Samvinnan


Samvinnan - 01.06.1944, Blaðsíða 10

Samvinnan - 01.06.1944, Blaðsíða 10
SAMVINNAN 5. HEFTI með nokkurri rigningu. Um 30 þús. manns kom til Þingvalla þennan dag og fylkti sér um Lögberg. Var áhrifamikil sjón að sjá hinn mikla mannfjölda klæða hinn auða helgistað með lífi og litskrúði. Hátíðagestir og þingmenn tóku hinu óhagstæða veðri með mynd- arskap og festu. Engir kvörtuðu, engir voru ákærðir og engir létu bera á vonbrigðum yfir veðurlaginu. Hátíðir voru haldnar um land allt dagana 17. og 18. júní. Voru þær hvarvetna ótrúlega fjölsóttar og fóru hið bezta fram. Mátti segja, að einhugur Alþingis við afgreiðslu málsins, hin mikla kjörsókn og hin virðu- legu og þróttmiklu hátðahöld bæru vott um, að þjóð- in fagnaði frelsi og væri reiðubúin að verja það móti aðsteðjandi hættum. Sveinn Björnsson ríkisstjóri var kjörinn fyrsti for- seti íslendinga til eins árs. Fék hann tvo þriðju hluta greiddra atkvæða. Allur flokkur kommúnista skilaði auðum seðlum, og fimm menn aðrir. Var því tiltæki lítt fagnað bæði af hátíðagestum á Þingvelli og borg- urum um alt land. Var talið, að Alþingi hefði borið skylda til að veita einhverju forsetaefni kjörstuðning, en hlaupa ekki frá skyldum sínum, þar sem kjósendur hefðu staðið svo vel á verði í sjálfu skilnaðarmálinu. Það má segja, að við framkvæmd skilnaðarmálsins hafi gæfu íslands orðið allt að vopni, eins og sagt var í einni hátíðaræðunni. Tvær heimsstyrjaldir höfðu sýnt, að ísland og Danmörk skildu jafnan í verki, þeg- ar mest reyndi á. íslendingar urðu vorið 1940 að taka yfirstjórn allra íslenzkra mála í sínar hendur. Sú til- raun hafði gefizt vel. Óviðráðanlegar ástæður urðu þess valdandi, að mörg ár liðu þannig, að íslendingar og Danir gátu ekki rætt mál sín sameiginlega. Vegna styrj aldarinnar varð ísland um stundarsakir óvenju- lega vel stætt í fjárhagsmálefnum, og að því leyti ó- háð erlendum þjóðum. Styrjöldin var, að því er snerti bandamenn, háð til að bjarga frelsi þjóðanna. Mesta lýðveldi heimsins tók að sér hervernd íslands og sýndi hvarvetna í verki samúð með frelsisþrá íslendinga. Allar þessar ástæður voru notaðar eftir þvi sem efni stóðu til í skilnaðarbaráttu íslendinga. Viðurkenning Engilsaxa leiddi til þess, að aðrar þjóðir viðurkenndu þjóðveldismyndunina. Nokkrir Danir í Reykjavík sneru sér til konungs, og hétu á hann að miðla málum, eftir því sem í hans valdi stæði, milli þjóðanna. Töldu sig hafa fulla ræktarsemi við Danmörku, en þeim liði vel á íslandi, og þeir ætluðu hér að vera og vinna með ís- lendingum. Skömmu síðar sendi Kristján konungur Alþingi heillaskeyti, og var því tekið með miklum fögn uði af hátíðagestum. Kveðja konungs var raunveru- lega viðurkenning Dana á þjóðveldinu. Runnu þannig margar stoðir undir, að ísland varð fullfrjálst 17. júní 1944. Það var mikill sigur. Mikil gifta hefur fylgt þjóð- UNNUR BJARKLIND (HULDA): Sungið á Þingvöllurn Í7. júní 1944 undir lagi eftir Emil Thoroddsen Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dál og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsœl býli, Ijós og Ijóð, svo langt frá heimsins vígaslóð? Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð. Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð, en lifir sœl við ást og óð og auð, sem friðsœld gaf? Við heita brunna, hreinan blœ og hátign jökla, bláan sœ hún unir grandvör, farsœl, fróð og frjáls — við yzta haf. Ó, ísland, fagra œttarbyggð, um eilífð sé þín gœfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð. Hver dagur líti dáð á ný. Hver draumur rœtist verkum í, svo verði íslands ástkœr byggð ei öðrum þjóðum háð. Svo aldrei framar íslands byggð sé öðrum þjóðum háð. inni við síðustu átökin í skilnaðarbaráttunni. Þess má vænta, að þjóðin gæti vel þess fjöreggs, sem hún hefur nú endurheimt. 142

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.