Andvari - 01.01.1991, Page 112
110
HELGl SKÚl.I KJARTANSSON
ANDVARI
málunum, t.d. sameiginlega ríkisborgararéttinum en ekki jafnrétti þegn-
anna, og ekki meðferð Dana á utanríkis- og hermálum.) Konungssamband-
ið var að vísu ekki samningsatriði samkvæmt Sambandslögunum og ekki
heldur formlega uppsegjanlegt, en ljóst var að við einhliða uppsögn samn-
ingsins myndi það rofna líka. Til þess að ísland gæti sagt upp samningnum
þurfti að bíða til ársloka 1940, Alþingi síðan að krefjast endurskoðunar, og
þrjú ár að líða án þess að nýr samningur tækist. Þá - í fyrsta lagi 1944 - mætti
samþykkja uppsögn með 2h atkvæða í sameinuðu þingi og 3/-t atkvæða í þjóð-
aratkvæðagreiðslu þar sem þátttaka næmi einnig 3/4. (Samkvæmt Uppkast-
inu hefði uppsögn tekið minnst 37 ár, en ekki verið háð auknum meirihluta
eða þjóðaratkvæðagreiðslu.) íslendingum þóttu skilyrði uppsagnar of
ströng í Sambandslögunum, en unnu þó til samkomulags að ganga að þeim.
Þeim var mest í mun að geta sagt upp jafnréttisákvæðunum eftir ekki mjög
langan tíma. Hættan var að vísu sú, ef Danir notuðu sér jafnréttið í mjög
stórum stíl, að þeir yrðu svo fjölmennur kjósendahópur á íslandi að torvelt
yrði að ná tilskilinni þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Þetta minnir á stöðu
rússneska þjóðarbrotsins í vissum sovétlýðveldum þar sem þjóðaratkvæða-
greiðsla hefur farið fram um sjálfstæðiskröfur heimaþjóðarinnar.)
Danir hefðu sjálfir kosið að sleppa öllum uppsagnarákvæðum, láta í stað-
inn duga óskráðan rétt hvorrar þjóðar til að slíta sambandinu ef í harðbakk-
ann slægi.40 Þeir tóku líkingu af hjónabandi sem ekki er stofnað til með nein-
um uppsagnarákvæðum þótt ljóst sé að það geti endað með skilnaði.
(Danskur andstæðingur sambandslaganna notaði sömu líkingu og taldi þau
fela í sér 25 ára þjáningafullan skilnað að borði og sæng á undan hinum óhjá-
kvæmilega lögskilnaði.) íslendingar fengu vilja sínum framgengt um skýr
uppsagnarákvæði og stuttan gildistíma, en Danir fengu á móti hin ströngu
skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðsluna ásamt jafnréttisákvæðunum.
Áhersla Dana á jafnrétti þegnanna, sem skipti aðallega máli á efnahags-
sviðinu, er vísbending um að þeim hafi einkum af þvílíkum ástæðum verið
mikið í mun að afstýra algerum skilnaði landanna; þess vegna hafi þeir hvatt
til heildarsamninga um sambandsmálið og reynst þar í flestum atriðum eftir-
gefanlegir.
13 Niðurstöður
Samningar íslendinga við Dani um fullveldi íslands frá og með 1. desember
1918 voru úrslitaáfangi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. í fyrsta sinn náðust
samningar á jafnréttisgrundvelli um samband þjóðanna tveggja, og slíkra
samninga þurfti ekki að leita framar, því að á grundvelli sáttmálans frá 1918
höfðu íslendingar rétt til óskoraðs sjálfstæðis að vissum fresti liðnum.