Andvari - 01.01.1991, Page 24
22
HALLDÓR ÞORMAR
ANDVARI
ásamt starfsliði sínu. Ekki verður betur séð en að samskipti þeirra
Björns og Guðmundar hafi verið með ágætum og að á milli þeirra hafi
ríkt gagnkvæmt traust. í minningargrein um Björn eftir Guðmund
Gíslason segir m.a.:
Við vorum kunningjar á skólaárum og síðar starfsfélagar nokkurn vegiiin óslit-
ið á þriðja áratug. Þennan tíma störfuðum við að mjög miklu leyti að sameigin-
legum áhugamálum, áttum við sameiginlegaörðugleikaað etjaogstefndum að
svipuðu marki.
VI. Garnaveikirannsóknir
Garnaveiki (paratuberculosis) var einn af þeim sauðfjársjúkdómum
sem bárust hingað til lands með innfluttu karakúlfé árið 1933, en hún
er landlæg víða í Evrópu. Sjúkdómurinn lýsir sér sem sérkennileg
langvinn bólga í garnaslímhúð sem leiðir til alvarlegra skemmda og oft
til dauða. Sýkillinn er sýruföst stafbaktería, skyld berklasýklinum.
Garnaveikin greindist fyrst árið 1938 á Austurlandi, í Árnessýslu og í
Skagafirði, alls á fimm bæjum þar sem karakúlhrútum hafði verið
komið fyrir.
Á næstu árum breiddist sýkingin út jafnt og þétt og hafði árið 1943
náð talsverðri útbreiðslu, einkum á Austurlandi þar sem afkoma
bænda byggðist mest á sauðfjárbúskap. Reynt var að fylgjast með út-
breiðslu veikinnar með húðprófi, hliðstæðu því sem er notað við
berklapróf, og leitast var við að hindra útbreiðsluna með girðingum til
þess að hefta samgang sauðfjár og með niðurskurði fjár á sýktum
svæðum. Þótt með þessu tækist að draga úr útbreiðsluhraða lánaðist
ekki að komast fyrir sýkinguna né draga verulega úr skaða af völdum
hennar. Hefur verið áætlað að á tímabilinu frá 1938 til 1953 hafi a.m.k.
75 þúsund fjár drepist af völdum garnaveiki hér á landi og fór dánartal-
an vaxandi. Hér var því um mikinn vágest að ræða og leit út fyrir að
veikin myndi leggja sauðfjárbúskap á stórum hluta Austur- og Norð-
urlands í auðn.
Þegar Björn Sigurðsson kom heim frá Bandaríkjunum sumarið 1943
hóf hann, eins og áður sagði, störf við Rannsóknastofu Háskólans og
hófst nú handa við rannsóknir á garnaveiki. Lá þá fyrst fyrir að hanna
nýtt próf til að greina veikina, en húðprófið var að mörgu leyti gallað