Náttúrufræðingurinn - 1955, Síða 17
ÞAR VAR BÆRINN . . .
125
ekki úr (7). Hann telur þó Eldborg vera stakan gíg (ein einzelner
Krater) (10), og á öðrum stað segir hann, að óvíst sé, að Eldborg og
Barnaborg standi á sömu sprungu: „idet mindste ere de neppe frem-
bragte samtidig, men danner hver for sig en individualiseret Yul-
kan“ (11).
Eins og áður er getið eru gígarnir í Eldborgarhrauni fimm, og er
Eldborg næst vestust. Neðan til er borgin orpin lausum, frauðkennd-
um hraunsteinum, en upp úr þeirri dyngju rísa svo borgarveggirnir,
einnig úr frauðkenndu, en heillegu hraungrjóti. Gígbrúnirnar allt
í kring eru næstum eggskarpar og hvergi skarð i. Að utan er hallinn
á veggjunum milli 50° og 60°, að innan er hallinn enn meiri, og
sums staðar eru veggirnir þar lóðréttir. Veggirnir eru úr 2—6 cm
þykkum hraunlögum, liggja þau hvert utan á öðru og rísa með sama
halla og borgarveggirnir. Aflangir, hárgrannir feldspatkrystallar
liggja i straumlögum eftir hraunflesjunum endilöngum. Sinn hvorum
megin við Eldborg, á áður nefndri stefnu, eru tveir gígar. Eru barm-
ar þeirra svo lagir, að ekki verður eftir þeim tekið fyrr en að er
komið. Sams konar berg virðist vera í börmum þeirra og í sjálfri
Eldborg. En austar eru svo tveir gíghólar úr gjalli og frauði, annar
þeirra, sá sem nær er borginni, er allstór, og er hann stundum
nefndur Litla-Eldborg, hinn er minni.
Mér virðist auðsætt, að hér sé um gossprungu að ræða og að
allir þessir gígar hafi myndazt samtímis. Að svo stöddu verður
ekki um það dæmt, hvort Barnaborg sé á sömu sprungunni, en mér
virðist líklegt, að svo sé. Hún liggur að minnsta kosti á sömu stefnu
og Eldborgargígar.
HrauniS
Þeir, sem um Eldborgarhraun hafa ritað eða hafa á það minnzt
í ritum sínum, virðast allir ganga að því vísu og sjálfsögðu, að aðeins
sé um eitt hraun að ræða, að gosið hafi einu sinni úr eldstöðinni,
sem hraunið er komið frá. Hvergi hefi ég orðið annars skilnings var.
Þegar horft er af Eldborg yfir hraunbreiðuna, stingur svartur, úfinn
bruni, sem teygir sig til norðurs, vesturs og suðurs frá borginni,
eftirminnilega í stúf við meginbreiðuna, slétta og víðast vel gróna.
Þeir Snorrastaðabræður, einkum Magnús Jónsson, áttu fyrstir tal
við mig um þennan bruna og þann reginmun, sem væri á gróðri
hans og hraunsins i kring. Á bak við það tal virtist mér liggja