Menntamál - 01.12.1962, Blaðsíða 12
226
MENNTAMÁL
þessa eru foreldrar, sem geta ekki lagt á sig að vakna
nægilega snemma til að senda börnin í skóla. Þau koma
því tíðum kennslustund of seint, ef þau eru í skóla snemma
dags. Þetta er ekki þægilegt, bæði vegna félaga, sem spyrja
um skýringu, og aga skólans, sem krefst þess, að allir mæti
stundvíslega, ef gildar ástæður hindra ekki. Afleiðingin
verður stundum sú, að barnið gefst upp við skólasóknina.
Önnur algeng ástæða lélegrar skólasóknar er einfaldlega
sú, að barninu finnst þægilegra að losna við það erfiði og
ábyrgð, sem skólavist fylgir. Það óskar frekar að leika sér
eða gera eitthvað annað, og foreldra skortir jafnframt
lagni eða myndugleika til að fá barnið til samvinnu. Það
skrópar þá eða leitar annarra leiða til að þurfa ekki að
sækja skóla. I vissum tilvikum getur skipulag námsins
stuðlað að þessu, t. d. ef nám er of þungt eða of létt. Allt
of þungt nám dregur kjark úr nemandanum, er hann finn-
ur, að hann nær aldrei árangri þeim, sem til er ætlazt.
Hann reynir þá stundum að forða sér frá lítt þolanlegu
ástandi með því að hætta að sækja skóla. Vandkvæða af
þessu tagi mun einkum verða vart í unglingadeildum
skyldunámsins, þar sem námsskrá og skipulag tekur ekk-
ert tillit til mismunandi getu nemenda og tornæmum
unglingum og vangefnum er ætlað sama námsefni og þeim,
sem eiga auðvelt með nám.
Þegar nám er aftur á móti of létt, er hætt við, að barn-
ið sjái tilgangsleysi þess að verja í það tíma, leiðist það
og missi áhuga. Þetta kemur stundum fyrir, þegar greind
börn lenda í bekk með tornæmum eða byrja í 1. bekk
barnaskóla að nema aftur það, sem þeim var kennt í smá-
barnaskóla árið áður. Þau gera þó sjaldan beina uppreisn,
heldur læra að sitja aðgerðalítil, og kemur fyrir, að þau
dragist aftur úr hinum, sem minni hæfileika hafa. Getur
þá verið leitað til sálfræðings með þau vegna lítils náms-
árangurs eða þau hafa gefizt upp á að sækja skóla.