Morgunblaðið - 25.05.2007, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 25.05.2007, Blaðsíða 35
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. MAÍ 2007 35 ✝ Elín Friðriks-dóttir fæddist í Vestmannaeyjum 6. október 1922. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 20. maí síðastliðinn. For- eldrar hennar voru Friðrik Ingimund- arson, f. á Skarðs- hjáleigu í Mýrdal 17.9. 1894, og Sveinbjörg Sveins- dóttir, f. á Eyrar- bakka 2.4. 1898. Systkini Elínar eru Svanhvít, Matthildur og Friðrik sem er látinn. Maki Elínar var Símon Guð- jónsson skipstjóri og útgerðar- maður, f. í Neskaupstað 15.3. 1921, d. 7.11. 2003; þau slitu samvistir. Synir þeirra eru: 1) Ólafur Haukur, f. 24.8. 1947, maki Guðlaug María Bjarnadóttir; börn þeirra eru Freyr Gunnar, Elín Sig- ríður og Unnur Sesselía; 2) Birgir Svan, f. 3.1. 1951, maki Stefanía Er- lingsdóttir; þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Steinar og Símon Örn; 3) Guðjón, f. 11.4. 1964, maki Jóna Karen Jensdóttir. Börn þeirra eru Berglind, Oddný og Guðjón; dóttir Berglindar er Birta Sól. Útför Elínar verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 11. Allar mæður spilla sonum sínum með eftirlæti. Sonum Elínar Frið- riksdóttur leyfðist ekki að ganga í óhreinum fatnaði. Þeir urðu að gjöra svo vel að rífa sig úr bol, sokkum og brók og fá þetta mömmu í hendur. Það var rosalega pirrandi að mega ekki einu sinni vera í fótbolta með hné og rass út úr buxunum. Í hvert skipti sem við komum heim af bryggjunum ilm- andi af slori var viðkomandi dreg- inn fram í þvottahús, stungið ofan í stóran stamp og spúlaður með slöngu. Mamma, láttu ekki svona, af hverju má maður ekki vera skít- ugur? Í stofunni heima var saumað, ekki bara á okkur strákana, heldur á konurnar í hverfinu. Áslaug beinasleggja var lögð upp á stofu- borð, ofan á smjörpappír, og móðir okkar bjó í hvelli til snið með krít og skærum. Hókus, pókus, og innan stundar var orðinn til kjóllinn sem vantaði til að bjarga ballinu um kvöldið. Hún Ella Friðriks hafði töfra í fingrunum og gat breytt gömlum frakka í jakkaföt eins og að drekka vatn. Það var ekki mulið undir Elínu, hvorki fyrr né síðar. Úti í Vest- mannaeyjum stundaði frændgarð- urinn allur sjó. Sjórinn gaf og sjór- inn tók. Friðrik og Sveina voru dugnaðarfólk, hann var formaður á vélbáti, en veikindi settu strik í þann reikning. Sveina vann á fisk- reitunum, og enginn dó úr hungri. Systkinin í Skipholti fóru ung að vinna, annað var ekki í boði. Tíu ára gömul hljóp Elín litla með kaffi- flöskuna í ullarsokki frá Skarðshjá- leigu í Mýrdal upp í vitann á Dyr- hólaey. Þrettán ára var Elín komin í vist hjá Bridde bakara í Reykja- vík. Hún sneri aldrei aftur út í Eyj- ar. Elín kynntist Símoni Guðjóns- syni, ungum skipstjóra austan úr Neskaupstað, og þegar síldin fyllti Hvalfjörð haustið 1947 fæddist þeim sonur. Fyrsta veturinn bjuggu þau í sumarhúsi við Elliðaárnar, og á meðan Símon sótti síldarfarma í Hvalfjörðinn sótti Elín vatn í El- liðaárnar. Synirnir urðu þrír. Elín elskaði þá umfram allt og lét einskis ófreistað að gera þá að góðum, heið- arlegum og, umfram allt, snyrtileg- um piltum. Þeir reyndu auðvitað allt hvað þeir gátu til að vera hort- ugir og skítugir. En þegar allt er skoðað hafði hún betur; sá sem gef- ur öðrum allt er ósigrandi. Sjómannskonur voru mæður, eig- inkonur, bústjórar, heimilislöggur, skraddarar, sálusorgarar, lána- stofnanir, og öllum þessum emb- ættum gegndi móðir okkar með sóma. Elín og Símon slitu samvistir. Elín hóf nýtt líf. Á sviðinu birtist vinsæll starfs- maður á spítala, og ómissandi amma. Þessi amma byrjaði um- svifalaust að gera það sem hún kunni svo vel: að spilla barnabörn- unum með ómældri elsku. Þannig liðu fáein björt og góð ár. Svo byrj- aði Alzheimersjúkdómurinn að segja til sín. Fimmtán ára vegferð með þeim vágesti er langur tími. Hrafnista í Hafnarfirði var síðasta heimili Elínar. Þar launaði heim- urinn henni loksins gott með góðu: sú einstaka elskusemi sem móður okkar var sýnd á þeim stað hlýtur að benda til þess að mannkyninu sé viðbjargandi. Konan sem gaf allt sem hún átti og heimtaði ekkert á móti hefur kvatt. Dagleiðin langa inn í nótt er nú gengin. Ólafur Haukur Símonarson Guðjón Símonarson. Amma Ella er dáin. Ég veit þó ekki hvort hægt sé að kalla síðustu ár ævi hennar einhvers konar líf. Alzheimer-sjúkdómurinn hafði hrifsað hana frá okkur. Læst hana inn í stofufangelsi með engri von um náðun. Öll þessi ár hefur maður reynt að hugsa um góðu stundirnar. Minningarnar frá Stóragerði. Um ýsu í raspi og hinn merkilega rétt sem við strákarnir kölluðum rúpu; um þær stundir sem ég átti einn með ömmu við eldhúsborðið þar sem við hlustuðum á Vilhjálm Vil- hjálmsson syngja Lítill drengur; um gerviplönturnar sem stundum voru vökvaðar og útsaumuðu mynd- irnar á veggjunum; um ruggustól- inn með bleika áklæðinu og dýnuna í kjallaranum sem dregin var fram þegar við fengum að gista. Ég hefði þó gjarna viljað kynnast Elínu sem fullorðinn maður. Spjalla við hana um lífið og tilveruna og reykja með henni eins og eina Gold Coast við eldhúsborðið. Ég hef átt erfitt með að sætta mig við að vera ókunnugur drengur í augum ömmu minnar. Ég hef grátið þegar ég hef heimsótt hana og ekki skilið af hverju sjúkdóm- urinn þurfti að banka upp á hjá henni. Síðustu árin hefur það samt gefið mér mikið að heimsækja hana upp á Hrafnistu. Maður getur ekki annað en dáðst að dugnaði hennar og elju. Amma Ella gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hún vildi aldrei sitja kjurr og leiddi ótrauð föður minn um gangana þótt hring- urinn styttist með hverju árinu. Þrátt fyrir að þjást af sjúkdómi sem sviptir þig minninu, málinu og á endanum lífinu hefur amma Ella kennt mér margt. Hún hefur kennt mér að maður verður alltaf að halda áfram. Maður má aldrei gefast upp eða hætta göngunni þrátt fyrir þúf- ur á veginum. Ég er stoltur af ömmu Ellu og kveð hana með sökn- uði og tárum. Símon Birgisson. Kæra móðir. Ég naut þeirrar náðar sem börn gjarna njóta að fá vera skugginn þinn allt fram á unglingsár. Það var ófátt sem þú höndlaðir með, það dróst að þér fólk sem lagði hjarta sitt á eldhúsborðið, fólk sem þurfti að hugga, hressa, greiða, sauma á, steypa í tennur. Og flestir fengu úr- lausn mála. Þú hafðir bæði reisn og lífsorku sem var til skiptanna. Og aldrei held ég þú hafir íhugað upp- gjöf þó gæfi á bátinn. Við bjuggum í þröngri kjallara- íbúð en það var sama hve aumt hús- næði þú hafðir til umráða, þú breyttir því í höll töfra. Það fannst okkur bræðrunum í það minnsta þegar hátíðir fóru í hönd. Það lék flest í höndum þínum. Þú saumaðir lengi á okkur flest föt upp úr gömlu og mér verður minnisstætt þegar þú saumaðir á mig Roy Roggers- skyrtuna. Það má ef til vill segja að hamingja þín hafi verið hamingja drengjanna þinna. Þú hafðir gaman af því að fara út að skemmta þér, glæsileg í heima- saumuðum kjólum með hrafnsvart hár. Þú naust þess að dansa og elskaðir tónlist. Þínir uppáhalds- menn voru Haukur Morthens og Raggi Bjarna og það var ekki und- antekning heldur regla að syngja með kóngunum og útvarpinu. Mér virtist þú hafa fágæt tök á fólki sem var svolítið öðruvísi. Þú gast tjónkað við drykkfellda sjó- menn og illskeytta unglinga, þú virtir og skildir þá sem lent höfðu utangarðs. Sjálfur hef ég reynt að tileinka mér þetta viðhorf. Mig langar til að minnast á annan eiginleika sem þú hafðir í óvenju ríkum mæli en það var gjafmildi og höfðingsskapur. Ég man þess mörg dæmi að þú læddir þínum síðustu aurum í vasa okkar strákanna án þess að við bæðum um þá og án þess að þú væntir nokkurs í stað- inn. Það var einnig alveg sama hvaða heimshornaflakkara við bræðurnir drógum heim með okk- ur, alltaf var drifið upp kökudeig og eldaður dýrlegur fiskur. Það var ólýsanleg sorg að finna hvernig sjúkdómurinn Alzheimer tók þig smám saman frá okkur börnum þínum og barnabörnum og öðrum sem þekktu þig. Líklegt þyk- ir mér að sjúkdómssagan spanni tólf ár. Og vont gat lengi versnað að því er mér fannst. Þér þótti best að koma með manninum, mér, heim á Urðarstíg, fá þér svart kaffi, sígar- ettu, hlusta á Eyjalög og strjúka kettinum. En þar kom að þú treyst- ir þér ekki út af Hrafnistu. Þrátt fyrir áföllin hélstu samt áfram að vera þú og kannski var það ekki síst frábæru starfsfólki Hrafnistu að þakka að lífið hélt áfram. Ég fór alltaf frá þér með meiri gleði en sorg í huga. Þú varst örugg í vinasamfélagi. Mig langar til að enda þessi orð á því að þakka starfsfólki Hrafnistu í Hafnarfirði fyrir það starf sem það leysti af hendi langt út fyrir það sem hægt er að ætlast til eða sem því er laun- að fyrir. Ég kveð þig kæra móðir þakklátu hjarta í þeirri vissu að þú munt ná háttum í því landi ljóssins þar sem mæðraorlofið er eilífðin sjálf. Birgir Svan Símonarson. Hún Elín tengdamóðir mín er nú loksins búin að fá hvíldina frá þeim illvíga sjúkdómi sem Alzheimer er. Ég vil minnast hennar eins og hún var þegar ég kynntist henni fyrst. Elín var falleg kona, lítil og nett, alltaf vel til höfð og skemmtilega skapandi. Það var gaman að hlusta á hana segja frá. Hún gæddi frá- sögnina oft miklu lífi. Elín var ákaf- lega listræn; hvort sem hún sat við saumavélina eða raðaði upp blóm- um, föndraði með barnabörnunum eða braut saman þvottinn. Það var oft gaman að sjá hvernig hún gat komið hlutum fyrir. Hún sinnti minnstu verkum með alúð og oft naut ég þess að koma heim, eftir að hún hafði verið að passa syni okkar, og horfa yfir litla húsið mitt í Hafn- arfirðinum eftir að hönd hennar hafði strokið yfir. Einu gleymi ég aldrei. Þegar við bjuggum á Rifi heimsótti Elín okk- ur til að vera viðstödd skírn eldri sonar okkar. Það geisaði stormur en hún lét óveðrið ekki aftra sér. Mætti brosandi með blómvönd og tertu í farteskinu. Hún var guð- móðir drengjanna minna beggja. Hún veitti okkur ómetanlega hjálp og stuðning í veikindum Steinars eldri sonar míns, hún kom líka til okkar þegar við bjuggum á Hall- ormsstað og kynntist þá vel Símoni litla sem þá var að verða eins árs. Það voru sólskinsdagar. Ég votta aðstandendum Elínar mína dýpstu samúð og kveð með söknuði mína gömlu tengdamóður. Stefanía Erlingsdóttir. Elín Friðriksdóttir ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda- faðir, afi og langafi, KRISTINN GUNNARSSON, Ártúni 4, Hellu, verður jarðsunginn frá Oddakirkju laugardaginn 26. maí kl. 13:30. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hans er bent á Styrktarsjóð langveikra barna. Unnur Einarsdóttir, Eiður Einar Kristinsson, Anna Björg Stefánsdóttir, Guðni Gunnar Kristinsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Guðlaugur U. Kristinsson, Svanhildur Guðjónsdóttir, Áslaug Anna Kristinsdóttir, Sverrir Már Viðarsson, Kristrún Sif Kristinsdóttir, barnabörn og barnabarnabarn. ✝ Hjartans þakkir sendum við öllum vinum og vanda- mönnum fyrir auðsýnda samúð og vináttu vegna fráfalls elskulegrar móður okkar, ömmu og langömmu, ÖNNU NIKULÁSDÓTTUR. Ólafur Reynir Sigurjónsson, Brynhildur Aðalsteinsdóttir, María Knútsdóttir, Alf Bengtsson, Tómas J. Knútsson, Magga Hrönn Kjartansdóttir, Björn Ingi Knútsson, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, barnabörn og langömmubörn. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og systir, HREFNA MAGDALENA STEFÁNSDÓTTIR, fóstra, Boðagranda 3, Reykjavík, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi miðvikudaginn 23. maí. Útförin fer fram frá Neskirkju fimmtudaginn 31. maí kl. 13.00. Kristján Geir Pétursson, Henný Hinz, Sindri Pétursson, Sigríður Stefánsdóttir, Elínborg S. Kjærnested, Símon Kjærnested, Borghildur Stefánsdóttir, Sverrir Stefánsson, og barnabörn. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, ÖRN ÁSGEIRSSON, Hraunbæ 198, Reykjavík, lést aðfaranótt fimmtudagsins 24. maí á Landspítala við Hringbraut. Útförin verður auglýst síðar. Þórey Sævar Sigurbjörnsdóttir, Sigurður Rúnar Karlsson, Þórunn Magnúsdóttir, Hrafnhildur Arnardóttir, Ásgeir G. Arnarson, Jóhanna Rósa Kolbeins., Gunnar Örn Arnarson, Bella Freydís Pétursdóttir, Bjarki Þór Arnarson, Ingveldur Gísladóttir og barnabörn. Morgunblaðið birtir minningargreinar alla útgáfudagana. Skil | Greinarnar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is – smella á reitinn Senda efni til Morgunblaðsins – þá birtist valkosturinn Minningargreinar ásamt frekari upplýsingum. Skilafrestur | Ef birta á minningargrein á útfarardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Ef útför hefur farið fram eða grein berst ekki innan hins til- tekna skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skila- frestur rennur út. Formáli | Minningargreinum fylgir formáli, sem nánustu aðstandendur senda inn. Þar koma fram upplýsingar um hvar og hvenær sá, sem fjallað er um, fæddist, hvar og hvenær hann lést, um foreldra hans, systkini, maka og börn og loks hvaðan útförin fer fram og klukkan hvað athöfnin hefst. Ætlast er til að þetta komi aðeins fram í formálanum, sem er feitletraður, en ekki í minningargreinunum. Myndir | Ef mynd hefur birst í tilkynningu er hún sjálfkrafa notuð með minningargrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd er ráðlegt að senda hana á myndamóttöku: pix@mbl.is og láta umsjónarmenn minningar- greina vita. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.