Andvari - 01.01.1991, Page 158
156
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
I
Það má ljóst vera að útgáfan á Ljóðum og lausu máli Huldu muni fremur til
komin af áhuga á konum í bókmenntum en nýrómantískum skáldskap í sjálf-
um sér. Kvenfrelsishyggjan (femínismi) hefur orðið til að ýta undir athugan-
ir á bókmenntum kvenna, bæði samtímaritum og verkum genginna skáld-
kvenna. Hulda er augljóslega nærtækt viðfangsefni. Hún var, næst Torfhildi
Hólm, fyrst íslenskra kvenna sem samdi og gaf út skáldrit að einhverju
marki. Svo var henni afbrigðavel tekið, miklu betur en Torfhildi, því að úr-
valslið bókmenntamanna tók Huldu í öndverðu upp á sína arma og lofsöng
ljóð hennar.
Kvæði Huldu rötuðu snemma inn í úrvalssöfn og er hún til að mynda eina
nafngreinda konan sem á efni í íslenskri lestrarbók Sigurðar Nordals. Var
Nordal þó öðrum karlkyns menntamönnum fúsari til að viðurkenna skáld-
skap kvenna, - að vísu ofan úr háum sessi. Hulda gaf út fyrstu bókina 1909.
Alls urðu ljóðabækurnar sjö en ellefu bækur í lausu máli, þar á meðal stór
skáldsaga í tveim bindum. Setti Hulda verulegan svip á bókmenntir þjóðar-
innar á sinni tíð. Að öllu þessu athuguðu er meira en maklegt að úrval verka
hennar sé gefið út með ítarlegum formála á vegum Bókmenntafræðistofnun-
ar.
Guðrún Bjartmarsdóttir tók að sér að gera úrvalið og rita inngang. Hafði
hún valið efnið og samið drög að inngangsritgerð þegar hún féll frá 1988. Var
það mikill skaði því að Guðrún var einkar álitlegur fræðimaður. Má ekki síst
sjá það á ritgerðum hennar um þjóðsögur og ævintýri sem hún lagði sérstaka
stund á. En ritgerðina um Huldu lauk Ragnhildur Richter við, enda hefur
hún áður birt tímaritsgrein um Huldu í svipuðum anda. í öllum meginatrið-
um mun þó um verk Guðrúnar að ræða; það sést á því hve náið fer saman
úrval og inngangsritgerð. Þetta er níunda bindi bókaflokksins íslensk rit sem
nú er hafinn aftur eftir langt hlé. Ritgerðin er um 100 síður og úrval ljóða og
lausamáls liðlega 200 síður svo að hér er um að ræða ítarlega umfjöllun og
rúmgott sýnishorn verkanna.
Á frágangi þessarar bókar og hinna fyrri í flokknum er nokkur munur.
Prýði er að kápumynd Hrings Jóhannessonar, en kápa hefur ekki áður verið
um þessar bækur. Aðrar breytingar eru síst til bóta. Fyrst er að telja að
kaflinn Skýringar og athugasemdir aftan við sem jafnan fylgdi hefur nú verið
felldur niður. Má segja að það komi ekki að sök af því hversu vel inngangs-
ritgerðin fellur að textunum sem valdir eru. Hitt er lakara að bókfræðileg
skrá um höfundinn og heimildir um hann er nú miklu verr úr garði gerð en
áður. Munar þar mestu að ekki er hirt um að telja sérstaklega ritdóma um
hverja einstaka bók, heldur er allt talið í belgog biðu eftir stafrófsröð greina-
höfunda.