Náttúrufræðingurinn - 1989, Page 14
IGALIKO-SANDSTEINNINN
Mynd þessi er tekin á siglingu út eftir Tunugdliarfik á milli Narssaq og Narss-
arssuaq á Grænlandi. Á norrænu máli heitir fjörðurinn Eiríksfjörður og er í
hinni fornu Eystribyggð. Við hann innanverðan norðanmegin var höfuðbólið
Brattahlíð, bær Eiríks rauða, sem nú kallast Qagssiarssuk. Handan við lágan og
mjóan ás sunnan fjarðarins í botni Einarsfjarðar stóð biskupssetrið Garðar. Þar
kallast nú Igaliko.
Á myndinni má sjá hallandi sandsteinslög, skorin af berggangi speglast í lygn-
um sjónum. Sandsteinn þessi kallast Igaliko-sandsteinninn. Hann er frá for-
kambríum, líklega um 1500 miljón ára gamall og þekur allmikil svæði á þessum
slóðum. Heildarþykkt hans er um 1500 m. Hann er gulleitur, bleikur, brúnn og
dumbrauður á lit, gjarnan með hvítum blettum. Að því er best er vitað inni-
heldur hann enga steingervinga. Svona sandsteinn þykir bera merki um að
loftslag á staðnum hafi verið þurrt og heitt þegar sandurinn myndaðist. Þar hafi
verið gróðurlaust og lítið um líf, ef til vill eyðimörk. Sandurinn hefur sest til í
miklum misgengjadal. Hann virðist að mestu leyti hafa verið foksandur en þó
virðist sumt af honum hafa sest í vatni. Ofan á sandsteininum er mikil hraun-
lagasyrpa og inn í þennan jarðlagastafla hefur troðist aragrúi ganga og allmörg
stærri innskot. Þau hafa flest frekar óvenjulega bergsamsetningu og innihalda
fjölmargar sjaldgæfar steindir.
Igaliko-sandsteinninn er góður byggingasteinn og var notaður í flest stærri
hús í hinni fornu víkingabyggð, meðal annars í kirkjuna að Görðum. Þar má sjá
hann í rústunum. Hann hefur einnig verið notaður í kirkjuna sem nú er í Igali-
ko. Ljósm. Páll Imsland.
Páll Imsland
Náttúrufræðingurinn 59 (1), bls. 8, 1989.
8