Menntamál - 01.12.1962, Blaðsíða 29
MENNTAMAL
243
skrifa upp nokkra bókatitla eða höfunda, sem barnið
þekkir og raða síðan í stafrófsröð. Léttara er e. t. v. að
byrja með nöfn hluta í skólastofunni, blóm, dýr o. s. frv.
í framhaldi af þessu koma æfingar í að fletta upp í létt-
um orðabókum. Þá er mikilvægt að útskýra fyrir nemend-
um efnisröðun bóka, og er þá nærtækt til æfinga efnis-
yfirlit lestrarbóka og annarra námsbóka. í þessu tilfelli
er einnig gott að nota söng- og sálmabækur.
Þessar æfingar má svo þyngja og gera f jölbreyttari í
eldri bekkjunum.
Sjálfsagt er einnig að kenna og æfa notkun bóka, sem
snerta daglegt líf svo að segja hvers einstaklings, t. d.
símaskrá. Auðvelt og ódýrt mun vera að afla skólunum
slíkra bóka, því auðvitað skiptir engu máli, í þessu til-
felli, þó notaðar séu gamlar símaskrár.
Þá er mikilvægt að æfa nemendur rækilega að fletta
upp í venjulegum orðabókum og algengum alfræðibókum.
Það kemur að miklu gagni við allt nám síðar meir.
En síðast en ekki sízt er nemendunum kennt að íletta
upp í spjaldskrám bókasafnanna svo þeir geti sjálfir, án
mikillar fyrirhafnar, fundið þær bækur, sem þeir þurfa
á að halda hverju sinni. Það þarf naumast að taka það
fram hve mikilvægt það er, að nemendurnir kunni að leita
sér heimilda og taka tilvitnanir úr bókum.
Markmið skólanna er m. a. að þjálfa nemendur sína í
sjálfstæðum athugunum og vinnubrögðum. Gott skóla-
bókasafn er eitt traustasta hjálpartækið í þeirri viðleitni,
ef rétt er á haldið.
Þegar við komum fastri skipan á bókasafnsmálin hér,
sem er ekki vansalaust að dragist öllu lengur, getum við
vissulega margt af Dönum lært í þeim efnum.