Samvinnan - 01.08.1969, Side 37
— Af hverju ráku Kanarnir þá ekki? Þeir
eiga að passa okkur, það segir pabbi.
— Asni ertu, þeir voru ekki komnir þá.
Sko, fyrst voru Danirnir, svo þegar þeir
fóru, þá komu Kanarnir.
— Núú — áttu Danirnir þá að slást fyrir
okkur?
— Já — svo fór pabbi að tala um ein-
hverja vini mömmu, sem hefðu veinað al-
veg ógurlega yfir amríska sjónvarpinu.
— Hva, af hverju veinuðu þeir? Pannst
þeim það ekki sniðugt?
— Nei, þeir vildu ekki amríska sjónvarp-
ið, af því þeir voru kommar, og kommar eru
nefnilega á móti Könum.
— Pabbi segir það sé ekkert að marka
þessa kommínista ...
— Þeir heita kommúnistar ekki kommín-
istar — það segir pabbi líka — og hann
segir, að þeir hafi allir fengið sér sjónvarp
um leið og það íslenzka kom og látið stilla
það þannig, að hægt væri að horfa á það
amríska líka. Hann sagðist vera viss um,
að þeir gláptu alltaf á það amríska, þegar
þeir gætu. Og svo sagði hann eitthvað um
hugstjórn — nei hugsjónir, held ég — og
mamma var á svipinn eins og hún ætlaði
að fara að gráta. En hún gerði það nú ekki,
heldur fór að vaska upp. Og pabbi sagði
hún skyldi sko hætta að rífast í sér, hann
væri búinn að fá meira en . . .
— Aldrei rífast pabbi og mamma svona.
En pabbi er heldur aldrei heima. Hann er
alltaf að vinna á kvöldin, því hann er svo
blankur, hann er bara stundum heima á
sunnudögum og þá er hann alltaf svo
þreyttur, að hann liggur bara uppí sófa
og sefur — eða þá les Moggann og svo-
leiðis... en stundum er hann heima á
kvöldin, svo mamma geti skroppið út...
Nei, þau rífast sko aldrei svona. Veiztu það,
pabbi ætlar að kaupa Volvo núna bráðum.
Sjevrinn er alveg ónýtur, hann er líka svo
gamall, bremsurnar eru alltaf að bila, og
svo startar hann ekki nema bara stundum,
pabbi ætlar að selja hann og svo ætlar
hann að kaupa Volvo.
— En hvernig getur hann það, ef hann
er alltaf blankur?
— Iss, hann tekur bara lán eða eitt-
hvað... Hættu þau svo að rífast?
— Nei, þau voru svo agalega reið; alltaf
þegar þau eru svona reið, þá rífast þau og
rífast þangað til annað hvort pabbi fer út
eða mamma fer að gráta... Fyrst hélt ég
þau væru hætt og ætlaði að laumast út úr
eldhúsinu og inn í mitt herbergi, en þá —
þá...
— Þá hvað?
— Þá — þá sneri mamma sér við og leit
á pabba og — og —
— Og hvað?
— Hún var svo skrítin í framan...
— Hvernig?
— Manstu í sjónvarpinu, þegar hermað-
urinn skaut kallinn beint fyrir framan kell-
inguna hans?
— Já ...
— Mamma var í framan alveg eins og
kellingin — nema þetta var bara miklu
verra, af því hitt var bara í sjónvarpinu —
og svo sagði hún og hún var ekkert reið í
röddinni — en samt var hún reið — æ,
þetta var ...
— Nú, hvað sagði hún?
— Hún sagði: Úr því þig langar svona
mikið til að horfa á sjónvarpið, þá skaltu
fara til hennar vinkönu þinnar. Hún hefur
það.
— Hvað, ekki annað! Nú það er fínt,
maður; þá geturðu farið þangað með hon-
um.
— Þú skilur ekki neitt — þú sást ekki
framan í mömmu, þegar hún sagði þetta —
ég vil ekki fara með honum — aldrei. Og
pabbi varð líka svona skrítinn í framan og
fór eitthvað að tala um glerhús — og þá
gat ég ekki verið þarna inni lengur — mér
var alveg sama, hvað þau gerðu. Ég varð
að komast út — mér leið svo illa innaní
mér, að ég hélt ég mundi gubba...
— Fórstu að grenja?
— Auðvitað fór ég ekkert að grenja —
heldurðu ég sé eitthvert smábarn eða kell-
ing? — Svo þegar þau sáu mig, þá hættu
þau loksins — og fóru að tala um kærustu-
pörin, sem eru nýflutt á efri hæðina. Þau
eru alltaf að kyssast og svoleiðis. Og veiztu
hvað — hún er með svaka bumbu.
— Þá eignast hún krakka bráðum. Svona
var mamma líka áður en Systa kom. Systa
var nefnilega inní maganum á henni.
— En hvernig komst hún út?
— Ég held hún hafi komið útum naflann.
—- En naflinn á manni er svo lítill.
— Já, en einhvern veginn kemst maður
út. Ég spurði pabba um daginn, en þá fór
hann eitthvað að tala um flugur og blóm
og svoleiðis, sem ég skildi ekkert í. Full-
orðið fólk getur aldrei svarað manni al-
mennilega, þegar maður spyr það. — En
ég vildi fá að vita þetta, svo ég spurði hann
bara hreint út, hvernig ég hefði komizt inní
magann á henni mömmu og svo út aftur.
— Og hvað sagði hann?
— Æ, hann fór eitthvað að tala um, að
þegar fólk elskaði hvort annað, giftist það
og eignaðist krakka saman ...
— Já, en hvernig?
— Nú, ég spurði hann að því líka, og þá
sagði hann: Æ, ljósmóðirin kom með þig í
töskunni sinni. — Eins og maður viti ekki,
að það er bara lygi. Ef maður er inní mag-
anum á einhverjum, þá getur ekki einhver
kelling komið með mann í tösku. — Svo
gáði ég líka í töskuna hjá kellingunni, þeg-
ar Systa kom, og Systa var sko ekkert í
henni.
— En spurðirðu ekki, hvort hún hefði
komið útum naflann?
— Jú...
— Og hvað sagði hann?
— Hann bara skellihló! Og svo spurði
ég hann, hvort hann elskaði þá mömmu,
og þá varð hann vondur og sagði mér að
hætta þessum eilífu spurningum og koma
mér út að leika mér eða horfa á sjónvarpið
eða eitthvað, hann væri að vinna og mætti
ekki vera að þessu. — Alltaf þegar full-
orðið fólk vill ekki tala við mann, þá á
maður að fara út að leika sér eða eitthvað.
— Ætlar þú að gifta þig, þegar þú verð-
ur stór?
— Ja, ég veit það nú ekki. Hún Solla í
mínum bekk — þú veizt þessi með flétt-
urnar — hún vill endilega giftast mér. En
ég veit ekki hvort ég vil það.
— Ég ætla aldrei að gifta mig. Hann Óli
sagði mér nefnilega, að ef þú ætlar að
giftast einhverri stelpu, þá verðurðu að
sofa í sama rúmi og hún, og meira að segja
allsber!
— Allsber?
— Já, og ég ætla sko ekki að sofa allsber
hjá einhverri stelpu; hún gæti séð á manni
tippið og allt.
— Af hverju má maður ekki vera í nátt-
fötum?
— Af því bara, maður verður að vera
ber. Svoleiðis gera allir.
— Iss, þetta er bara lygi. — Óli veit ekk-
ert um þetta. Pabbi minn er giftur mömmu
og hann sefur sko alltaf í náttfötum — allt-
af hreint, ég hef séð það sjálfur!
— Það er alveg sama, það gera þetta
allir. Og svo gerirðu eitthvað við stelpuna
og þá verða börnin til. Óli vissi bara ekki
hvað... ég hélt hann væri bara að ljúga,
af því hann er svo mikill lygalaupur, svo
ég spurði pabba, hvort þetta væri satt. Og
veiztu hvað hann sagði?
— Nei, hvað?
— Hann sagði að Óli væri götustrákur og
ég mætti ekki vera með honum ...
— Já, en Óli er enginn götu ...
— Nei, og þessvegna veit ég að þetta
er satt.
— Mér er alveg sama, ég trúi þessu ekki.
Heldurðu Solla vilji einhverja svoleiðis vit-
leysu, ef við giftum okkur? Hún mundi
berja mig í klessu.
— Þið verðið, ef þið giftist.
— Heldurðu við verðum það eitthvað?
Þetta er frjálst land, segir pabbi.
— Ég ætla að minnsta kosti aldrei að
gifta mig. Svo eru stelpur svo frekar...
— Það er náttúrlega voða mikið vesen.
Maður verður að kaupa sér íbúð og bíl og
allt svoleiðis og þá á maður aldrei pening.
Pabbi segist alveg vera að kafna í reikn-
ingum, síðan hann fór út í þetta — en
hann ætlar nú samt að reyna að kaupa
Volvo bráðum — þeir eru langbeztir. —
Nei, það er kannski bezt að gifta sig ekk-
ert — stelpur eru leiðinlegar — þó Solla
sé svosem ágæt...
— Pabbi segir, að enginn maður með
fullu viti gifti sig — en hann vissi nú ekki
að ég heyrði í honum —
— En hann giftist nú samt mömmu
þinni...
— Það er allt annað — ég ætla bara
aldrei að gifta ...
— Kannski er það þessvegna, sem þau
eru alltaf að rífast...
— Þau eru ekkert alltaf að rífast, bara
stundum ... og pabbi segir, ef mamma vildi
rétta sér litlaputtann... æ, ég man það
ekki — fullorðið fólk er vitlaust, það er
ekki hægt að skilja það. Nei, ég held ég
vilji ekki einu sinni verða fullorðinn. Full-
orðið fólk er alltaf að rífast og skammast.
— En það verða allir fullorðnir. Pabbi
var einu sinni fyrir langalöngu lítill strák-
ur — ég hef séð mynd af honum — hann
var meira að segja miklu minni en ég —
og nú er hann fullorðinn.
— Mér er alveg sama hvað aðrir gera,
ég ætla bara ekki verða það!
— En hvernig ætlarðu að fara að því?
— Það veit ég ekki, ég ætla það bara
ekki! — Heyrðu annars, Halli, ef þú færð
að vera Víetkong og ég verð Kanarnir,
viltu þá koma í dátaleik?
29.8 1968.
37