Morgunblaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 20
20 LAUGARDAGUR 3. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Boga Þór Arason
bogi@mbl.is
STJÓRN sósíalista á Spáni hefur
sætt harðri gagnrýni fyrir að láta
einn af illræmdustu vígamönnum
ETA, aðskilnaðarhreyfingar Baska,
lausan úr fangelsi „af mannúðar-
ástæðum“ þar sem óttast var að hann
væri að dauða kominn eftir að hafa
verið í mótmælasvelti í 114 daga.
Fanginn, Inaki de Juana Chaos,
var fluttur á sjúkrahús í Baskalandi
og hætti þá mótmælasveltinu. Hann
átti eftir að afplána tvö ár af fangels-
isdómi og verður í stofufangelsi í
gæslu lögreglunnar á þeim tíma.
De Juana hafði verið í fangelsi frá
1987 og var upphaflega dæmdur í
3.000 ára fangelsi fyrir aðild að morð-
um á 25 lögreglu- og hermönnum á
níunda áratug aldarinnar sem leið.
Þegar hann hóf afplánunina gat há-
marksrefsingin þó aðeins numið 30
árum samkvæmt spænskum lögum.
Vegna góðrar hegðunar fangans
og annarra þátta sem milda refs-
inguna átti að láta de Juana lausan á
liðnu ári en hann var þá ákærður fyr-
ir að skrifa greinar í blöð þar sem
hann er sagður hvetja til hryðju-
verkastarfsemi. Hann var síðan
dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir þær
sakir en hæstiréttur Spánar mildaði
dóminn í þrjú ár um miðjan febrúar.
Tugir þúsunda Spánverja mótmæltu
þeirri ákvörðun dómstólsins í mið-
borg Madrídar á laugardaginn var.
„Óhugnanleg kaldhæðni“
Samtök ættingja þeirra sem látið
hafa lífið í árásum ETA mótmæltu
harðlega þeirri ákvörðun stjórnar-
innar að sleppa de Juana úr fangelsi.
„Stjórnin hefur gefist upp fyrir
ETA,“ sögðu samtökin og lýstu því
sem „óhugnanlegri kaldhæðni“ að
fanginn skyldi hafa verið látinn laus
af mannúðarástæðum „í ljósi örlaga
þeirra sem hann myrti, limlesti og
eyðilagði félagslega og sálfræðilega“.
Samtök spænskra lögregluþjóna
tóku í sama streng og Þjóðarflokk-
urinn (PP) sakaði stjórnina um upp-
gjöf í baráttunni gegn hryðjuverk-
um.
„Þetta er í fyrsta skipti sem
spænsk stjórnvöld láta ETA kúga
sig,“ sagði Angel Acebes, fram-
kvæmdastjóri Þjóðarflokksins og
fyrrverandi utanríkisráðherra.
„Þetta er stórfurðulegt skref aftur
á bak,“ sagði borgarstjóri Madrídar,
íhaldsmaðurinn Alberto Ruiz Gallar-
don.
Stjórnin sakaði Þjóðarflokkinn um
hræsni og sagði að 20 ETA-mönnum
hefði verið sleppt úr fangelsi á valda-
tíma flokksins þótt margir þeirra
hefðu verið dæmdir fyrir morð.
Alfredo Pérez Rualcaba, innanrík-
isráðherra Spánar, sagði þegar hann
skýrði frá ákvörðun stjórnarinnar í
fyrradag að stuðningsmenn ETA
kynnu að líta á de Juana sem písl-
arvott dæi hann í fangelsi. Stuðn-
ingsmenn ETA höfðu efnt til mót-
mæla til að krefjast þess að de Juana
yrði látinn laus og óttast var að
hreyfingin myndi hefja nýja hrinu
hryðjuverka.
Flokkur baskneskra þjóðernis-
sinna, sem er við völd í Baskalandi,
fagnaði ákvörðun stjórnarinnar,
sagði hana skynsamlega og „lagalega
óaðfinnanlega“.
Stjórn sósíalista hóf friðarviðræð-
ur við ETA eftir að hreyfingin lýsti
yfir varanlegu opnahléi fyrir ári en
viðræðunum var hætt eftir að tveir
menn biðu bana í sprengjutilræði á
flugvelli í Madríd 30. desember.
Segja stjórn Spánar
gefast upp fyrir ETA
Stjórnvöld gagnrýnd fyrir að sleppa hryðjuverkamanni úr
fangelsi til að afstýra því að hann deyi í mótmælasvelti
De Juana Chaos Pérez Rualcaba
Reið Mótmælendur fyrir utan innanríkisráðuneytið í Madríd mótmæla
þeirri ákvörðun að leysa einn af hryðjuverkamönnum ETA úr haldi.
Reuters
New Orleans. AFP. | Að minnsta kosti
tuttugu manns biðu bana af völdum
skýstróka í sunnanverðum Banda-
ríkjunum í gær og fyrradag. Á
meðal þeirra voru átta unglingar
sem létu lífið þegar þak framhalds-
skóla þeirra hrundi í bænum En-
terprise í Alabama-ríki.
Óveðrið geisaði á stóru svæði í
suðausturhluta Bandaríkjanna og
færðist í norðaustur í gær, að sögn
bandarísku veðurstofunnar. Varað
var við skýstrókum frá norðurhluta
Flórída til Virginíu og austurhluta
Maryland síðdegis í gær.
Skýstrókur olli skemmdum á
sjúkrahúsi í bænum Americus í
Georgíuríki, eyðilagði sjúkrabíla
og flytja varð 55 sjúklinga í burtu.
Minnst sjö manns biðu bana í bæj-
um í suðurhluta Georgíu og hermt
er að stúlka hafi dáið af völdum
skýstróks í Missouri.
Bandarísk yfirvöld sögðu að vit-
að væri um a.m.k. nítján skýstróka í
Alabama, Missouri og Georgíu.
Mannskæðir skýstrókar í
suðurhluta Bandaríkjanna
AP
Eyðilegging Miklar skemmdir urðu
á skóla í Enterprise í Alabama.
FREGNIR hermdu í gær að öryggissveit í Pakistan hefði handtekið fyrr-
verandi varnarmálaráðherra talibanahreyfingarinnar í Afganistan, múll-
ann Obaidullah Akhund.
Heimildarmenn í pakistönsku leyniþjónustunni sögðu að múlla Obaidul-
lah hefði verið handtekinn í borginni Quetta á mánudaginn var þegar Dick
Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, var í heimsókn í Pakistan. Ef þetta er
rétt er hann hæst setti talibanaleiðtoginn sem handtekinn hefur verið frá
því að stjórn hreyfingarinnar var steypt af stóli árið 2001.
Yfirvöld í Pakistan höfðu ekki staðfest fréttina í gær. Talsmaður talib-
ana sagði að enginn fótur væri fyrir því að Obaidullah hefði verið handtek-
inn. Fréttastofan Reuters hafði hins vegar eftir heimildarmönnum úr röð-
um talibana að fréttin væri rétt og The New York Times sagði að
bandarískir leyniþjónustumenn hefðu staðfest handtökuna.
Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að múlla Obaidullah sé á meðal þriggja
valdamestu samstarfsmanna æðsta leiðtoga talibana, múlla Omars, sem
leikur lausum hala. Talið er að Obaidullah sé nú þriðji valdamesti mað-
urinn í hreyfingunni.
Einn leiðtoga talibana sagður
handtekinn í Pakistan
Berlín. AFP. | Þýska geimrannsókn-
arstofnunin er að undirbúa ómann-
aða ferð til tunglsins, verkefni sem
þykir til marks um vaxandi sjálfs-
traust þjóðarinnar eftir margra ára
efnahagslægð.
Þetta kom fram í viðtali við-
skiptablaðsins Financial Times
Deutschland við stjórnanda stofn-
unarinnar, Walter Döllinger, á
fimmtudag. Þar fullyrti hann að
Þjóðverjar myndu árið 2013 verða
tilbúnir til að senda ómannað geim-
far á braut um tunglið og er svo
stefnan að þýskt vélmenni lendi á
yfirborði þess sjö árum síðar.
Að sögn Döllingers er stjórn eðl-
isfræðingsins Angelu Merkel kansl-
ara að íhuga hvort hún eigi að
styðja verkefnið en fyrri áfanginn
er talinn muni kosta á milli 26,5 og
35 milljarða íslenskra króna.
Þjóðverjar
ætla á tunglið
EFTIR að hafa kyngt síðasta bitanum af snöggsteikta laxinum lyfti Spen-
cer litli köldu kampavínsglasinu og skálaði við matargesti, um leið og hann
gaf þjónunum kunnáttusamlega merki um að bera fram eftirréttinn. Á
þessa lund hefst frásögn breska dagblaðsins The Times af sérstökum nám-
skeiðum í borð- og mannasiðum fyrir börn stórefnafólks í Kaliforníu.
Spencer, sem er níu ára, er sagður í fámennum hópi barna sem fá leið-
sögn í ýmsum bráðnauðsynlegum atriðum á borð við það hvernig eigi að
kynna foreldra sína fyrir kóngafólki eða sjálfum páfanum.
Mikil eftirspurn er eftir námskeiðunum og eru foreldrar sagðir slást um
að koma börnunum á biðlista. Mörg þeirra eru augljóslega vel undirbúin
því blaðamaður The Times segir kennarann hafa uppgötvað í kennslu-
stund um það hvernig eigi að skrifa þakkarbréf að ófá börn hafi komið með
sérhönnuð ritföng og stimpla sem þrykkja bókstafi í bráðið vaxið. Hafa
margir foreldrar áhyggjur af því að mannasiðum fari hrakandi vestanhafs.
Ríku börnin læra að haga sér
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri
Sameinuðu þjóðanna, sagði í ræðu í
gær að loftslagsbreytingar væru
jafnmikil ógn við mannkynið og
stríðsátök. Þær gætu orðið afar
slæm arfleifð fyrir næstu kynslóðir.
Á við stríðsátök
Mohamed Fayed hefur unnið mál
fyrir hæstarétti Bretlands um að
réttarrannsókn á dauða sonar hans
Dodi og Díönu prinsessu verði hald-
in að viðstöddum kviðdómi.
Fyrir kviðdómi
Saksóknarar á Flórída lögðu í gær
fram ákæru á hendur geimfaranum
Lísu Nowak fyrir tilraun til að
ræna vinkonu manns sem hún elsk-
aði. Hún var hins vegar ekki kærð
fyrir tilraun til manndráps.
Geimfari kærður
Talið er að 100.000 manns hafi tek-
ið þátt í mótmælagöngu í Lissabon,
höfuðborg Portúgals, í gær, þar
sem aðgerðum stjórnvalda á efna-
hagssviðinu var mótmælt.
Ólga í Lissabon
ERLENT