Andvari - 01.01.1991, Qupperneq 134
132
BOLLl GÚSTAVSSON
ANDVARI
orði, en aðrir hins vegar draga nokkuð úr. En afstaða og aðstæður þessara
flokka, sem ekki má kenna við sértrú, því flestir, sem þeim tilheyra, eru í
þjóðkirkjunni, eru í sama farinu og fyrr á öldinni, þótt áhrifamikilla forystu-
manna gæti þar lítt lengur.
í ritgerð sinni sleppir Sigurjón Friðjónsson því að minnast eða fallast á at-
riði, sem guðspekingar leggja megináherslu á, eins og endurholdgun eða
komu nýs Messíasar, „heimsfræðara“. En Áskell sonur hans veitir mér þær
upplýsingar í bréfi sínu, að hann hafi haft samband við „guðspekisinna“, sem
hann nefnir svo:
„En mér finnst ég eiga margt ósagt um föður minn. Eitt og annað, sem ég
tel varða skáldskap hans, trú hans eða tilfinningu hans fyrir lífinu og tilver-
unni. Hann komst ungur að árum í kynni við „guðspekileg“ rit. Hann hefur
einhversstaðar nefnt Njólu Björns Gunnlaugssonar, sem hann las í æsku og
hafði áhrif á hugsanaferil og lífsskoðun hans.
Ungur að árum komst faðir minn eftir einhverjum leiðum, sem mér eru
ókunnar, í kynni við „guðspeki“ Austurlanda, Kína og Indlands, trúarrit og
„dulspekirit“ þessara fornu menningarþjóða. Þetta hygg ég að hafi verið áður
en hin íslensku „guðspekifélög“ í Reykjavík og á Akureyri risu á legg. Hins
vegar vissi ég, að faðir minn hafði seinna samband við suma „postula" guð-
spekinnar hér á landi og var kaupandi að riti þeirra Ganglera. Og í Ganglera
birtust kvæði eftir hann, sem áttu vel heima í því riti“.
Sýnist mér fara vel á að fella hér inn í þrjú erindi úr lengra ljóði, sem Sig-
urjón nefndi Pú dularsól, og leiða þau ótvírætt í ljós hinn guðspekilega og
jafnframt hinn únítaríska streng, sem víða má finna í ljóðum hans:
Þú dularsól, þú ljúfa ljós,
sem leiftrar skærst í tregans ós
og leiðir lönd úr sjó,
til þín, til þín um heiðloft há
minn hugur rís í vaxtarþrá
og leit að ljósi og ró.
Sem gróðrarblæ hvert boð frá þér
minn barm eg snerta finn.
Um hug af eilífð angan ber
hver unaðsgeisli þinn.
Um skuggahyl, um eiturár
er örstutt leið, en furðu sár.
Með hraða oft dagur dvín.
Mörg hugarsnekkja í haturs röst
og haturs ís er skrúfuð föst
og leidd af leið til þín.
Mörg gleðistund að visnun veit
og varð að hefndargjöf.