Andvari - 01.10.1967, Blaðsíða 57
SELMA JÓNSDÓTTIR:
Enskt saltarabrot á íslandi
I Landsbókasafni íslands er hluti af
blaði úr latnesku handriti, sem sýnilega
hefur verið mjög glæsileg bók. Blað þetta,
sem er nr. I.B. 363 8vo í skrá Hins ís-
lenzka bókmenntafélags, kom til félags-
ins 10. október 1862 og var gjöf frá Ebe-
nezer K. Magnússen á Skarði á Skarðs-
strönd í Dalasýslu.
Skinnbókarblaðið er 20,7 X 16,5 cm.,
og eru á því Davíðs sálmar XXXVII, 14
- XXXVIII, 6. Efst í vinstra horni á verso-
hlið blaðsins er sögumyndastafurinn D,
við upphaf XXXVIII. sálms, sem byrjar:
Dixi custodiam. Myndin í stafnum sýnir
tilbeiðslu vitringanna (1. mynd). María
mey situr fremst til hægri í myndinni á
baklausum stól. Hún er klædd í fagur-
bláa skikkju yfir rósbleikum kyrtli og
heldur á Jesúbarninu í skauti sér. Jesú-
barnið er í ryðrauðum kyrtli og réttir
hægri hönd í áttina til konungsins, sem
krýpur og réttir fram gjafir og heldur á
kórónunni á vinstri armi. Konungurinn
er í bláum kyrtli og rósbleikri skikkju.
Hinir konungarnir tveir standa á bak við.
Sá, sem stendur nær Maríu, er í hágræn-
um kyrtli, en hinn, sem er fjær, er í
grænum kyrtli og blárri skikkju. Bak-
grunnurinn er allur úr skíra gulli, sem
umlykur fólkið í myndinni og gefur því
dularfullan og ójarðneskan blæ. Sögu-
myndastafurinn, eða D-ið, er settur á köfl-
ottan grunn, brúnleitan að lit eða rauð-
bleik-brúnan, og er gullrammi utan um
grunninn. D-ið sjálft er blátt og rauð-
bleikt að lit. Það er dregið sem hringur,
en leggur þess vinstra megin myndast af
boglínu hringsins og vafningi með laufi
innan í til beggja enda.
Umgerð er um lesmálið á blaðsíðunni,
a. m. k. hluta þess. Ramminn byrjar
vinstra megin, rétt ofan við miðja síðu,
á krók, sem snýr út á spássíuna. Á krókn-
um stendur maður i rauðbrúnum kjól og
blæs í lúður. Síðan er ramminn dreginn
inn og liggur þétt upp að sögumyndastafn-
um, þannig að laufblöð D-sins liggja yfir
hluta rammans. Listi rannnans að ofan er
allur úr skíra gulli, en á honum er mynd
af veiðiför, þ. e. bogmanni, yzt til vinstri,
með spenntan boga, en elgur og héri,
eltir af tveimur hundum, eru á harða
hlaupum beint á móti honum. Bogmað-
urinn er í sinnepsgulum kjól, elgur og
héri grábrúnir að lit, en hundarnir hvítir
með svörtum dílum.
I-ið, næsti stafurinn í orðinu Dixi, er
svart, en báðum megin og áfastar við legg
stafsins eru brúnar grímur. Letrið á blað-
inu er brotið upp af láréttum hyrningum,
línufyllingum, fagurbláum og hárauð-
um. A verso-síðu blaðsins sést nú aðeins
mannshöfuð, sem teygir sig inn í síðuna.
Á recto-síðu blaðsins eru 6 línufyllingar
í þeim 14 línum, sem varðveitzt hafa (2.
mynd). Þar eru bæði manna- og dýra-
höfuð, sem ávallt enda í blaðaskrauti.
I bláu hyrningunum eru dýrin dregin
með svartri línu, en litur bókfellsins gef-
ur dýrinu lit. I rauðu línufyllingunum er