Samvinnan - 01.06.1971, Blaðsíða 33
Sigurþór Aðalsteinsson og
Sturla Sighvatsson:
JÓGA-
innhverf
íhugun
„Eigi gullöld mannlegs samlífs eftir að
renna upp, ef friður og samhygð eiga að
ríkja á jörðinni, þá munu vísindin um
sjálfið og listin að lifa varða veginn
þangað.
Nýtt mannkyn mun fæðast með fyllra
og breiðara lífsviðhorf, gætt sterkari
meðvitund og ríkari hæfileikum á öllum
sviðum. Lífsgleði verður hverjum gefin,
kærleikur drottnar meðal manna, sann-
leikur og göfgi stjórna heiminum, friður
á jörð verður stöðugur og mannkyn mun
lifa fullkomnu lífi.“ (C. F. Lutes í formála
að bókinni The Science of Being and Art
of Living eftir Maharishi Mahesh Yogi).
Löngum var sú skoðun almenn, að jóga
og austurlenzk speki yfirleitt væri lokað-
ur heimur skeggjaðra munka og rykfall-
inna einsetumanna á Indlandi og í Kína,
fullur af dulrænu og óskiljanlegum
galdraformúlum. Speki þessa gætu engir
skilið, hvaðþá notið, utan fáir útvaldir, og
allra sízt starfsamt nútimafólk á Vestur-
löndum, sem vill njóta lífsins og skilja
náttúruna á vísindalegan hátt.
Enda engin þörf á því.
Glæst tækniafrek og efnaleg velsæld
síðari tíma virtust renna stoðum undir
þessa skoðun.
Streitan, fylgifiskur hins hraða og
hávaðasama nútímalífs, kreppa og tvær
heimsstyrjaldir ásamt öðrum ófriði háð-
um með stöðugt fullkomnari og eyðingar-
máttugri vopnum, hafa aukið efann um
óbrigðul gæði tæknivæðingar. Menn hafa
smám saman gert sér ljóst, að eitthvað
hefur gleymzt í ferðinni til tunglsins, að
á einu sviði hefur ekki verið skeytt sem
skyldi um auknar framfarir: á sviði and-
legs þroska. Allsnægtirnar hafa ekki fært
fólki frið og hamingju eins og til stóð,
heldur sundurþykki og öryggisleysi.
Allar hefðir og venjur, trúarskoðanir og
pólitísk kerfi eru sett undir smásjá. Ekk-
ert er lengur sjálfsagt. Á slíkum timum
er eðlilegt, að hugurinn leiti athvarfs við
efni, sem mölur og ryð fá ei grandað;
leiti skjóls i eigin fylgsnum.
Maharshi Mahesh Yogi.
í leitinni að sannleikanum ber í si-
auknum mæli á áhrifum indverskrar
heimspeki, og margskonar tegundir jóga
hafa náð nokkurri útbreiðslu.
Fyrir fáeinum árum beindist athygli
heimsins að ferð brezku Bítlanna til Ind-
lands, sem þeir fóru til að nema jóga af
indverska meistaranum Maharishi.
Það var tæpast nein tilviljun, að Bitl-
arnir skyldu leita til einmitt þessa meist-
ara, því að kenningar hans og sköðanir
hafa með sínu sérstæða sniði og umburð-
arlyndi gagnvart lifsviðhorfum Vestur-
landabúa náð hvað mestum vinsældum
og hraðastri útbreiðslu allra skyldra
kenninga síðustu áratugi.
í borginni Madras á Indlandi stofnaði
Maharishi Mahesh Yogi árið 1958 sína
andlegu endurnýjunarstefnu (Spiritual
Regeneration Movement, SRM).
Markmið hans með stofnun þessari var
að koma til móts við þörf og vaknandi
áhuga fólks fyrir andlegum verðmætum.
Fyrsta akademian fyrir innhverfa íhug-
un (Transcendental Meditation) var
stofnuð skömmu síðar í borginni Rishi-
kesh við rætur Himalajafjalla. Þar
menntar meistarinn kennaraefni viðsveg-
ar að, sem síðan miðla kerfi hans um
allan heim.
Innhverf íhugun er einföld tækni til
að auka og dýpka hið meðvitaða vits-
munalif. Hún veitir manninum aðgang
að þeim slóðum hugans, sem annars eru
vitundinni huldar.
Tækni þessi er fólgin í því, að viðkom-
andi hefur yfir í hljóði orð (mantrum,
mantra) eða hljóðlíkingu, sem valin hef-
ur verið sérstaklega fyrir hann. Æfing-
arnar fara fram daglega kvölds og
morgna 20 mínútur í senn.
Mikilvægt er, að við iðkun innhverfrar
ihugunar sé notuð rétt hljóðlíking, sem
einungis verður lærð undir handleiðslu
ábyrgs kennara (initiator). Við íhugun-
ina, sem framkvæmd er með lokuð augu
i þægilegum stól, er ákjósanlegt að iðk-
andinn hafi gott næði. Innhverf ihugun
er ákaflega einföld iðja, sem engu að
síður er mjög erfitt að gera grein fyrir til
hlitar, þar eð fullur skilningur getur ekki
fengizt án eigin reynslu.
Reynt hefur verið að lýsa fyrstu æfing-
unni á eftirfarandi hátt (i tímaritinu
Twen nr. 3, 1968): „íhugunin var í þvi
fólgin, að ég hafði yfir þetta orð eða
mantra og með lokuðum augum gaf ég
mig á vald síbreytilegu hljóðfalli þess,
styrk og hljómbrigðum. Jafnskjótt og
hugsanir mínar hurfu frá mantranu sá
ég fyrir mér myndir .... myndirnar liðu
h á eins og ég væ~i á ferð i heimi skýrra
minninga. Hugsanaslitur, hugsanatengsl
— þar til mantrað kom aftur i huga
minn, og hrynjandi þess hreif mig með
só: á ný.“
í þessum reglulega endurteknu ferðum
hugans i undiidjúpin er einmitt fólginn
tilgangur innhverfrar ihugunar. Hugur-
inn kynnist smám saman sínum innstu
og fingerðustu sviðum, þar sem eru upp-
sprettur sannrar gleði. Maðurinn öðlast
meðvitund um eigið sjálf.
Rannsóknir og ýmiskonar athuganir
hafa leitt í ljós, að meðan á íhuguninni
stendur, kemst líkaminn í nýtt, áður
óþekkt ástand, sem lýsir sér í mjög djúpri
hvíld og ró, enda þótt fullri vöku sé hald-
ið; við það fyllist líkaminn orku á
skömmum tima.
Áhugaverðari eru þó hin jákvæðu áhrif
á sálarlífið. Hæfileikinn til einbeitingar
eykst, minni batnar, hugarflug eflist, all-
ar andlegar og sérstaklega skapandi at-
hafnir verða auðveldari, þar sem leyndar
skynjanir losna úr viðjum.
Fyrir þann sem byrjar að iðka inn-
hverfa íhugun, fer heimurinn að fá á sig
skýrari mynd. Margur maðurinn, sem
áður var kominn í þrot og sá enga leið
út úr ógöngum sínum, tók að athuga
hlutina í nýju ljósi og fann brátt sann-
leikann í þeim orðum, að það eru ekki
aðstæðurnar, heldur viðhorf manna við
þeim sem áhyggjum valda. Við íhugun-
ina fá menn aðgang að áður ónotuðum
orkustöðvum í eigin sjálfi og eru þannig
færari en fyrr um að leysa aðsteðjandi
vandamál. Maðurinn verður rólegri og
sýnir meira jafnvægi en áður gagnvart
umhverfi sínu. Þar með er hann hæfari
til að umgangast aðra. Allar athafnir
hans bera ríkulegri ávöxt, honum sjálfum
og meðbræðrum hans til velfarnaðar.
Innhverfri íhugun hefur hvarvetna í
heiminum verið tekið tveim höndum, og
er það skiljanlegt þegar litið er á aug-
ljósa kosti hennar, sem sérhverjum
manni er í lófa lagið að sannreyna.
Sérstakar vinsældir hefur íhugunin
hlotið meðal námsmanna í Bandarikjun-
um, þar sem útbreiðslan hefur orðið hvað
örust; hafa þegar verið settar á laggirnar
deildir fyrir innhverfa íhugun við fjöl-
marga háskóla. í Þýzkalandi hafa við-
tökurnar ekki verið síðri og fyrsta aka-
demían (Akademie fiir Persönlichkeits-
entfaltung í Bremen) er þegar búin að
starfa í nokkur ár.
Varla verður þess heldur langt að bíða,
að íslenzk ungmenni taki að færa sér í
nyt alla þá kosti sem þessi einfalda tækni
hefur uppá að bjóða. +
33