Morgunblaðið - 15.12.2006, Page 20
20 FÖSTUDAGUR 15. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Eftir Birtu Björnsdóttur
birta@mbl.is
Í
dag verður opnuð í Listasafni Ís-
lands sýning sem enginn unnandi
myndlistar ætti að láta framhjá sér
fara.
Á sýningunni má sjá verk eftir
málara á borð við Oskar Kokoschka, André
Lhote, Malbert Marquet, Merie Laurencin,
Auguste Renoir og Louis Valtat að
ógleymdum Henri Matisse, en þetta mun
vera í fyrsta sinn sem verk eftir Matisse
eru til sýnis hér á landi.
Sýningin ber yfirskriftina Frelsun litarins
(Regard Fauve) og kemur frá Fagur-
listasafninu í Bordeaux í Frakklandi (Musée
des beaux-arts).
Nafn sýningarinnar vísar til þess tíma
sem flestir listamannanna máluðu á, tímabil
sem í listasögunni er jafnan kennt við fauv-
isma. Undirtitill sýningarinnar er Franskur
expressjónismi í upphafi 20. aldarinnar, en
þá leystu myndlistarmenn, með Matisse í
broddi fylkingar, litinn úr viðjum fyrirfram
gefinna gilda sem áður höfðu verið ríkjandi
í málverkinu.
Olivier le Bihan er safnstjóri Fagur-
listasafnsins í Bordeaux og jafnframt sýn-
ingarstjóri sýningarinnar í Listasafninu.
Í viðtali við Morgunblaðið í gær lýsti le
Bihan sýningunni sjálfur á þessa leið:
„Þetta er ekki sérstaklega sýning á verk-
um fauvista, þó þeir spili vissulega stóra
rullu. Þetta er fyrst og fremst sýning á
safnkosti okkar frá þessu tímabili og í hon-
um má finna verk eftir málara á borð við
Albert Marquet og Louis Valtat,“ sagði le
Bihan.
„Ef maður stillir þeim Marquet, Matisse
og Valtat upp í þessari röð eftir áherslum
þeirra má sjá að í sýningunni felst ákveðinn
þverskurður á listamenn frá síðustu alda-
mótum.“
Fauvismi stutt tímabil
En hvaða rullu spilar fauvisminn í lista-
sögunni?
„Þetta er mjög áhugavert tímabil því það
þróaðist upp úr impressjónismanum þar
sem tilfinningarík málverk voru einkenn-
andi. Þær myndir voru gjarnan málaðar eft-
ir tilfinningu fyrir ljósi, kannski nokkrar
myndir af því sama með breyttum birtuskil-
yrðum,“ útskýrir le Bihan.
„Í framhaldinu komu til sögunnar menn á
borð við Gauguin og Van Gogh, sem eru þó
ólíkir innbyrðis. Gauguin kom með hreina
litinn og sagði nauðsynlegt að hverfa aftur
til upprunans þar sem tærir og skærir litir
væru einkennandi. Þetta var rétt fyrir alda-
mótin 1900. Fauvisminn kemur svo til sög-
unnar í kjölfarið eftir kennslufræði
Cezannes í formfræðinni. Breytingin varð
einna helst í því að hann tók upp litagleðina
áðurnefndu og ýkir hana. Fauvisminn er því
úrvinnsla úr því sem áður var hafið.“
Hann bætir við að fauvisminn hafi þrátt
fyrir allt verið stutt tímabil, taldi aðeins tvö
til þrjú ár.
„Fauvisminn tókst í raun á við allt það
myndefni sem impressjónistar voru að
mála, en þó mest landslagið,“ sagði le Bihan
einnig.
„Fauvisminn var í stuttu máli ídealísk sýn
á upphafningu litanna.“
Frændinn komst lífs
af er Pourquoi-Pas? strandaði
Eins og gefur að skilja eru verkin sem á
sýningunni eru afar verðmæt. Verkin 52
sem nú hanga uppi í Listasafninu eru
tryggð fyrir tæpa tvo milljarða íslenskra
króna og ýtrustu varúðar gætt við flutning-
inn.
Ólafur Kvaran, safnstjóri Listasafns Ís-
lands, sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrr í
mánuðinum, að fylgdarmaður frá Fagur-
listasafninu í Bordeux fylgdi flutningnum
hvert skref og að safnið sé með sérstakt ör-
yggiskerfi, sérhannað fyrir flutninga á sýn-
ingu sem þessari.
Þrátt fyrir umstangið hefur Le Bihan
ferðast talsvert með sýninguna. Hann segir
það sér mikilvægt af tveimur ástæðum.
„Fagurlistasafnið á ekki eingöngu verkin
sem eru hér til sýnis núna heldur erum við
með sýningar frá öllum mögulegum tímabil-
um í listasögunni, meðal annars nútímalist.
Með ferðalögunum gefst kostur á að byggja
upp sambönd við unga listamenn,“ segir le
Bihan og bætir við að í heimsókn sinni til
Íslands nú langi hann að hitta Steingrím
Eyfjörð.
„Það má kannski segja þetta á ljóðrænan
hátt, að það sé gaman að koma með sólar-
ljósið og birtuna hingað til lands í skamm-
deginu,“ segir le Bihan og vísar til litagleð-
innar í verkunum á sýningunni.
„Önnur ástæða fyrir komu minni hingað
er persónuleg, mig langaði til að koma með
sýninguna hingað. Ég kem úr mikilli sigl-
ingafjölskyldu, margir skyldmenna minna
voru til sjós. Frændi minn var til dæmis sá
eini sem komst lífs af þegar rannsókn-
arskipið Pourquoi-Pas? strandaði hér við Ís-
landsstrendur árið 1936, þá 14 ára. Ég
þekkti hann vel meðan hann var á lífi og
enn eru til í fórum fjölskyldumeðlima ljóð á
bæði frönsku og íslensku sem skipverjar
skiptust á við Íslendinga,“ upplýsir le Bihan
en bætir við að þó að þessi tenging hans við
Ísland sé ekki ástæða komu hans hingað
hafi hún gert allt annað en að draga úr vilja
hans til að koma hingað til lands.
Tengingin við Ísland
Það er stofnun að nafni Cultures France í
París sem gerir það kleift að koma með
sýningar af þessari stærðargráðu hingað til
lands með fjárstuðningi sínum en stofnunin
hefur það að markmiði að auðvelda fólki að
kynna franska menningu á erlendum vett-
vangi. Tryggingar og flutningskostnaður
eru einnig gífurlega há og það er Lands-
bankinn sem styrkir flutning Matisse og fé-
laga hingað til lands.
„Ég er einnig ákaflega þakklátur Ólafi
Kvaran fyrir hversu vel hann tók í þá hug-
mynd að flytja sýninguna hingað til lands,“
segir le Bihan og þakkar einnig franska
sendiherranum á Íslandi, Nicole Michelang-
eli.
Auk þess sem listaverkin umræddu fylla
þrjá sali listasafnsins er einn salur tileink-
aður Jóni Stefánssyni málara sem var nem-
andi Matisse.
„Það er raunveruleg tenging við Ísland í
gegnum Jón Stefánsson sem var nemandi
Matisse og var í samneyti við hann,“ segir
le Bihan.
Jón var eini Íslendingurinn sem nam hjá
Matisse og sýna verk hans á sýningunni
þau áhrif sem Jón varð fyrir hjá Matisse og
þann franska skóla sem hann innleiddi í
verkum sínum eftir að hann sneri heim úr
námi. Auk tengslanna við Matisse kynntist
Jón Cézanne í skólanum sem hafði ekki síð-
ur áhrif á hann.
Sýningarstjóri á verkum Jóns er Ólafur
Kvaran.
Sýningin verður sem fyrr segir opnuð í
dag og stendur fram til 25. febrúar.
Listasafn Íslands er opið daglega frá
klukkan 11 til 17, nema á mánudögum, þá
er lokað.
Franska vorið
Sýningin Frelsun litarins gefur forsmekk-
inn að því sem koma skal á viðamikilli
menningarhátíð sem hefst í febrúar á nýju
ári og ber yfirskriftina Pourqoui-pas? –
Franskt vor á Íslandi. Þessi fransk/íslenska
menningarhátíð, sem stendur allt fram í
maí, hefur upp á að bjóða ýmiskonar dag-
skrá. Nánar má lesa um Pourqui-pas? í
meðfylgjandi ramma.
Myndlist | Frelsun litarins opnuð í Listasafni Íslands í dag og gefur forsmekkinn að Pourquoi-Pas?
Sólarljósið í skammdeginu
Sýningarstjórinn Olivier le Bihan við verkið
Portrettmynd af Bavilacqua eftir Henri Mat-
isse, sem nú hangir uppi á Listasafni Íslands.
Fauvistanekt Verk eftir Albert Marquet sem
er eitt þeirra 52 listaverka sem sýnd eru á
Frelsun litarins í Listasafni Íslands.
Morgunblaðið/Sverrir
Listaverk Ólafur Kvaran, safnstjóri Listasafns Íslands, Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, Nicole Michelangeli, sendiherra
Frakka á Íslandi, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Olivier le Bihan virða fyrir sér eitt verka sýningarinnar.
FRÖNSK menningarveisla hefst formlega
hér á landi hinn 22. febrúar á opnun Vetr-
arhátíðar en þá mun Michel Moglia leika á
eldorgel á Austurvelli. Menning, vísindi og
viðskipti eru meðal þess sem Frakkar leggja
áherslu á að þessu sinni.
Hátíðin, sem stendur til 13. maí, ber yfir-
skriftina Pourquoi-Pas? eða Hví ekki? –
Franskt vor á Íslandi og er í samræmi við
samkomulag sem frönsk og íslensk stjórn-
völd gerðu með sér árið 2001.
Myndlistarsýningin í Listasafni Íslands er
hugsuð sem forleikur að því sem koma skal,
en sýningunni lýkur um það leyti sem hátíð-
in hefst.
Það er menntamálaráðuneytið sem hefur
unnið að undirbúningi hátíðarinnar sem
skipulögð er af Frakklands hálfu af franska
sendiráðinu hér á landi og Cultures France.
Menntamálaráðuneytið hefur falið þeim Ei-
ríki Þorlákssyni og Sigrúnu Lilju Guðbjarts-
dóttur að vinna með fulltrúum Frakklands
að verkefninu.
Dagskrá franska vorsins hefur enn ekki
verið kunngjörð en áætluð eru samstarfs-
verkefni við meðal annars Listasafn Reykja-
víkur, Nýlistasafnið, Listasafn Akureyrar,
Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Þjóðminja-
safnið, Íslensku óperuna, Sinfóníuhljómsveit
Íslands, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og
Íslenska danskflokkinn, svo fátt eitt sé
nefnt, á sviði myndlistar, tónlistar og sviðs-
lista.
Franskt vor
á Íslandi,
Hví ekki?