Andvari - 01.10.1967, Blaðsíða 6
108
JÓHANN HAFSTEIN
ANDVARI
Það verður ekki annað séð en óvenju bjart hafi verið yfir æsku- og upp-
vaxtarárum Thors Thors. Það er sammæli þeirra, sem þekktu hann, og þeirra,
sem voru honum jafnaldra eða um það bil, að hann hafi verið bráðþroska ung-
lingur, fallegur og tápmikill, gáfur og atorka valizt honum til föruneytis. Þó að
faðir hans hefði þurft að reyna ýmislegt misjafnt, voru hagir hans með miklum
blóma, þegar Thor er að komast á legg. Hann mun hafa verið fimm ára garnall,
þegar fjölskyldan flutti í hið stórfagra hús, Fríkirkjuveg 11 í Reykjavík, sem
faðir hans byggði af sinni miklu rausn og myndarskap, og setur það hús ennþá
svip á borgina, og hvað mundi þá hafa verið árið 1908? Drengurinn er í sveit
á sumrum, eins og svo mörg kaupstaðabörn þessa lands, á Borg á Mýrum, þar
sem áður bjuggu Skallagrímur og Egill, en eins og kunnugt er, rak faðir hans
um tíma umfangsmikil verzlunarstörf í Borgarnesi, en hann var ætíð mikill
unnandi Islendingasagna og hefir því eflaust ekki þótt í kot vísað á hinum forna
sögustað.
Tólf ára gamall innritaðist Thor í Menntaskólann í Reykjavík. Honurn
var létt um nám og var efstur í sínum bekk, 4. og 5. bekk og á stúdentsprófi.
Hafa bekkjarbræður hans tjáð svo, að enda þótt Thor háfi verið gæddur mörg-
um eðliskostum umfram flesta, hafi hann þó ekki átt öfundarmenn í bekknum.
Að stúdentsprófi loknu innritaðist Thor i lagadeild Háskóla Islands og lýkur
þar námi á 3>/2 ári, en þó með mun hærri einkunn en nokkur annar hafði hlotið
til þess tíma. Það er oft svo, að þeir sem hljóta hinar háu einkunnir í skóla,
koma síður við sögu á öðrum sviðum skólalífsins. En þessu var ekki þannig
varið um Thor. Hann var jalnan hrókur alls fagnaðar í félagslífi í skóla. Hann
var forseti Framtíðarinnar, hins gamalfræga málfundafélags Menntaskólans. Á
öðru námsári við Háskólann var hann kjörinn formaður stúdentaráðs. Hann
var fulltrúi á norrænu stúdentamóti, sem haldið var í Oslo 1925 og framsögu-
rnaður íslendinga þar. Hann var formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1928—
1930. Hann var einnig formaður íslendinga á norrænu stúdentamóti, sem haldið
var samtímis Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930, og var á orði haft, að sú
forysta hefði verið honum til sóma. Að háskólanámi loknu stundaði Thor frarn-
haldsnám í hagfræði í Cambridge og París 1926 og 1927 og dvaldi síðar um
skeið á Spáni og Portúgal í sambandi við fisksölumál Kveldúlfs h.f. Þegar litið
er á námsferil Thors, verður ekki annað sagt en að hann hafi verið vel undir
lífsstarf búinn, enda tekur nú við fjölþætt æviskeið manns, sem velst til manna-
forráða og virðinga og hinna ábyrgðarmestu starfa í þágu þjóðar sinnar.