Morgunblaðið - 14.10.2008, Blaðsíða 6
6 ÞRIÐJUDAGUR 14. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ
Bankakreppa
FRÉTTASKÝRING
Eftir Magnús Halldórsson
magnush@mbl.is
„OKKUR vantar fólk á flesta
vinnustaði í bænum. Það vantar
hjúkrunarfræðing, æskulýðs- og
menningarfulltrúa og reyndar fólk
í flest störf í bænum til sjós og
lands,“ segir Björn Ingimarsson,
sveitarstjóri í Langanesbyggð.
Þórshöfn, sem tilheyrir Langa-
nesbyggð, er eitt þeirra bæj-
arfélaga þar sem erfiðlega hefur
gengið að manna vinnustaði á und-
anförnum árum. Straumur fólks
hefur legið til höfuðborgarsvæð-
isins frá landsbyggðinni þar sem
mikil eftirspurn hefur verið eftir
störfum á undanförnum árum. Al-
gjör kúvending hefur orðið á þeim
atvinnumarkaði á höfuðborg-
arsvæðinu samfara hremmingum
bankanna og veikingu krónunnar.
Ekki farið úr böndunum
Björn segist vonast til þess fólk
flytjist í Langanesbyggð á næstu
misserum til þess að sinna hinum
ýmsum störfum. Brýn þörf sé á
því. „Bankakreppan hefur vita-
skuld áhrif hér eins og annars stað-
ar, meðal annars vegna skerðingar
lífeyris. En áhrifin eru þó mildari.
Hér hefur ekki verið þensla eins og
við sveitarstjórnarmenn á lands-
byggðinni höfum margbent á. Það
eru ekki heldur eins skýr merki
kreppu hér í sveitarfélaginu og fyr-
irtæki og einstaklingar á höf-
uðborgarsvæðinu finna nú fyrir.
Þenslan kom aldrei hingað og
kreppan nær ekki sömu tökum á
okkar samfélagi og höfuðborg-
arsvæðið finnur nú fyrir illu heilli.“
Björn segir stöðu Þórshafnar að
mörgu leyti dæmigerða fyrir sveit-
arfélög á landsbyggðinni, þó vissu-
lega hafi hvert sveitarfélag sinn
háttinn á þegar kemur að rekstri
og samfélagsgerð. „Hér hefur ekki
verið mikið um skuldsetningu sem
farið hefur úr böndunum. Það hef-
ur ekki verið neitt svigrúm til þess
í rauninni. Það hefur verið tekið
gengisbundið lán vegna hafn-
arframkvæmda sem hefur hækkað
samfara veikingu krónunnar. Á
móti hafa tekjur hafnarinnar
hækkað þar sem aflaverðmæti hef-
ur orðið meira vegna veikingar
krónunnar, þannig að staðan er vel
viðráðanleg.“
Fánar til útflutnings
Karen Konráðsdóttir, eigandi
Fánasmiðjunnar á Þórshöfn, eins
stærsta fánaframleiðanda landsins,
segist ekki gera ráð fyrir að þurfa
fækka starfsfólki þrátt fyrir breytt
markaðsskilyrði. Fjögur til fimm
heilsársstörf muni halda sér. „Ég
finn augljóslega fyrir afleiðingum
þeirrar alvarlegu stöðu sem er
komin upp hér á landi. Bankarnir
voru til dæmis stórir viðskiptavinir
hjá mér auk fleiri fyrirtækja sem
eiga í erfiðleikum. En það myndast
bara önnur tækifæri þegar staðan
breytist snögglega. Ég er byrjuð
að selja fána úr landi, einkum til
Danmerkur, sem er hagstætt núna
og ætla að reyna fyrir mér á þeim
vettvangi áfram. Byrjunin lofar
góðu,“ segir Karen.
Halldór Halldórsson, formaður
Sambands íslenskra sveitarfélaga,
segir sjálfsbjargarviðleitni og
kjark sem íbúar á landsbyggðinni
hafa sýnt á síðustu árum geta
gegnt mikilvægu hlutverki á upp-
byggingartíma sem er framundan.
„Sveitarfélög á landsbyggðinni
hafa lengi verið í varnarleik vegna
ástandsins sem hér hefur ríkt.
Langanesbyggð er gott dæmi um
sveitarfélag sem hefur þurft að
leita allra leiða til þess að efla sínar
samfélagsstoðir. Sveitarfélögin á
landsbyggðinni hafa gengið í geng-
um erfiða tíma á meðan mikil upp-
sveifla var á höfuðborgarsvæðinu.
Þau munu gegna lykilhlutverki við
að byggja upp innviði samfélagsins
að nýju.“
„Hvorki þensla né kreppa hér“
Morgunblaðið/Hilma Steinarsdóttir
Í önnum Steinfríður Alfreðsdóttir og Hugrún Óskarsdóttir sjást hér að störfum í hraðfrystihúsi Þórshafnar í gær.
Hraðfrystihúsið er í eigu Ísfélags Vestmannaeyja og er stærsti vinnustaður Þórshafnar.
Fólk vantar til vinnu á Þórshöfn Bankarnir lánuðu ekki til íbúðakaupa á landsbyggðinni
Víðast hvar á landsbyggðinni
lánuðu bankarnir þrír, Glitnir,
Landsbankinn og Kaupþing,
ekki til húsnæðiskaupa. Hvorki
í krónum né erlendri mynt.
Íbúðalánasjóður sá alfarið um
að sinna landsbyggðinni að
því er varðar fjármögnun
vegna húsnæðiskaupa. „Það
má segja að íbúar okkar njóti
góðs af þessu núna, því nú
gætir óvissu á húsnæðismark-
aði og einnig varðandi lán
sem tekin voru í bönkum
vegna húsnæðiskaupa. Þá hef-
ur Sparisjóður Þórshafnar
þjónustað atvinnustarfsemina
hér með myndarlegum hætti.
Mér finnst ekki ólíklegt að
gildi sparisjóðanna verði upp-
gvötað að nýju, ef svo má að
orði komast, í því árferði sem
nú ríkir,“ segir Björn Ingimars-
son, sveitarstjóri í Langanes-
byggð.
Engin bankalán
Eftir Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
CURTIS Olafson, öldungadeild-
arþingmaður í Norður-Dakóta í
Bandaríkjunum og formaður Íslend-
ingafélagsins í Mountain og ná-
grenni, segir að íbúar af íslenskum
ættum í ríkinu og aðrir vinir Íslands
séu felmtri slegnir yfir ástandinu á
Íslandi og biðji fyrir landsmönnum.
Hins vegar treysti hann Íslend-
ingum sem einstaklingum til þess að
komast upp úr öldudalnum í ljósi
sögunnar.
„Þegar ég heyrði hvað ástandið
væri ískyggilegt varð mér fyrst
hugsað til vina og vandamanna á Ís-
landi, fólks sem ég hef bundist svo
sterkum böndum, hvernig því reiddi
af,“ segir Curtis Olafson. „En ég trúi
því og treysti að staðan batni fljót-
lega.“
Curtis segir að frjáls markaður
gegni áfram mikilvægu hlutverki.
Hann hafi mikla trú á honum sem og
seiglu fólks sem haldi vörð um frelsi
sitt og réttinn til þess að taka sjálft
ákvarðanir. Þráin eftir frelsi og trú á
sjálfan sig komi fólki upp úr öldu-
dalnum frekar en aðgerðir stjórn-
valda og peningastofnana. „Velmeg-
unin birtist á ný þegar fólk byrjar að
trúa á sig sjálft og framtíðina,“ segir
hann.
Mikil og góð samskipti
Íslenska samfélagið í Norður-
Dakóta á sér meira en 100 ára sögu.
Samskiptin við Ísland hafa aukist
jafnt og þétt undanfarinn rúman ára-
tug og tengja heimamenn byrjunina
gjarnan við heimsókn forseta Ís-
lands, Ólafs Ragnars Grímssonar, til
byggðarinnar 1999. Undanfarin ár
hafa Íslendingar til dæmis fjölmennt
á árlega Íslendingahátíð í Mountain
fyrstu helgina í ágúst. Á nýliðinni há-
tíð var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
utanríkisráðherra heiðursgestur og
Geir H. Haarde forsætisráðherra
var í sömu stöðu í fyrra.
Curtis segir að hugurinn sé hjá Ís-
lendingum á Íslandi. „Við höfum ver-
ið svo lánsöm að eiga margar
ánægjulegar stundir með Íslend-
ingum og það er sárt til þess að
hugsa að kreppan geti haft þau áhrif
að klippt verði á samskiptin. Árleg
sumarhátíð okkar er fyrst og fremst
fjölskylduhátíð og vinsældir hennar
undanfarin ár má ekki síst rekja til
Íslendinga sem hafa svo sannarlega
sett ánægjulegan svip á hana.
Heimamenn af íslenskum ættum
hafa fjölmennt til þess að hitta landa
sína, jafnvel í þeirri von að sjá ætt-
ingja, sem þeir hafa ekki haft vitn-
eskju um. Þegar hlekkur í keðjunni
brestur er umhverfið annað og við
finnum til með Íslendingum, en við
getum lítið annað gert en biðja fyrir
þeim og óska þeim alls hins besta.“
„ÉG og fjölskylda mín erum
strandaglópar á Indlandi án nokk-
urra valkosta,“
segir Bala Ka-
mallakharan sem
starfað hefur hjá
Glitni á Íslandi
undanfarið tvö og
hálft ár. Í byrjun
árs var hann beð-
inn um að fara
fyrir stofnun
Glitnis á Indlandi
og í ágúst flutti
hann ásamt ís-
lenskri eiginkonu sinni og dóttur
þeirra til Mumbaí. Bala fylgdist
grannt með gangi mála hér heima og
varð vitaskuld afar áhyggjufullur
þegar ríkið tók yfir 75% í Glitni fyrir
tveimur vikum.
Í kjölfarið hefur öllum áætlunum,
er varða Glitni í Indlandi, verið aflýst
en Bala hefur hinsvegar engin svör
fengið um hvað bíður hans næst.
Hann er kominn hingað til lands til
að fá að vita hvaða verkefni, ef ein-
hver, bíða hans en á meðan situr fjöl-
skyldan heima á Indlandi í algerri
óvissu.
Miklir fjármunir á Indlandi
„Ég kom til Íslands til að fá svör,
ég hef ekki hugmynd um hvað ég á
að gera. Skilanefndin hefur alveg
gleymt skrifstofum bankans erlend-
is, gleymt öllu fólkinu sem vinnur
fyrir Glitni utan Íslands,“ segir Bala.
„Ég hef engan pening fengið og það
er búið að loka fyrirtækja-
kreditkortinu mínu svo ég get ekki
greitt þau útgjöld sem mér var lofað
að ég fengi greidd.“
Bala segir þjóðnýtingu bankans
hafa komið sér á óvart og telur rík-
isstjórnina hafa gert mikil mistök.
Hann segist eiga rétt á sex mánaða
uppsagnarfresti en veit ekki hvort
staðið verður við þá samninga sem
gerðir hafa verið við hann. Hann
segist munu fara í mál við bankann
komi til þess. Það sé aðeins sann-
gjarnt að þeir tryggi að fjölskylda
hans komist heim þar sem hún er úti
að beiðni Glitnis.
„Glitnir og aðrir bankar eiga mikla
fjármuni í Indlandi en enginn hugsar
um það. Ég held það séu yfir 100
milljónir evra. Ég held það sé hægt
að finna kaupendur að fjárfestingun-
um á Indlandi en hvergi annars stað-
ar. Ríkisstjórnin hefur rangt fyrir
sér ef hún telur að hægt sé að selja
fjárfestingarnar frá Íslandi, sá sem
selur þarf að vera staðsettur á Ind-
landi.“
ylfa@mbl.is
Engin svör
að fá hjá Glitni
Glitnismaður strandaglópur á Indlandi
Í HNOTSKURN
»Bala og fjölskylda fluttu tilIndlands á vegum Glitnis
en hann hefur engin svör
fengið um framhaldið eftir að
Glitnir var þjóðnýttur.
»Fyrirtækjakortinu hansvar lokað og þurfti hann
sjálfur að borga ferð hingað til
lands til að krefjast svara.
Bala
Kamallakharan
Hugurinn hjá Íslendingum
Morgunblaðið/Steinþór
Samskipti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra heimsótti Curtis
Olafson og íslenska samfélagið í Norður-Dakóta síðla sl. sumars.
Curtis Olafson, öldungadeildarþingmaður í Norður-Da-
kóta, hefur trú á að seigla Íslendinga komi þeim á réttan kjöl