Andvari - 01.01.1991, Blaðsíða 124
122
BOLLI GÚSTAVSSON
ANDVARI
varð sköpun Guðs sú myndlist, sem hann fékk notið og tók mið af og var ekki
í kot vísað á þeim slóðum, er hann bjó á. Sjálfur gerir hann ekki ítarlega
grein fyrir því í fyrrnefndu bréfi, en segir m.a.: „Með vaxandi aldri hef ég lagt
vaxandi stund á þátt augans í skáldskapnum, - og þátt tilfinninganna að vísu
líka. En það liggur í hlutarins eðli, að sá þáttur hlýtur alltaf að verða ósjálf-
ráður“.
Sem dæmi um tilraunir sínar með samvinnu skynjananna tekur Sigurjón
m.a. ljóð, er hann nefnir Á Laxamýri. Er það ort í minningu Jóhanns Sigur-
jónssonar:
Bylgju við ströndina blæðir,
hún ber þar liðinn dag.
Hljóður er svanur á sundi
um sólarlag.
Sandvatn í auðnarörmum
eldar við liðinn dag.
Þröstur er horfinn úr hrauni.
Hraunið blóðugt um sólarlag.
Niðurstaða Sigurjóns er sú, að í þessu ljóði hafi hann gætt þeirrar samvinnu
skynjananna, sem hann leggur svo þunga áherslu á: „Þáttur augans er þar
kvöldroðinn, hin blóðuga bylgja, sem fellur við ströndina um sólarlag. Þáttur
eyrans fossniður og svanasöngur, þáttur tilfinninganna Sandvatnið í auðninni
og þrösturinn, sem úr hrauninu er horfinn“.
IV
Þau markmið, sem Sigurjón Friðjónsson setti sér í skáldskap sínum, voru
þrjú. Hér að framan hefur verið fjallað um það fyrsta, samvinnu skynjananna.
Annað aðalmarkmið hans var málfegurð. Á vissan hátt má segja, að sá þáttur
snerti trúarviðhorf hans, sem verða þó fyrirferðarmest í því þriðja og síðasta.
Það er hægt að skynja í eftirfarandi skýringum hans:
„Annað aðalmarkmið mitt er málfegurð og mýkt málsins fyrst og fremst.
Aðaleinkenni okkar forna máls er máttur þess og skýrleiki, sem mjög minnir
á hvasst, leiftrandi sverðshögg, eina af meginhugsjónum víkingaaldarinnar. -
Mýktin er til í forna málinu, en tiltölulega meiri í einstökum orðum en
setningum. Sum okkar fornu orð eru gerð af svo mikilli snilld, að þau eru ekki
aðeins máttug og skýr og mjúk, heldur svo, að næst er að líkja þeim við
Breiðablik, þar sem sér yfir ótakmarkaða heima. Okkar nútíma nýsmíðar —
eru gagnvart þeim eins og tunglskin, skin af kulnuðum hnöttum, sem sitt litla
ljós hafa af fjarlægri, hverfandi sól. Skilningur á krafti mýktarinnar kemur
skýrast fram í hugmyndinni um fjötur Fenrisúlfs, sem gerður var úr konu-