Andvari - 01.01.1991, Blaðsíða 59
ANDVARI
JÓRVÍKURFÖR í EGILS SÖGU
57
aftur til hins gamla heims þar sem frjálsir bændahöfðingjar réðu málum sín-
um og þurftu ekki að beygja sig fyrir konunglegu valdi. Vildi hann jafnvel
styrkja eigin sjálfsvirðingu og annarra landa sinna sem höfðu fengið glýju í
augun af hirðlífinu? Snorri hafði ásamt sínum metnaðargjörnu eldri bræðr-
um, Pórði og Sighvati, risið upp í stétt hinna nýju íslensku stórhöfðingja sem
voru á leiðinni að verða aðalsmenn og lénsmenn Noregskonungs. Bæði
Snorri sjálfur og bróðursynir hans voru hirðmenn. Um hríð virtist enginn
líklegri til að verða æðstur aðalsmaður á íslandi en Snorri með náin tengsl
við helstu valdamenn í Noregi að bakhjarli auk uppvaxtar í Odda, þar sem
menning og völd voru sameinuð á dögum fóstra hans Jóns Loptssonar. En
eftir Örlygsstaðabardaga, og jafnvel löngu fyrr, er líklegt að Snorri hafi spurt
sjálfan sig hvort ætt hans væri ekki í raun og veru að slíta upp eigin rætur í
jarðvegi hins forna bændasamfélags og hefði lagt inn á braut sem leiddi til
glötunar. Örlög glæsimennisins Sturlu Sighvatssonar eiga sér hliðstæðu í ör-
lögum Pórólfs Kveldúlfssonar. Erfiðara er að benda á beina hliðstæðu Egils
Skallagrímssonar í samtíma Snorra, en hin ytri einkenni hafa vafalaust verið
til, og svipuðu skaplyndi og viðhorfum hefur hann kynnst hjá mönnum eins
og Agli Halldórssyni, sem þótti lítið gæfuspor hjá Snorra að fara frá Borg.
I arfsögnum sem Snorri þekkti af forfeðrum sínum gnæfði skáldið Egill
Skallagrímsson yfir aðra. Skáldskapur hans var fyrirtaksheimild og örvun
þegar draga átti upp mynd af sannri bændahetju. En mynd Egils í sögunni er
einstætt Iistaverk og hefði ekki getað verið fullmótuð í munnlegri geymd.
Hún ber merki ritsnillings sem hafði lært af goðsögunum, sem hann hafði
sjálfur fært í ritmálsbúning í Eddu, að hægt var að fjalla um hin mikilvægustu
mál af kímni.15
Jórvíkurför Egils er ris í sögu hans. Egill stendur þar andspænis mikilhæf-
um og lífshættulegum andstæðingi, og allar ástæðurnar sem hann hafði.til að
forðast fund þessa konungs efla þá tilfinningu að ekkert hafi getað brotið eða
beygt vilja þessa sterka búandkarls, sem sannarlega var jafnoki konunga
þótt hann væri allt annarrar gerðar og hefði allt önnur markmið en þeir í lífi
sínu.