Andvari - 01.01.1991, Side 157
GUNNAR STEFÁNSSON
Að árroðans strönd og aftur heim
Prjár nýjar bœkur um nýrómantísk skáld
Eitt mest heillandi leysingaskeið í íslenskri bókmenntasögu er tíminn frá
aldamótum og fram um 1920. Hann er kenndur við nýrómantík sem átti upp-
tök sín á meginlandi Evrópu á seinni hluta nítjándu aldar. Til íslands barst sú
stefna frá ljóðskáldum á Norðurlöndum undir aldamót. Þessi áhrif féllu svo
saman við vaknandi sjálfsvitund íslendinga og almennan framfarahug í
þjóðlífinu. Menn tóku að leggja rækt við eigin sérkenni í menningu, skáldin
leituðu jafnt til þjóðkvæða sem erlendra fyrirmynda og endurnýjuðu svo
ljóðstílinn. í menntamálum almennt voru miklar hræringar. Háskóli var
settur á stofn, alþýðufræðslu fleygði fram, íslendingar eignuðust fyrstu
myndlistarmenn sína, lærða á evrópska vísu, og svo mætti lengi telja. Á þess-
um árum breyttust atvinnuhættir mjög, þéttbýlið óx með tækniþróun út-
gerðar og stéttaátök hörðnuðu. - Á skáldskaparsviði má segja að þessu gerj-
unarskeiði hafi lokið um 1920 með því að fram komu skáld og rithöfundar
sem síðan settu um langan aldur meginsvip á íslenskt bókmenntalíf: Stefán
frá Hvítadal, Davíð Stefánsson, Sigurður Nordal, Halldór Laxness.
Um þetta skeið og eftirfara þess, tímann framundir stríðsbyrjun, hefur
verið fjallað í nokkrum bókmenntasögulegum ritum síðustu ár. Um sumt er
ritað hér í Andvara áður, um annað verður væntanlega rætt síðar. En hér
skal farið fáum orðum um þrjár bækur frá síðasta ári sem allar tengjast leys-
ingatímanum í íslenskri ljóðagerð fram undir 1920. Þetta eru Ljóð og laust
mál eftir Huldu, efnið valdi Guðrún Bjartmarsdóttir (Bókmenntafræði-
stofnun Háskóla íslands og Menningarsjóður); Bak við hafið, úrval úr ljóð-
um Jónasar Guðlaugssonar, gert af Hrafni Jökulssyni (Bókaforlagið Flugur
og Mál og menning); Stefán frá Hvítadal og Noregur eftir Ivar Orgland, ís-
lensk þýðing Steindórs Steindórssonar á doktorsriti höfundar frá 1969
(Bókaútgáfa Menningarsjóðs). Saman veita þessar þrjár bækur nokkra
mynd af íslenskri nýrómantík og er útgáfa þeirra til marks um að áhugi á
henni sé nú meiri en fyrr meðal bókmenntamanna. Má vænta fleiri verka
sem þessu tengjast á næstu árum.