Andvari - 01.01.1991, Blaðsíða 119
andvari
„SÖNGÚR ER I SÁLU MINNI"
117
haga sinna, ljóð hans einungis bergmál eða eftirlíking ljóðlistar annarra
skálda.
Sá dómur hefur tvímælalaust haft neikvæð áhrif á gengi skáldsins og leitt
það og verk þess inn í rökkur og þögn. Raunar er það athyglisvert, að Sigurði
skyldi síðar sjást yfir frumleika höfundar Skriftamála, þar sem hann sjálfur
hafði forðum valið löngu ljóði áþekkt form, óbundið, sem þá var nýtt í ís-
lensku. Sigurjón reyndist þó enginn sporgöngumaður Sigurðar í óbundnum
ljóðum sínum, sem áttu eftir að verða fleiri. Skriftamál einsetumannsins eru
hvorki kynnt né sett upp sem ljóð í kverinu litla. En þeim, sem það les, dylst
ekki að skáldið er óvenjulegur hugsuður og hlýtur að skipta miklu máli fyrir
ákveðið tímabil í íslenskri bókmenntasögu.
Raunar hygg ég, að það hefði breytt nokkru, þegar bókin kom út, ef textinn
eða a.m.k. hluti hans, hefði verið settur upp með öðrum hætti, þ.e.a.s. eins
og ljóð, og höfundur verið opinskárri á titilblaði og nefnt þar óbundin ljóð.
Það eru Skriftamálin tvímælalaust, og öðrum þræði opin ljóð, eins og löngu
síðar var nefnt. Hefði það talist til tíðinda árið 1928, ef þau hefðu verið nefnd
svo upphátt og metin í samræmi við það. Taka má lítið dæmi úr bókinni og
setja upp sem ljóð. Það er upphaf III. kafla, sem nefnist Skugginn:
Við stóðum
sitt hvoru megin við ána.
Hún hélt í austur
og eg í vestur.
Hún hélt í austur
móts við hækkandi sól.
Eg í vestur
móts við sólarlag og nótt.
Nei.
- í rauninni stóð eg kyr
og nóttin kom á móti mér
eins og svartur þokuveggur.
Eins og myrkur skyndilegrar hríðar.
Eins og dauði, sem á enga von.
Og á myrkrið var skrifað
með eldletri:
Ættarfylgjan.
Eg sá í anda forföður minn,
sem gekk frá börnum og heimili,
fór einmana um víðavang
og dó hjá vandalausum.
Og eg sá formóður hans,
sem gekk út um kvöld
og drukknaði í bæjarlæknum.