Náttúrufræðingurinn - 1983, Page 120
ræða, þykir okkur rétt að birta þessar
athuganir og hafa þannig þessar upp-
lýsingar tiltækar þeim, sem síðar
kynnu að fá áhuga á slíku efni.
Ekki mátti fara öllu síðar af stað til
þess að afla gagna um selafárið 1918.
Núlifandi heimildamenn, sem þekktu
selafárið 1918 af eigin raun eða af
umtali eru vandfundnir, vegna þess
hversu langt er um liðið, en 65 ár eru
nú liðin frá þessum atburðum.
Ritaðar heimildir um selafárið 1918
fundust í dagblöðum frá tímabilinu 25.
ágúst til 20. september 1918. Sumt af
því, sem birt var í blöðunum á þessum
tíma, er þó fremur skrifað í gamni en
alvöru. Einnig hefur verið fjallað um
selafárið í 3 greinum í Náttúrufræð-
ingnum (Guðmundur G. Bárðarson
1931; Björn Guðmundsson 1937; Ás-
geir Bjarnason 1939). Auk þess kom í
leitirnar óbirt grein eftir Njál Frið-
björnsson, dagsett 16. desember 1931,
um selafárið á Skjálfanda 1918, sem
send var ritstjóra Náttúrufræðingsins.
Skráðar heimildir, sem höfundar
vita um, geta þess einungis að selafár-
ið hafi herjað norðanlands, á svæðinu
frá Húnaflóa austur í Þingeyjarsýslur
og við norðanverðan Faxaflóa. Því var
haft samband við allmarga menn utan
áðurnefndra svæða og þeir inntir eftir
því hvort þeir þekktu af eigin raun eða
umtali til umrædds selafárs 1918. Var
með þessu móti unnt að rekja út-
breiðslu fársins til mun stærra svæðis
en ritaðar heimildir greina. Sömuleiðis
fengust hjá nokkrum aðilum greinar-
góðar lýsingar á sjúkdóminum og
hegðun hans.
Hér fer á eftir lýsing á útbreiðslu
selafársins 1918 eins og höfundum er
hún kunn samkvæmt skriflegum og
munnlegum heimildum. Á eftir út-
breiðslukaflanum verður fjallað um
einkenni sjúkdómsins og síðan rætt
um hugsanleg tengsl við spönsku veik-
ina 1918. Skrá er yfir heimildamenn og
heimildarit aftast í greininni.
ÚTBREIÐSLA SELAFÁRSINS
1918
Fyrstu heimildir um óeðlilegan
seladauða við Island árið 1918 eru frá
Hvallátrum í V-Barðastrandarsýslu. í
nánd við Látur drápust um 10 selir
síðari hluta vetrar og vorið 1918. Sum-
ir selanna skriðu upp á sjávarkamb og
drápust, aðrir fundust reknir dauðir á
fjörur. Síðast í maí var aflífaður lands-
elur skammt frá Látrum sem skriðið
hafði um 50 m upp fyrir sjávarkamb,
og var hann skinhoraður. Ekki voru
selirnir nýttir; voru þeir ekki taldir
hirðandi vegna uppdráttar. Einhverjir
selnna voru með skitu (Þórður Jóns-
son, munnl. uppl.).
Engar heimildir eru um seladauða í
ísafjarðarsýslum. Hugsanlegt er, að
upptök selafársins hér við land hafi
verið skammt frá Látrum, því að sela-
fárið geisaði við norðanverðan Breiða-
fjörð og við Húnaflóa sumarið 1918
eins og nú verður rakið.
Sumarið 1918 rak hræ af rosknum,
grindhoruðum landselum á fjörur á
Rauðasandi, Barðaströnd og eitthvað
inn í Breiðafjörð (Einar Bjarnason,
munnl. uppl.). Á Rauðasandi bar
nokkuð á því að lifandi en fárveikir
landselir í Bæjarósi eða í nánd við
ósinn, skriðu upp á land. Voru sumir
þeirra aflífaðir og var talið, að þeir
væru með lungnabólgu. Ekki er hægt
að segja, að landselurinn á Rauða-
sandi hafi drepist í stórum stíl, en
106