Morgunblaðið - 27.01.2007, Blaðsíða 44
44 LAUGARDAGUR 27. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Svala Guð-mundsdóttir
fæddist í Vest-
mannaeyjum 29. júní
1924. Hún dó á
hjúkrunarheimilinu
Lundi á Hellu 17.
janúar síðastliðinn.
Svala var dóttir
Mörthu Þórleifs-
dóttur, f. 1897, d.
1984, og Guðmundar
Gíslasonar, f. 1893,
d. 1972. Hún ólst upp
í Vestmannaeyjum,
en fór í sveit á sumr-
in til skyldfólks á Ytri-Sólheimum í
Mýrdal. Árið 1946 fluttist hún til
Reykjavíkur með foreldrum sínum.
Bróðir Svölu var Karl, f. 1922, d.
1987.
Svala giftist 31. janúar 1948,
Sverri Haraldssyni frá Hólum á
Rangárvöllum, f. 15. maí 1927.
Hann er sonur Guðrúnar Laufeyjar
Ófeigsdóttur, f. 1911, d. 2001 og
Haralds Runólfssonar, f. 1902, d.
1990. Þau bjuggu í foreldrahúsum
hans fyrstu 3 árin, en hófu búskap í
Selsundi á Rangárvöllum 1951.
Börn þeirra eru Guðrún f. 1948,
maki Guðlaugur Hermannsson.
Hún á eina dóttur og dótturson.
Haraldur f. 1952, maki Hugrún
einungis börn hennar, barnabörn
og barnabarnabörn sem hún kom
að uppeldi á, heldur fjöldi barna
sem dvöldu í Selsundi á sumrin.
Svala var félagslynd kona með
sterkar skoðanir og ríka réttlæt-
iskennd og valdi sér alltaf sess við
hlið þess sem er minni máttar. Hún
var í Alþýðubandalaginu á sínum
tíma, en síðar varð hún einarður
stuðningsmaður Kvennalistans.
Jafnrétti karla og kvenna var henn-
ar stærsta baráttumál í ellinni. Bú-
seta á afskekktum bæ og erill við
börn og bú urðu þó til þess að hún
sinnti vart öðrum hugðarefnum á
sínum bestu árum. Þó tókst henni
alltaf að finna tíma til lestrar, en
bækur voru henni ástríða. Það var
ekki fyrr en eftir sjötugt sem hún
fór að sinna félagsmálum utan
heimilis. Hún stofnaði ásamt fleira
hagleiksfólki á Suðurlandi hand-
verkshóp sem kenndi sig við og
starfaði í Þingborg. Í þeim fé-
lagsskap vann hún marga góða
gripi, bæði úr ull og einnig úr beini,
steinum og tré. Svala þráði alla ævi
að ferðast, en það var ekki fyrr en á
78. aldursári sem hún fór til út-
landa í fyrsta sinn. Henni tókst að
heimsækja þrjár menningarborgir
í Evrópu; Prag, Búdapest og Amst-
erdam. Svala veiktist af liðagigt 9
ára gömul og glímdi við afleiðingar
þeirra veikinda alla ævi.
Svala verður kvödd í Oddakirkju
í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Magnúsdóttir. Þau
eiga fjögur börn og
einn sonarson.
Martha f. 1955, maki
Snorri Aðalsteinsson.
Hún á þrjú börn. Guð-
mundur f. 1958, maki
Guðbjörg Árnadóttir.
Hann á tvö börn.
Fóstursonur Svölu og
Sverris er Guð-
mundur Gíslason f.
1964, maki Björk
Rúnarsdóttir. Þau
eiga tvö börn. Dóttir
Svölu og Hauks Matt-
híassonar, f. 1917, d. 1991, er Stein-
unn Þórleif Hauksdóttir, maki
Gunnar Benediktsson. Hún á fimm
börn, þrettán barnabörn og eitt
barnabarnabarn.
Svala gekk í barnaskóla í Vest-
mannaeyjum og var við nám í Hús-
mæðraskólanum að Hallormsstað
veturinn 1944–1945. Að öðru leyti
var hún sjálfmenntuð. Meðal ann-
ars aflaði hún sér ágætrar færni í
dönsku og ensku, bæði með lestri,
svo og móttöku ferðafólks í Sel-
sundi, sem hún sinnti eingöngu
ánægjunnar vegna. Svala starfaði
við búskap og uppeldi barna í Sel-
sundi þau 56 ár sem hún bjó þar,
eða til dauðadags. Það voru ekki
Það er erfitt að segja skilið við
ömmu sína og ekki síst vegna þess að
hún var svo mikil og góð vinkona mín.
Við amma vorum nefnilega aðallega
vinkonur, sem höfðum svo mikla unun
af því að fara á kaffihús, kíkja í búðir,
fá okkur hvítvínsglas og parma-
skinku, panta okkur kínverskan mat
og tala um alla heima og geima.
Ég var svo heppin að fara tvisvar
með ömmu til útlanda, í fyrra skiptið
2004 þegar við vorum í viku í Buda-
pest, og svo haustið 2005 þegar við
fórum til Amsterdam og vorum líka
þar í viku. Þessar ferðir eiga alltaf eft-
ir að vera ofarlega í huga mér, því þær
voru í einu orði sagt yndislegar og
amma var frábær ferðafélagi. Að
hugsa sér að það skuli hafa verið rúm
50 ár á milli okkar.
Það var ekki oft sem maður fann
fyrir þessum aldursmun, enda var
amma svo ung í anda og svei mér þá ef
hún var ekki alltaf að yngjast. Það eru
ekki margar áttræðar ömmur sem
hafa samskipti við mann á msn og með
gsm-síma! Amma var langt á undan
sinni samtíð, svo nútímaleg í skoðun-
um, og alltaf mun ég dást að hugsjón-
um hennar og réttlætiskennd.
Amma var ein glæsilegasta kona
sem ég hef þekkt. Hún var teinrétt í
baki fram á síðasta dag þrátt fyrir alla
þá sjúkdóma sem plöguðu hana, og ég
fyllist alltaf stolti þegar einhver segir
að ég líkist henni. Amma hafði nefni-
lega einhvern þokka sem mér finnst
minna á gömlu kvikmyndastjörnurn-
ar og ég sagði henni oft að ég gæfi
mikið fyrir að hafa þekkt hana unga
þegar herrarnir slógust um að fá að
dansa við hana.
Það verður svo tómlegt án ömm-
unnar minnar, en ég á svo margar
ómetanlegar minningar sem ég mun
lifa á. Það verður samt erfitt að venja
sig af því að kaupa alltaf stærstu
Mackintosh-dósina í hvert skipti sem
ég fer í gegnum fríhöfnina og það
verður skrítið að fara án hennar á
Café París og í Tékkkristal, á staðina
okkar.
Ég á ömmu svo ótalmargt að
þakka. Hún hefur alltaf stutt mig í að
láta drauma mína verða að veruleika
og hvatt mig til dáða.
Svala Helgadóttir.
Bæjarstæði Selsunds er undir
háum kanti norðurhraunsins. Af
hlaðinu sér yfir slétt túnið og birkivax-
ið suðurhraunið. Í austurátt sést
Selsundsfjall og hvítar vikurbreiður
við rætur þess. Ef gengið er út á túnið
kemur Hekla í ljós, keilulaga, há og
tignarleg. Nokkuð austan við bæinn
sprettur Selsundslækurinn út úr
kjarri vöxnum kanti norðurhraunsins
í fjölda lítilla linda. Í þetta einstaklega
fallega umhverfi fluttu hjónin Svala
og Sverrir 1949 og hófu þar sauð-
fjárbúskap, en Selsund hafði þá verið í
eyði um tveggja ára skeið.
Kynni við þau hjón og börn þeirra
hófust upp úr 1960 og heimsóknirnar
þangað því orðnar margar. Það var
ómetanleg reynsla fyrir borgarbörn
að fá tækifæri til að kynnast daglegu
lífi í sveitinni, lítt vélvæddum bústörf-
um, stemningunni í gamla torfbænum
og rafmagnsleysi.
Þótt Selsund væri ekki í alfaraleið
var áberandi hve margir lögðu lykkju
á leið sína til að heimsækja þau hjón,
enda var öllum gestum mætt af sér-
stakri hlýju og gestrisni. Gestirnir
skiptust á um að koma sér fyrir í
þröngum eldhúskróknum við drekk-
hlaðið kaffiborð. Þar fóru fram líflegar
umræður um landsins gagn og nauð-
synjar og sátu þau hjónin ekki á af-
dráttarlausum skoðunum sínum sem
mótuðust af eldheitri félagshyggju.
Svala stóð iðulega glaðleg við eldhús-
skenkinn og bætti kaffi í bollana og
skaut inn glettnislegum og oft stríðn-
islegum athugasemdum. Þegar um-
ræðu um dægurmál lauk settist hún
niður inni í stofu með nánum vinum og
spurðist fyrir um fjölskyldumál. Sér-
stakan áhuga sýndi hún börnunum og
spurði hvernig þeim vegnaði í skóla,
áhugamálum og hvert þau stefndu. Á
löngum gönguferðum um nágrenni
Selsunds tíndi Svala upp og bar heim
fjölbreytilega og fallega steina. Þeim
kom hún fyrir inni í stofu eða í trjá-
lundinum sem hún kom upp með natni
vestan við bæinn. Steinarnir urðu síð-
an tilefni til umræðu um jarðfræði
Heklu og umhverfi Selsunds sem hún
þekkti eins og lófann á sér. Síðustu ár-
in meðan heilsan leyfði fékk Svala
tækifæri til að ferðast til útlanda, sem
hana hafði dreymt um í svo mörg ár.
Við kveðjum Svölu með söknuði og
virðingu þar sem þakklæti er okkur
efst í huga fyrir að hafa fengið tæki-
færi til að kynnast henni. Við sendum
Sverri og allri Selsundsfjölskyldunni
samúðarkveðjur.
Ísleifur og Erna.
Nú er lokið miklu og dýrmætu ævi-
starfi hljóðlátrar, fórnfúsrar og
hjartahlýrrar konu. Svala Guðmunds-
dóttir í Selsundi var vafalaust orðin
þreytt og slitin, þó að hún hafi ætíð
verið síung í augum okkar, sem sóttu
hana og fjölskyldu hennar heim, hve-
nær sem færi gafst. Í tæp sextíu ár
sinnti hún heimili sínu af myndarskap
og atorku, veitti gestum, en jafnframt
gaf sér tíma til þess að ræða við þá um
heima og geima. Heimili hennar bar
merki hennar, þar sem dugnaður,
hagsýni og rausn settu svip sinn á
hvern hlut. Það er ekki ofmælt, að öll-
um, sem höfðu af henni kynni, hlaut að
þykja vænt um hana.
Svala var fædd og uppalin í Vest-
mannaeyjum. Það hefur efalaust verið
mikill vandi, sem féll henni á herðar,
að setjast að á afskekktu býli, festa
þar rætur, samlagast nýjum venjum,
siðum og hugsunarhætti. Augsýnilega
leysti hún þennan vanda með hóg-
værð og festu skapgerðarinnar. Garð-
urinn við íbúðarhúsið ber vitni um
áhuga hennar á öllu hinu fagra og
góða í lífinu. Hún var engin hávaða-
manneskja, hún var hetja á sinni
heimaslóð og ávann sér traust sam-
ferðamanna.
Í þrjátíu ár hef eg notið vináttu
Svölu og fjölskyldu hennar. Þau eru
ófá skiptin, sem eg hef dvalið þar og
oft setið lengur en hóflegt má telja.
Það var ekki auðgert að rífa sig lausan
og halda heim. Nú er komið að leið-
arlokum, leiðir skilur um stund. Svölu
Guðmundsdóttur á eg miklar þakkir
að gjalda. Sverri Haraldssyni, manni
hennar, og fjölskyldu allri færum við
Sólveig innilegar samúðarkveðjur.
Ágúst H. Bjarnason.
Tárin leka niður eldfjallið
og kindurnar standa hnípnar í fjárhúsinu
því konan sem elskaði bækurnar
er dáin.
Og nú frýs skáldskapurinn.
Og þiðnar ekki
fyrren hlýjar hendurnar
strjúka mínar.
Einsog tárin.
Það var einsog Svala í Selsundi
væri alltaf að lesa. Hún las ekki bara
bækur, hún las fólk, hún las hvaðan
það kom, hvað hafði komið fyrir það, í
hverju það hafði lent og ekki lent, hún
las það þegar það fór og hún las það
svo vel að það kom yfirleitt aftur. Hún
las úr því hjartað og hún las hjartað
sitt í fólk. Hún las hendur sínar í hend-
ur mínar og hún las hvers ég þarfn-
aðist mest, hlýju og stuðnings, enda-
lausrar gæsku svo ég hætti að kvelja
sjálfa mig. Hún var svona góður les-
andi og hennar vegna langaði mig að
verða betra skáld.
Svala var eiginlega veik allan tím-
ann sem ég þekkti hana en ein mesta
hetja sem ég hef kynnst, hvernig hún
gat verið svona veik en alltaf kát og
andrík. Einu sinni kom hún á hækjum
útí hraun tilað hlusta á mig lesa ljóð og
nærvera hennar gaf mér vængi. Hún
sagði að það væri ung kona inní sér.
Ég hélt þegar ég var ung stúlka að
maður yrði gamall inní sér þegar árin
færðust yfir en ég er með þessa ungu
stúlku inní mér þótt líkaminn eldist,
ég hugsa einsog ung stúlka þótt ég
hreyfi mig ekki þannig, sagði hún.
Hún gaf mér nesti á eldfjallið því
hún vissi að ég þekkti líka gleðina,
gleðina sem býr í sambandinu við fjall
sem hægt er að kúra utaní eða tala við.
Svo skrattaðist ég einsog engill, prins-
essa eða kóngssonur sem hafði verið
útbúinn í leiðangurmeð hlífðarföt og
flatköku með kæfu, linsoðin egg, epli
og te eða djús. Hún var leiðangurs-
stjóri, það vissi ég ekki fyrren hún var
öll, ég átti að ná í eitthvað sem mætti
breyta í ljóð eða sögu, eða þreytu í líf.
Og svo sagði hún: Sástu nokkuð.
Ég gæti best trúað henni tilað hafa
farið á undan mér og búið það til.
Svala í Selsundi var ein af megin-
stoðunum í mínu lífi. Og nú er hún dá-
in. Þessvegna endurreisi ég þessa
stoð úr minningu hennar. Í Selsundi
er raunveruleikinn ekki einn og gegn-
sær heldur margir heimar sem flétt-
ast saman og hver í annan, draum-
urinn, minningin, hugsjón, örlætið,
elskan, tíminn, þögnin, samræðurnar
fléttast saman einsog ríki Heklu þar-
sem askan, hraunið, mosinn, birkið,
sandurinn, fjallið fléttast saman. Í Sel-
sundi er horft beint á mann og maður
er alltaf velkominn. Alltaf velkominn í
þennan göldrótta heim því rétt einsog
maður nefnir í sömu andrá hugsjón og
draum, nefnir maður draum og fjall.
Úr þessu er minningin hlaðin og fram-
kallast í myndum einsog þegar við
sátum á rúmstokknum hennar, bæk-
urnar alltíkring og hún sýndi mér
skartgripi, vefnað og annað sem hún
hafði gert, tókum kjaftatörn í búrinu,
gáðum að garðinum hennar þarsem
hún hlúði að tré eða blómi, sagði sögur
af þresti eða ref sem hún hafði hitt í
gönguferð meðfram hrauninu, sögur
frá æskustöðvunum í Vestmannaeyj-
um, búskaparárum, kvennabarátt-
unni, ferðunum til Prag, stjörnunum í
augunum yfir barnabörnunum, þessi
hlýja í röddinni þegar hún talaði um
fólk og hún talaði sérstaklega vel um
konur. Og ein öræfaferð hafði ráðið
úrslitum um ástina hennar og lífs-
göngu; og hún varðveitti þetta augna-
blik svo vel þegar hún sá hann fyrst að
hún var enn bálskotin í honum.
Svala var falleg kona og nett, augun
sveifluðust frá því að vera blíð, undr-
andi, glettin, hún var algjör stríðnis-
púki og yfirí það að vera hvöss, heit og
dul og allt þar á milli.
Þegar ég kom kalin á hjarta, úr-
vinda af vinnu og kannski sérstaklega
því að ég er með ferðafælni og fer
helst ekki útúr húsi, hvað þá úr bæn-
um var Svala í dyrunum í Selsundi.
Rétt einsog ég var þar oft í huganum
ogef ég er viðutan er það vegna þess
að ég sit við eldhúsborðið með Svölu,
Sverri, Mugg, Björku, Gunnheiði,
Gunnari en líka Karli Marx, Þórbergi,
Andra Snæ, Laxness, þarna situr líka
eldfjallið, kindurnar, hænurnar, hest-
arnir, heimspekin, pólitíkin, skýjafar-
ið, norðurljósin, heiðríkjan, slátturinn,
meiraðsegja guð getur troðið sér í
hornið; það komast allir að við þetta
borð. Eftir eina nótt í Selsundi yngist
ég um tíu ár eða það segir mamma og
botnar ekkert í því. Fegurðarblundur
í Selsundi er best varðveitta leyndar-
mál heimsins. Svala tók á móti mér
einsog ég væri dýrmætasti gestur í
heimi. Einsog ég ætti þar heima. Það
er á þessum mörkum sem lífið titrar.
Og tárin falla í mjúka lófana. Skáld-
skapurinn verður til, það er Svala sem
tekur á móti honum og gerir skáld-
skapinn, fegurðina, það sem satt er
ósegjanlega mikilvægt. Því hún segir
alltaf: Já elskan. Þegar hún er farin
bergmála orðin í huganum. Þau urðu
eftir.
Síðast þegar ég kom í Selsund var
Svala ekki þar. Það var tóm í húsinu.
Þótt Svala minnti á fíngerða fuglinn
nöfnu sína uppgötvaði ég að Svala var
einsog eldfjallið, það var hún sem ríkti
yfir bænum. Með því að gera ekki
neitt, með því að vera bara alltaf kát,
vinsamleg, gáfuð, og með þessar heitu
tilfinningar kraumandi. En það sást
bara í augunum. Ég heimsótti hana á
sjúkrahúsið á Selfossi, hún hafði auð-
vitað stungið af á hjólastólnum og
fannst eftir nokkra leit. Hún hafði
mestan áhuga á mínum málum og
þegar við kvöddumst tindruðu augu
hennar af elsku og velvilja og hún
lagði mjúku lófana sína utanum hend-
urnar mínar svo þær þiðnuðu og
bráðnuðu.
Elísabet Jökulsdóttir.
Við sjáum Svölu fyrir okkur koma
við í Þingborg með bros á vör. Hún
var ætíð eins og alþýðleg fjallkona í
fasi, tíguleg og jákvæð en þó gat gust-
að af henni. Ullarvinnslan í Þingborg
er meira en viðskiptafyrirtæki, þetta
er lifandi félagsskapur. Ein undir-
staða þessa blómstrandi félagslífs og
upphaf „andafundanna“ var þegar
þær tengdamæðgur buðu hópnum að
Selsundi. Það var tilhlökkunarefni því
ætíð hafði fylgt Svölu ferskur andblær
fjallanna. Við flestar flatlendingar en
hún húsmóðir á heiðarbýli sem kúrði
þétt uppi undir ægihamri Heklu-
hraunbreiðunnar.
Meðan kolin voru hituð fyrir veisl-
una vorum við leidd um litla húsið sem
í endurminningunni líktist meira höll.
Í garðinum uxu fegurstu blóm. Gægst
var inn í útihúsin og boðið upp á
gönguferð um nágrennið, ævintýra-
land þar sem leynast ótal gersemar,
tófugras í gjótu, lyngivaxnar lautir,
blómsturbrekkur og berin svo miklu
betri en önnur ber að ógleymdum öll-
um kynjamyndunum í hrauninu. Hún,
eylendingurinn, var orðin eitt með
þessum heimi.
Handverk Svölu bar keim af henni
sjálfri, allt var fágað. Hún spann lista-
vel á rokk, helst blöndu af þeli og fiðu,
dásamlega mjúkt og fallegt band. Um
árabil fékk hún ferðarokkinn okkar
„bensinn“ að láni til að geta spunnið
þau tímabilin sem hún dvaldi á
Reykjalundi. Hún sagði okkur oft sög-
ur af ánægjustundum þar við spun-
ann, þar sem hún kynnti íslensku ull-
ina og starf Þingborgarhópsins fyrir
öðrum dvalargestum. Einnig vann
hún fallega muni úr íslenska birkinu
sem óx allt í kringum hana og henni
þótti svo vænt um. Í fyrravor sagðist
hún ekki spinna meira, raunar undra-
vert að hún skyldi yfirleitt hafa getað
það, því spuni er ekki létt verk.
Hún reyndist sannspá, heilsunni
hrakaði, en aldrei var kvartað, bjart-
sýnin og þakklætið framar öllu. Við
minnumst hennar með söknuði og
þökk.
Þingborgarkonur.
Mig langar að minnast vinkonu
minnar Svölu Guðmundsdóttur frá
Selsundi á Rangárvöllum sem lést að
morgni 17. þessa mánaðar. Ég var svo
heppin að kynnast Guðrúnu, dóttur
þeirra hjóna Svölu og Sverris, sem
varð til þess að ég kynntist öllu henn-
ar fólki í Selsundi. Marga góða stund-
ina hef ég átt þar við smalamennsku,
rúning, frátöku lamba og ýmis önnur
sveitastörf og Svala mín eyðilagði nú
ekki félagsskapinn þegar inn kom.
Hún sýndi alltaf þetta glaða viðmót,
alveg sama á hverju gekk.
Mér er hugstætt hve Heklan
kvaddi oft tignarlega í baksýnisspegl-
inum stuttu eftir að ég kvaddi heim-
ilisfólkið.
Minnisstæð er ferð okkar fjögurra
stelpnanna Svölu, Guðrúnar og Svölu
yngri til Amsterdam sem við fórum
síðari hluta árs 2005. Það var yndis-
legt að fá að vera með Svölu eldri og
finna að hún naut hverrar mínútu.
Hún var búin að undirbúa sig svo vel,
með því að lesa danska ferðahandbók,
að oft gaf hún okkur fróðleiksmola um
hinar og þessar byggingar sem við
skoðuðum eða persónur sem þar
höfðu dvalið. Hún naut þess einstak-
lega vel að fara út að borða og bragða
á nýjum mat og víni. Hún var alltaf
hugguleg til fara og yfir henni svo
mikil reisn. Svala var heimsborgari.
Hún var mikill mannvinur. Það
kom vel fram í þessari ferð þar sem
hún var sífellt að hugsa um sína. Hún
vildi sem oftast fá að vita hvað væri að
gerast heima og heim til sín kom hún
hlaðin gjöfum.
Ég heimsótti Svölu næstsíðasta dag
síðasta árs og átti þá með henni ynd-
islega stund. Við spjölluðum heilmikið
og hlustuðum saman á þáttinn „Orð
skulu standa“ á Rás 1. Við reyndum
okkur með keppendunum og gátum
ýmislegt lagt til málanna saman. Við
skynjuðum báðar að þetta yrði okkar
síðasta samvera og hún var tilbúin og
ókvíðin þess er biði hennar. Það eru
svona stundir sem maður gleymir
aldrei.
Eftir kossa og faðmlög frá öllu
heimilisfólkinu þennan dag hélt ég að
vanda niður Rangárvellina. Ég leit í
baksýnisspegilinn og nú var Heklan
hulin skýjum og hálfdrungaleg ásýnd-
um. Ég hafði heldur ekki skrifað í
gestabókina en það hafði Svala alltaf
séð um að fólk gerði áður en það
kvaddi. Það voru einhverjar breyting-
ar í aðsigi.
Ég veit þó að það verður alltaf jafn-
gaman að koma að Selsundi í framtíð-
inni því öll él birtir upp um síðir.
Við Ágúst sendum Sverri, börnum
og fjölskyldum og öllum ástvinum
innilegar samúðarkveðjur.
Ólöf Þorsteinsdóttir.
Svala Guðmundsdóttir