Vikan - 17.12.1964, Page 11
AVÍK
OG BORGATVÖ ÁR FYRIRFRAM
Ef þið flettið dagblöðum eins og t.d. Vísi og Morgunblaðinu, komizt
þið ekki hjó því að taka eftir, að þau eru morandi í auglýsingum
eftir húsnæði. Hins vegar geta liðið dagar, án þess að þar sé nokkurt
húsnæði auglýst til leigu. Hvað veldur? Er húsnæðisekla?
Eftir því, sem ég hef komizt næst, munu vera um 3—400 fjölskyldur
í húsnæðisvandræðum í Reykjavík. Þessi tala er miðuð við þann fjölda
tilboða, sem nokkrir húseigendur, sem auglýst hafa húsnæði til leigu
við undanfarandi mánaðamót, hafa fengið. Og kannski er þessi tala
of lág.
Og allt, sem falt er, leigist. Það er varla svo bágborið húsnæði til,
að ekki verði einhverjir fegnir að skríða þar inn. I bragga, skúra, sagga-
fulla kjallara — nýjar íbúðir, gamlar íbúðir þokkalegar — menn verða
fegnir hverju sem er, og gera sér ekki allir mikla rellu út af mismuni
hins bezta og hins lakastd. Það sem helzt er um fengizt, er það, sem
almennt er kallað húsaleiguokrið.
Satt er það að vísu, að húseigendur heimta fiestir hverjir háar leigu-
upphæðir fyrir húsnæði sitt. En ekki er þó í nærri öllum tilvikum hægt
að tala um okur, jafnvel þótt tveggja herbergja íbúð sé leigð á — ja —
segjum 5.500 krónur, fyrir utan Ijós og hita.
Því það er varla hægt að ætlast til þess, að húseigendur leigi hús-
næði fyrir minni upphæð en sem svarar vöxtum af því fé, sem í íbúð-
inni er fast. Ný tveggja herbergja íbúð kostar núna um 700 þúsund
Vextir af almennum sparisjóðsbókum eru nú 7%, og 7% af 700 þúsund
eru kr. 49 þúsund á ári, sem gera á mánuði hverjum 4.833,33 kr.
Flestir verða að taka Iífeyrissjóðslán, skuldabréfalán og þess háttar til
þess að koma íbúðinni upp, og það, ásamt nauðsynlegu viðhaldi, opin-
berum gjöldum af eigninni og þvíumlíku, gerir varla minna en 10%,
og tíu prósent af 700 þúsund eru 70 þúsund kr. á ári — 5.833,33 krónur
á mánuði. Sé farið bil beggja milli þess, sem eigandinn fengi af þess-
ari upphæð á sparisjóðsbók og þess, sem hann þarf að gjalda af henni
í húseign, er alls ekki um okur að ræða, þótt hann leigi íbúðina á
5.500 krónur á mánuði. Og sé litið á lánahliðina, gjöldin og viðhaldið
eingöngu, kemur í Ijós, að maðurinn skaðast um 333,33 kr. á mánuði,
eða 4 þúsund krónur á ári. A sama hátt má taka allar aðrar íbúðir,
og miða leiguna við 10% af því, sem í þær hefur verið lagt, eða þó
réttara sagt það verð, sem hægt væri að fá fyrir þær á hverjum tíma,
því það er hin raunverulega eign.
Hitt sjónarmiðið er líka til, að ekki beri að fara svo nákvæmlega
eftir þessu, því á þessum verðbólgutímum eru peningarnir ekki á annan
hátt betur tryggðir en að festa þá í húsnæði. Byggingakostnaðarvísi-
talan er hin eina vísitala, sem hinir vísu landsins feður geta miðað
við, þegar þeir ætla að vísitölutryggja eitthvað, svo að gagni komi.
Því má með nokkru Sanni segja, að ekki væri óréttlátt, að húseigend-
ur hefðu nokkra hliðsjón af því við ákvörðun húsaleigunnar, að eign
þeirra í húsnæðinu er svo rækilega tryggð, að hún ávaxtast heldur en
hitt, þótt húsnæðið eldist og gangi eitthvað úr sér. Þetta kemur glögg-
lega fram í rannsókn þeirri, sem VIKAN gerði í vor á því, hve mikið
söluverð húsa og íbúða hefði hækkað á tímabilinu apríl 1963 til júlí
1964 og hve mikið kaup hefði hækkað að meðaltali á sama tíma. Þar
kom í Ijós, að íbúðaverð hafði hækkað að meðaltali um ca. 31,8%, en
kaup að meðaltali um á að gizka 27,4%. Þannig að húseign, sem
kostað hefði eina milljón í apríl 1963, hefði ekki mátt kosta nema
1.274.000,00 kr. í júlí 1964, en kostaði þá, samkvæmt hækkuninni,
1.318.000,00 kr. Eigandinn hefði sem sagt auðgazt um 44.000,00 kr.
á þessum 14 mánuðum, þótt hann hefði alls enga vexti fengið af hús-
eigninni þann tíma.
En þessi staðreynd verður sjaldan til þess að lækka húsaleiguna, því
það er samkvæmt mannlegu einstaklingseðli að maka krókinn sem
allra mest og bezt.
Það er mikið vafamál, að ýkja mikið sé okrað á nýjum, góðum
íbúðum, þótt þær kosti hátt í mánaðarlaun venjulegs vinnandi manns.
Hitt er svo aftur athugandi, hvort ekki er okrað á því húsnæði sem orðið
er gamalt og úr sér gengið, eða hefur aldrei verið gott.
Það skal tekið fram strax, að þó nokkrir húseigendur eru sanngjarnir
leigudrottnar og þeir eru til, sem eru beinlínis höfðinglundaðir. En þeir
hafa flestir átt sín hús nokkuð lengi og telja þau að verulegu leyti
afskrifuð; aðeins eign, sem gott er að fá nægilega mikið af til að
standa straum af nauðsynlegum gjöldum, en hugsa annars ekki um að
auðgast af henni, heldur aðeins geyma hana til „hörðu áranna" — ef
til vill til þess tíma, þegar þeir geta ekki lengur unnið fyrir sér og
verða að setjast í helgan stein — og selja hana þá. En ekki eru allir
með því hugarfari, heldur fjalla þeir um húseignir sínar og leiguliða
á sama hátt og sumir spekúlantar setja upp hænsnabú af þeirri ástæðu
einni, að þeir sjá að nágranninn fær gott verð fyrir eggin sín.
Ég lenti í haust í því óláni — því það er ólán í Reykjavík — að verða
húsnæðislaus. Og svei mér þá, mér ofbauð hvað eftir annað, það sem
í boði var. Þrjú herbergi (tvö herbergi og hurðarlaus skonsa) og eld-
hús ! gömlu húsi á annarri hæð. Inngangur um þröngan, snúinn stiga.
Brotið upp úr eldhúsgólfinu, ónýtur vaskur, veggfóður rifið, gengum-
gangur um öll herbergin. Klósettið nánast skápur, þiljaður með masónítti,
hvorki vaskur né spegill, en hins vegar steypibaðsstútur nokkurn veginn
yfir klósettskálinni. Og allir geta ímyndað sér, hvernig masóníttþilið
lítur út eftir steypibaðið. Þá var niðurfallsrist við hliðina á klósettskál-
inni. Húsið í úthverfi borgarinnar. Olíukynt. Hitinn talinn um 700 krónur
á mánuði fyrir íbúðina. Leiguupphæð, auk hita og rafmagns: kr. 3200.
Hálft ár fyrirfram.
Eins innréttuð íbúð á fyrstu hæð í sama húsi til sölu. Mun skemmti-
legri inngangur og íbúðin í lagi: Söluverð kr. 325 þúsund. Þá íbúð
hefði verið sanngjarnt að leigja á 2.750 á mánuði — hina minna.
Annað dæmi: Þriggja herbergja, skuggaleg risibúð. Vel útlítandi.
Allir stigar spegilbónaðir og hálir eftir því. Gengið inn í öll herbergin,
eldhús og bað af sama gangi. Gömul kona með herbergi á ganginum
og aðgang að klósetti og baði. Börn illa séð. Leiguupphæð: 3500 á
mánuði auk Ijósa og hita. Arið fyrirfram. Miðað við mögulegt söluverð
íbúðarinnar, sem eftir þessu hefði átt að vera um 400 þúsund, var
þetta kannski ekki sem verst — hefði ekki verið blessuð kerlingin á
ganginum. Slíkt sambýli ætti að lækka leiguupphæðina.
Fjölmargir hafa svipaðar og mun verri sögur að segja. Ég get ekki
stillt mig um að taka hér upp kafla úr bréfi, sem VIKUNNI barst ný-
lega, — eitt af mörgum um þetta efni. Þetta bréf er skrifað undir fullu
nafni, og ekki er að efa, að bréfritari getur staðið við allt, sem þar er
sagt. Bréfritari segir m.a.:
„Fyrir einskæra heppni og tilviljun, komst ég að því, að húsnæði
væri til leigu við Suðurlandsbrautina, í hverfi því, sem almennt er nefnt
„Múlakampur". Þar var um að ræða 30 ferm. kompu, sem húseigandi
hugsaði sér að innrétta þannig, að úr yrðu hvorki meira né minna en
tvö herbergi og eldhús, var þar engin fyrirstaða að flutt yrði inn þá
þegar, en framangreind lagfæring á húsnæðinu skyldi öll gerð eftir að
leigjenudr væru fluttir inn. Þessum húseiganda skal sagt það til lofs,
að hann gerði sér enga rellu út af því, þótt um stóra barnafjölskyldu
væri að ræða. Því má enn bæta við hróður þessa heiðursmanns, að
engrar fyrirframgreiðslu skyldi krafizt og leigunni a.m.k. að hans dómi
mjög í hóf stillt, aðeins kr. 2000,00 pr. mán., auk Ijósa og hita."
Eftir því hefði söluverð skonsunnar verið kr. 240 þúsund. (Hver trú-
ið því?)
Og bréfritari heldur áfram: „A öðrum stað, er ég skoðaði, gafst á
að líta hvorki minna eða meira en heilt hús upp á tvær hæðir. Hefur
hús þetta sjálfsagt þótt mikil „villa" á sínum tíma, enda mun það hafa
verið byggt laust fyrir aldamótin. Virðast þv( ætlaðir nokkrir lífdagar
ennþá, enda þótt allar rennur og þakjárn, ásamt flestum innviðum,
þurfi endurnýjunar við. Neðri hæð þessa húss telur tvö herbergi og eld-
hús, en hin efri tvö herbergi ásamt baðklefa, sem hugsast breytt í eld-
hús, þar sem síðan yrði þiljað af eitt hornið fyrir „náðhús".
Flestir gluggar í húsi þessu voru að meira eða minna leyti sprungnir
eða þá vantaði með öllu. Veggfóður allt var ónýtt og héngu tætlurnar
niður um veggi salanna, einkum þó eldhússins. Þá voru dúkar allir
uppslitnir og gólfborðin það fúin orðin, að bókstaflega voru víða göt
á. í þessu tilviki var væntanlegum leigutaka gert að koma öllum breyt-
ingum og viðgerðum í kring á sinn kostnað, án þess að það kæmi
nokkuð leiguupphæðinni við, sem þarna var aðeins áætluð kr. 2.500,00
pr. mán., miðað við ársfyrirframgreiðslu — ef ekki bærist hærra tilboð."
Eftir leiguupphæð — þeirri sem gjaldast skyldi fyrirfram og í bein-
hörðum peningum — að dæma, hefur þetta hús Framhald á bls. 40.
VIKAN 51. tbl.
11