Morgunblaðið - 18.07.2008, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 18.07.2008, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. JÚLÍ 2008 25 maður fróðari og víðsýnni af hans fundi. Bergsteinn tók miklu ástfóstri við heimahaga forfeðra sinna, Árgils- staði og vildi dvelja þar öllum stund- um. Strax í æsku heyrði maður hann segja frá ævintýralegri hesta- mennsku hans þar, því hann dvaldi þar öll sumur strax og hann hafði aldur til. Seinna byggði hann þar sumarbú- stað og ræktaði skóg. Þarna var mjög góð aðstaða fyrir hestana og leikvöllur fyrir barn og barnabörn þeirra hjóna Bergsteins og Mörtu. Þarna undi hann sér best. Þegar hann var spurður hvort hann vildi farga þessum stað svaraði hann að alveg eins væri hægt að rífa úr hon- um hjartað. Það voru því sterk örlög sem réðu því að hann skyldi mæta skapara sínum á þessum stað. Jóhann J. Ólafsson. Heiðursmaðurinn Bergsteinn Giz- urarson er fallinn frá. Voru það snögg og ótímabær umskipti. Mér er minnisstætt, þegar Marta systur- dóttir mín kom fyrst með þennan unga mann í heimsókn til okkar. Þá upphófust kynni, sem áttu eftir að standa lengi og vera með mestu ágætum. Bergsteinn nam verkfræði og hafði alla tíð skarpa þekkingu á gerð bygginga. Var hann skipaður brunamálastjóri og gegndi því starfi fram til ársins 2001. Auk embættisvinnu sinnar átti Bergsteinn fjölda áhugamála. Hann var starfsglaður maður, og var ein- staklega hjálplegur, fróðleiksfús og uppfinningasamur. Mér er í minni þegar við hjónin vorum veðurteppt vegna fannfergis eina páskahelgi í sumarhúsi okkar við Laxfoss í Borgarfirði. Þá komu þau Marta og Bergsteinn akandi frá Reykjavík til að bjarga okkur. Fönn- in var þá svo mikil, að hægt var að fara á skíðum niður fossinn í Norð- urá. Bergsteinn átti froskbúning og hóf að kenna Sigrúnu konu minni köfun. Var jafnvel kafað í hylji árinn- ar og synt innan um laxinn. Berg- steinn eignaðist gúmmíbát og sigldi víða um sjó og vötn á þeirri fleytu. Á seinni árum lagði hann og Marta í lengri siglingar um heimshöfin, og þá tókst Bergsteini jafnvel einnig að kafa við Risarifið í Ástralíu. Bergsteinn undi frístundum sín- um á Árgilsstöðum, ættaróðali fjöl- skyldunnar. Var hann áhugasamur um skógrækt og tókst mjög að bæta um skógarreiti jarðarinnar. Þar áttu þau hjón hesta, og ferðuðust á þeim víða um uppsveitir Rangárvalla. Var Bergsteinn þar þaulkunnugur öllum staðháttum. Þarna voru söguslóðir Njálu. Var það vafalaust kveikja þess, að Bergsteinn tók að kanna sögu beinhringsins alkunna, sem fannst við Knafahóla á átakastað Gunnars á Hlíðarenda og bræðra hans við óvinaflokk. Safnaði Bergsteinn miklum upp- lýsingum um boga og fleiri vopn landsmanna og skráði um það efni fróðlega bók, sem enn er í handriti. Sagði hann frá þessum merku rann- sóknum sínum víða á félagsfundum, og þótti mönnum mjög áhugavert að hlýða á frásagnir hans. Einnig var Bergsteinn búinn að viða að sér mikl- um fróðleik um uppruna Íslendinga, og átti um það efni gott ritsafn. Bergsteinn var stöðugt með ein- hver ný viðfangsefni á prjónunum. Hann hafði nú síðla sumars undirbú- ið siglingu á konunglegu lystiskipi allt til Svartahafsins á fornar slóðir norrænna manna. Nú er för Berg- steins heitið á aðrar og fjarlægari brautir. Við söknum góðs vinar og ferðafélaga. Við Sigrún vottum Mörtu og öðrum nánum aðstandend- um djúpa samúð. Sturla Friðriksson. Fyrst hitti ég Bergstein fyrir nær 50 árum uppi á Kaldadal. Ég og fjöl- skylda mín vorum þar á ferð og þurftum yfir brúarlausa á að fara í sama mund og Bergsteinn og hans fjölskyldu bar þar að. Ég man nú ekki lengur hvorum bílnum hlekktist á í ánni en vandamálið var fljótlega leyst, því allir virtust þekkjast sem í bílunum voru og því sjálfsagt að hjálpast að. Þegar Bergsteinn kom að háskól- anum í Berkeley, kynntist hann Vig- fúsi bróður mínum og þeirra vinátta entist meðan báðir lifðu. Þeirra áhugamál voru oft hin sömu: skóg- rækt, verkfræði, hestar, Ísland. Bergsteinn var eins konar Rena- issance-maður – svo vítt var hans sjónarsvið og viðfangsefni mörg. Það var alltaf gaman að fá upphringingu frá honum og heyra hvað var nýtt frá hans sjónarhóli, hvort sem var þró- um norrænna nafna í erlendum tungumálum eða athuganir hans á forsögu Íslands svo eitthvað sé nefnt. Þegar bróðir minn dó og æ síðan var hann mér sem besti bróðir. Börn- in mín kynntust Íslandi gegnum þessa ágætu fjölskyldu. Og við eig- um honum og Mörtu svo miklu meir að þakka en við getum launað. Nú er hann horfinn okkur. Ég vil gjarnan sjá í huga mér gömlu vinina tvo hittast einu sinni enn á einhverju undralandi þar sem eru fagrar auðn- ir og úfin fjöll – kannski ein lítil Cessna-flugvél – góðir hestar. Þeir geta þá í góðu tómi skyggnst um hugarheim mannkyns svo langt sem nokkur glæta nær. Við sendum þessum trausta góða vini hinstu kveðjur. Við vottum fjölskyldu Bergsteins hjartanlega samúð. Inga, Kristín og Tom. Í september 1956 hòfu 15 ungir menn nám við verkfræðideild Há- skóla Íslands. 8 þessara ungu manna áttu eftir að bindast vináttuböndum sem ekki hafa rofnað síðan. Eftir verkfræðinámið, sem lauk við Danmarks Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn dreifðist hópurinn vítt um heim, en alltaf var tími þegar fundum bar saman að setjast á góðra vina fund og minnast námsáranna og allra þeirra skemmtilegu atvika og stunda sem við áttum saman. Við komuna til Kaupmannahafnar kom í ljós að þessi 8 manna hópur var hávaxinn nokkuð, meðalhæð 190 cm, og var af sumum talinn fyrirferðar- meiri en flestir aðrir. Festist því nafnið „Groddarnir“ við hópinn. Einn þessara ungu manna var Bergsteinn Gizurarson, sem lést 9. júlí sl., langt um aldur fram. Berg- steinn starfaði sem verkfræðingur allan sinn starfsaldur og síðast en ekki síst sem brunamálastjóri þar til hann lét af störfum árið 2000. Bergsteinn var mjög hæfur verk- fræðingur og hugsandi og ábyrgur maður og sá á stundum lausnir og möguleika sem öðrum hafði yfirsést, eða ekki þorað að bera á borð. Hann var þá gjarnan óhræddur að halda sínum skoðunum til streitu, hvort sem það truflaði kerfið eða pólitíska vildarmenn. Stóð því á stundum styr um hann sem opinberan starfsmann. Bergsteini hlotnaðist sú hamingja að kvænast Mörtu Bergman sem reyndist honum traustur lífsföru- nautur og féll ljúflega inn í vinahóp okkar. Með henni átti hann soninn Gizur og urðu barnabörnin honum sérstaklega kær. Í frístundum sínum átti Berg- steinn mörg áhugamál, sem gripu hann föstum tökum. Hann gerði at- huganir og uppgötvanir sem vöktu athygli fræðimanna. Hann gerði sér grein fyrir að hringur, sem fannst við fornleifa- gröft í Rangárþingi, hafði verið not- aður við bogfimi og færði rök fyrir að menn á borð við Gunnar á Hlíðar- enda hefðu notað slíka hringi og skotið með bogum af sérstakri gerð, mun öflugri en venjulegir bogar. Hann var hafsjór af fróðleik um Njálu og Njáluslóðir enda lágu ræt- ur hans í Rangárþingi. Hann var óspar á að fræða aðra um þessi mál og tók þá gjarnan með boga af þess- ari sérstöku gerð og sýndi bogfimi sem af bar. Bergsteinn var mjög ættfróður og hafði, löngu áður en Íslendingabók hin nýrri kom fram, rakið ættir sínar til fornkonunga. Þegar við vinirnir hittumst, hafði hann margoft upp- götvað ný ættartengsl og skyldleika okkar á milli. Búskapur var alla tíð mikið áhuga- mál Bergsteins, það hæfði vel áhuga hans á hestum og reiðmennsku, en síðustu árin hafði hann um 40 hesta á fóðrum. Margar af sínum bestu stundum átti hann með hestunum sínum. Ljósmyndun stundaði Bergsteinn af sannri fagmennsku og var viður- kenndur hirðljósmyndari okkar Groddanna. Hann tók meðal annars gamlar myndir og færði til betri veg- ar með því að bæta inn á þær Grodd- um sem ekki höfðu verið til staðar við myndatökuna, mönnum til ómældrar ánægju. Þótt Bergsteinn væri ekki trú- maður var hann sannfærður um að annað líf tæki við af þessu lífi. Við þökkum Bergsteini trausta vináttu og ótal góðar samverustund- ir, um leið og við sendum Mörtu, Giz- uri og fjölskyldum þeirra okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Að lokum kveðjum við Bergstein með orðum Ólafs Jóhanns Sigurðs- sonar: Hræddist ég fákur bleika brá, Er beizlislaus forðum gekkstu hjá. Hljóður spurði ég hófspor þín: Hvenær skildi hann vitja mín. Loks þegar hlíð fær hrím á kinn. Hneggjar þú á mig, fákur minn. Stíg ég á bak og brott ég held, Beint inn í sólarlagsins eld. Hilmar og Ragnhildur, Jóhann Már og Sigrún, Jón Birgir og Steinunn, Jónas og Kristín, Ólafur og Gerða, Sigfús og Svava. Stúdentahópurinn frá MR 1956 er farinn að grisjast. Við þykjumst þó enn í fullu fjöri og okkur bregður þegar fjölmiðlar segja okkur á átt- ræðisaldri. Bergsteinn bjóst við að lifa ein tuttugu ár enn, en enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Ég kynntist Bergsteini í unglingaskóla og við vorum bekkjarfélagar 4 ár í MR og síðan 3 ár í verkfræðideild HÍ. Við áttum oft samleið úr og í skóla og tengdumst vinarböndum sem héldu alla ævi. Bergsteinn var sterkur námsmaður og glöggur. Þeir eigin- leikar nýttust honum vel í fjölbreytt- um verkfræðistörfum og síðast sem brunamálastjóri. Hann var réttsýnn embættismaður en fastur fyrir ef honum þótti þörf á. Kannski verða það hins vegar tómstundastörf hans sem lengst halda nafni hans á lofti. Þar ber hæst merkilegar rannsóknir hans á skotbogum og hugmyndir um bogfimi á söguöld. Bergsteinn þekkti söguslóðir Njálu við Rangá betur flestum mönnum. Fjölskyldan átti bústað í landi Árgilsstaða í Hvol- hreppi og þar dvaldi Bergsteinn löngum við reiðmennsku og skóg- rækt. Þar bar lát hans að með óvænt- um hætti. Við bekkjarsystkinin söknum góðs vinar og vottum Mörtu, Gizuri, barnabörnum og fjölskyldu allri dýpstu samúð. Sveinbjörn Björnsson. Sérhver einstaklingur kynnist mörgum öðrum á lífsleiðinni. Af þeim eru flestir venjulegir, sumir að vísu lítt viðkunnanlegir, en aðrir ein- staklega vandaðir, heilsteyptir og heiðarlegir. Bergsteinn heitinn var í þeim síðasttalda hópi. Þannig ein- staklinga vill maður þekkja meðan ævi beggja endist til. Þegar Marta frænka mín kom og kynnti sinn til- vonandi eiginmann fyrir mér og konu minni, vissum við lítið annað en að hann væri verkfræðingur sem stundað hefði bæði flug og köfun. Það má segja að þetta hafi verið táknrænt fyrir Bergstein, það er að hafa víðfeðman áhuga á öllu mann- legu athæfi sem áhugavert getur tal- ist. Strax við fyrstu kynni féll okkur hjónum vel við hann og sama gilti fyrir aðra í fjölskyldunni. Þegar árin liðu kynntumst við fleiri góðum kost- um hans. Hann var hreinskilinn og hreinskiptinn í öllum sínum mann- legu samskiptum. Tvískinnung og hræsni átti hann erfitt með að þola. Staðfastur var hann í skoðunum en rökstuddi þær vel. Á meðan fjöl- skyldur okkar bjuggu um þónokkurt skeið sitt í hvoru landi og á uppvaxt- arárum barnanna hittumst við ekki oft, en seinni árin er börn voru flutt að heiman og minni starfserils gætti hjá báðum urðu samskipti okkar aft- ur tíðari. Leiddi þetta meðal annars af sér skemmtilegan spilaklúbb. Fór- um við hjónin í siglingar með Berg- steini og Mörtu ásamt góðum vinum þeirra sem við kynntumst. Á ferðum okkar erlendis reyndist Bergsteinn margfróður um lönd og lýði. Hann hafði og mikinn áhuga á og vissi mik- ið um miðaldasögu Evrópu. Jafn- framt ferðuðumst við saman víða hérlendis. Bergsteinn reyndist þá ekki síður fróður um eigið land og sögu þess. Enn ein ferðin var á döf- inni er hann féll svo skyndilega frá. Hér hef ég lítið minnst á faglegan feril Bergsteins, en aðrir munu áreiðanlega gera því efni góð skil. Í stuttu máli má segja að hann hafi verið góður verkfræðingur sem vann vel að sínum verkefnum. Hann vann í fyrstu fyrir varnarliðið á Keflavíkur- flugvelli og þarnæst hjá borgarverk- fræðingi Reykjavíkur. Að loknu framhaldsnámi við Kaliforníuháskól- ann í Berkley vann hann aftur um sinn hjá varnarliðinu en síðan hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Einnig vann hann hjá Hafnarmálastofnun og var síðan skipaður brunamála- stjóri ríkisins og sinnti því starfi þar til að starfsferli hans lauk. Því miður entist honum ekki aldur til njóta eft- irlaunaáranna lengi með sín mörgu áhugamál, en þeirra á meðal má einnig telja hestamennsku og skóg- rækt. Hann undi sér vel á Árgilsstöð- um þar sem hann sinnti hvoru tveggja af elju. Hann var atorkusam- ur í öllu er hann tók sér fyrir hendur. Með Bergsteini er genginn góður fé- lagi og drengur góður. Ég og fjölskylda mín vottum Mörtu og Gizuri og öðrum aðstand- endum innlega samúð okkar. Ágúst Valfells. Andlát Bergsteins Gizurarsonar kom á okkur eins og högg. Hann sem var svo hraustur og stæltur, með nú- tíðina fulla af verkefnum og framtíð- ina fulla af áformum. Kynnin af Bergsteini eru orðin löng. Þau teygja sig aftur til sumarsins 1961 er tvær íslenskar menntaskólastúlkur áttu leið um París og umhyggjusamur kennari á Íslandi hafði fengið ís- lenska Parísarstúdenta til að taka á móti okkur og lóðsa um heimsborg- ina. Bergsteinn var þarna í fríi og slóst í hópinn. Síðar átti hann oft eft- ir að rifja upp úttekt stúdentanna á þessum tveimur yngismeyjum, bæði varðandi útlit og gáfnafar. En eiginleg kynni urðu ekki fyrr en hann hitti Mörtu frænku mína og vinkonu og þau giftu sig sumarið 1966. Bergsteinn var um margt merkilegur maður. Á yfirborðinu gat hann verið hrjúfur og þrjóskur, en engum sem kynntist honum duldist að undir sló mjúkt og hlýtt hjarta skarpgreinds manns, sem breiddi sig út yfir þá sem á honum þurftu að halda. Það þekkja vinir hans, vensla- fólk og barnabörnin. Sambandið við barnabörnin var alveg einstakt. Hann var bæði afi og félagi og alltaf til þjónustu reiðubúinn. Þegar Gizur og Bylgja fóru í eins vetrar fram- haldsnám til London fór afinn út til nokkurra vikna dvalar til að passa nafna sinn meðan Þórunn María var í skólanum. Er Bergsteinn kom heim að þessum vikum loknum sagði hann með stolti og hlýjum brosglampa í augum: „Hún vill fá mig aftur.“ Tengdadóttirin vildi sem sagt fá tengdapabba, sem hún sagði reyndar besta afa í heimi, til áframhaldandi barnagæslu og það voru meðmæli sem afinn kunni að meta. Í Lund- únadvölinni óx naflastrengur á milli þeirra nafnanna. Eftir 40 ára meiri eða minni samfylgd er margs að minnast, en nærtækust er minning síðustu 15 ára, frá því spilaklúbbur- inn var stofnaður. Fimm frænkur og vinkonur, þar á meðal Marta, fóru að feta sig eftir bridsbrautinni. Fljót- lega fengu eiginmennirnir að koma með og bridskvöldin urðu öllum til- hlökkunarefni. Rúbertunum fór fækkandi en umræðurnar lengdust, því það þurfti að fara yfir stjórnmál- in, orkumálin, menningarmálin, segja ferðasögur og gera ferðaplön og auðvitað fengum við að fylgjast með stórmerkilegum rannsóknum Bergsteins á boganum góða. Myndin af Bergsteini með bogann spenntan á pallinum við sumarbústaðinn og trjáræktina allt um kring er mynd sem við munum varðveita í hugum okkar. Far vel, vinur. Samúð okkar er hjá fjölskyldunni. Þórdís Árnadóttir, Ingvar Birgir Friðleifsson. Ég kynntist Bergsteini fyrir um það bil 25 árum þegar Marta, kona hans, og Kirsten, kona mín sem lést fyrir mörgum árum, voru saman í námi í Háskóla Íslands. Fljótlega tókst mikil vinátta með fjölskyldun- um. Eitt helsta áhugamál Bergsteins voru fornfræði, uppruni Íslendinga og Íslendingasögur, einkum þó Njála. Sumarbústaður þeirra Mörtu stendur á bökkum Rangár, við hólinn þar sem talið er að frægt og afdrifa- ríkt hestaat Gunnars á Hlíðarenda og Starkaðarsona hafi farið fram. Við Rangá, þar sem svokallaður Knafahólabardagi Njálu á að hafa farið fram, fannst fyrir löngu bein- hólkur sem á voru skorin ýmis tákn. Mönnum var það lengi ráðgáta hvaða hlutverki hólkurinn hefði gegnt. Bergsteinn taldi víst að um væri að ræða hring til að hlífa þumalfingri þegar stór og stífur bogi er spenntur og að táknin væru mið. Bergsteinn lét smíða boga, eins og hann taldi Gunnar á Hlíðarenda hafa átt og eru enn notaðir víða um heim. Hann sýndi bogann og langdrægni hans, meðal annars á Njáluráðstefnu nýlega. Bergsteinn kunni Njálu utan að og Gunnar var hans hetja. Það var gam- an að fara með honum ríðandi upp með Rangá og hlusta á lýsingar hans á tengingu landslags og sögu. Bergsteinn lést í útreiðartúr við Rangá á fegursta degi sumarsins. Kannski hefur ein af síðustu hugs- unum hans, er hann hné til moldar, verið: Nú er ég á leið til fundar við Gunnar á Hlíðarenda. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt Bergstein að vini. Við Ragnhildur vottum Mörtu, Gizuri, Bylgju og börnunum okkar dýpstu samúð. Eggert Briem. Elsku afi, ég vona að þér líði vel uppi hjá Guði. Lífið sem ég fékk að lifa með þér var frábært og skemmtilegt. Takk fyrir að vera svona góður við mig, ömmu og fjöl- skylduna mína. Ég naut þess vel að vera með þér á hest- baki og alltaf þegar þú varst með mér. Þín, Þórunn. HINSTA KVEÐJA  Fleiri minningargreinar um Berg- stein Gizurarson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.