íslands þar
sem hún kláraði BA-próf 21 árs. „Ég
skrifaði lokaritgerð um fegurðina í
Les Fleurs du mal eftir Baudelaire
og fór svo að vinna á Tímanum um
sumarið. Í millitíðinni fór ég reyndar
sem au pair til Frakklands, þar sem
ég ætlaði að vera í hálft ár, en var
bara í þrjá mánuði því á heimilinu
voru hundar sem bitu mig í rassinn.
Hjónin voru með „Great Dane“-
hunda og höfðu ráðið mig svo ég
gæti séð bæði um barn þeirra og
hundana ef þau færu til útlanda.
Mér þótti þeir alveg nógu hræðilegir
þótt ég þyrfti ekkert að hafa af þeim
að segja. Einn daginn fór ég til Par-
ísar að skoða Pére Lachaise-
kirkjugarðinn með vinkonu minni,
þar sem við ráfuðum á milli leiða og
virtum fyrir okkur legsteina dáinna
fyrirmenna. Svo kem ég tilbaka,
labba upp heimreiðina, koma þá ekki
helvítis kvikindin sem áttu að vera
lokuð inni í búri vaðandi að mér og
bíta mig í botninn. Þeir voru fimm.
Einn var með hálft eyra eftir slags-
mál, annar var með blóðhlaupin
augu, sá þriðji var með húðsjúkdóm,
svo það vantaði á hann skinnið, og
allir sem einn héngu þeir í mínum
Levi’s-gallabuxum, sem vel að
merkja voru mjög vinsælar í upphafi
tíunda áratugarins. Ég stóð þarna
og orgaði sem mest ég mátti þar til
portúgalskur garðyrkjumaður birt-
ist og bjargaði mér. Síðan þá hef ég
ævinlega hugsað hlýtt til portú-
gölsku þjóðarinnar. Eftir þetta fór
ég sem minnst út og varð vistin því
heldur daufleg. Litlu síðar hafði ég
mig á brott, hélt heim og fór að
vinna á Tímanum, þar sem enginn
svo mikið sem glefsaði til mín.“
Skáldleg en praktísk
Fékkstu tannaför? „Nei, ég get
upplýst að ég ber ekki varanleg um-
merki eftir þetta.“
Blaðamennskan og skáldskap-
urinn hafa ævinlega haldist í hendur
hjá þér, af hverju heldur þú að svo
sé?
„Ég er svolítið praktísk. Þegar ég
var krakki ætlaði ég að verða tann-
læknir og myndlistarmaður. Mér
fannst blaðamennska alltaf mjög
spennandi og lærði meðal annars
hagnýta fjölmiðlun og fór í starfs-
þjálfun hjá Danmarks Radio, danska
ríkissjónvarpinu. Þar var ég í þrjá
og hálfan mánuð og fékk að fylgjast
Skírnarmynd Gerður Kristný kveðst
heita Gerður út í bláinn en Krist-
nýjarnafnið kemur frá Kristjáni,
frænda hennar, sem lést ungur.
Skál Breski rithöfundurinn Ian McEwan og Gerður Kristný skála í skyri á
veitingastaðnum Lindinni við Laugarvatn fyrir fáeinum árum.
Á sjó Gerður og Kristján sumarið 2003 í Baldri á leiðinni út í Flatey.
Lestrarhestur Kátu-bækurnar voru
í miklu uppáhaldi hjá Gerði og hér
sést hún í jólafötunum að lesa Kátu.
Unglingurinn Fimmtán ára og með sítt að aftan. Jakk-
inn var keyptur í Kjallaranum og þótti mikil gersemi.
Systkini Gerður, tíu ára, með systkinum sínum, Guð-
jóni Inga, fjögurra ára, og Gunni Vilborgu, sex ára.
» „Þegar við Kristján
vorum að hittast
fyrst var hann alltaf að
tala um Buddenbrooks
eftir Thomas Mann.
Mikið sem mér fannst
það þreytandi. Sem bet-
ur fer var ég sannfærð
um að Kristján gæti tal-
að um eitthvað
skemmtilegra en Thom-
as Mann og ákvað því að
gefa honum séns. Ég sé
ekki eftir því.“