Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 8

Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 8
umfram það, er menn hafði órað fyrir. Margir voru þá að reyna að komast hjá að taka ýmsa pantaða hluti, af því að þeim ógnaði verðið. Ég minnist þess aldrei, að Metúsalem rækist í því, hvað hlutirnir kostuðu, heldur tók sína pöntun orða- og æðrulaust. Vissi sem var, að vörurnar voru fyrir hann pantaðar, og kom aldrei til hugar að láta aðra bera sínar byrðar. Pöntun hans var ávallt miðuð við þarfir heimilisins á hverjum tíma, án tillits til verðlags. Metúsalem er réttsýnn og óeigingjarn og hefur auðgazt og hafizt upp af dugnaði og framleitt meira á sinni vinnu en öðrum hefur tekizt, og fyrir hans útsjón og hirðusemi hefur honum orðið meira úr mörgu en fjöldanum. Vinnufólk og verkafólk hefur unnið honum vel. Hann hefur sjálfur gengið á undan og hvergi sparað sjálfan sig og verið þar, sem mest á reyndi. Hann var hjúasæll, og ýmsir, sem hjá honum voru í vinnu- mennsku hafa orðið bændur og farnazt vel, enda tæplega getað fengið betri búnaðarskóla en að vera hjá Metúsal- em. Allir, sem hjá honum hafa verið, bera heimili hans gott orð og bera til hans hlýjan hug, traust og virðingu. Melar eru farsæl og góð bújörð, en landrými tak- markað og því eigi hægt að reka þar stórbú, en á þeim tíma réð landstærð miklu um það. Metúsalem var bjart- sýnn, stórhuga og þrekmikill, og hans æskudraumur var að búa stóru búi, helzt stærra og meira en almennt gerð- ist. Var eðlilegt að hann litaðist um eftir jörð, sem betur hæfði stórhug hans og athafnaþrá. Austan Jökulsár í Fljótsdal, nærri beint á móti Mel- um, er jörðin Hrafnkelsstaðir, þar sem Hrafnkell Freys- goði bjó og búnaðist vel. Metúsalem hefur sjálfsagt oft orðið litið yfir að Hrafnkelsstöðum. Þar er landstærð mikil, þurrt og þrifalegt, og þó að heyskapur væri tak- markaður, þá er þar hagsælt og útbeit fyrir sauðfé ein- hver sú bezta þar í sveit, og þar er hinn fagri Ranaskóg- ur. Hrafnkelsstaðir Iosnuðu úr ábúð 1904, og fékk þá Metúsalem jörðina leigða og hóf þar búskap en keypti hana, er hann hafði búið þar í sjö ár. Bú hans stækkaði fljótt, og virtist þar endurtaka sig það, sem sagt er um búskap Hrafnkels, að hann „dró á vetur kálf ok kið ok hann helt vel, svá at nær lifði hvatvetna þat, er til ábyrgðar var. Mátti svá at kveða, at nálega væri tvau höfuð á hverju kykvendi“. Þannig hefur allt vaxið upp og þroskazt, að segja má fram á þennan dag hjá Metúsalem bónda á Hrafnkels- stöðum í þau rúm 50 ár, sem hann hefur búið þar. Þegar minnzt er á alla þá velgengni og þann myndar- skap, sem ríkt hefur á Hrafnkelsstöðum í tíð Metúsal- ems, þá ber þess að geta, að hann hefur ekki verið þar einn að verki. Ungum féll honum sú gæfa í skaut að eignast hina ágætustu konu, Guðrúnu Jónsdóttur, ætt- aða úr Austur-Skaftafellssýslu. Var hún manni sínum samhent um að gera garðinn frægan. Guðrún var fyrir- myndarkona og heimilisprýði. Getum við, sem þekkt- um til, bezt um það borið. Þau hjón eignuðust 17 böm, misstu fimm þeirra ung eða á æskuskeiði, en tólf náðu fullorðinsaldri. Auk þess ólu þau upp þrjú fósturbörn. Má fara nærri um, hvílíkt feiknastarf hefur hvílt á herðum móðurinnar, að koma upp svona stórum barna- hóp með sæmd og prýði. Var til þess tekið, hvað börn- :n voru mannvænleg, vel klædd, háttvís og prúð í franv komu. Móðirin saumaði sjálf mest af þeim fötum, sem þau klæddust, auk þess að annast heimili með yfir 20 manns. Var skylduræknin henni heilagt lögmál, sem öllu góðu gat til leiðar komið á heimilinu. Var, sem blessun fylgdi störfum þeirra hjóna, og uppskeran eftir því, sem sáð var. Guðrún er nú látin fyrir nokkrum árum. Nú búa ellefu börn þeirra Hrafnkelsstaðahjóna mynd- arbúum á Héraði, þar af fjögur á Hrafnkelsstöðum. Elzta dóttir þeirra hjóna, Aðalbjörg, lézt fyrir nokkr- um árum frá ellefu bömum, mesta ágætiskona, sem erft hafði í ríkum mæli myndarskap og mannkosti foreldr- anna. Metúsalem hefur gert börn sín vel að heiman, bæðt með jarðnæði og gangandi pening. Þykir mikið til þess koma að vera tengdasonur eða tengdadóttir Metúsalems á Hrafnkelsstöðum, enda verið um meira en nafnið að ræða. En mesta og bezta vegarnestið hefur þó eflaust verið hið góða uppeldi í foreldrahúsum. Era börnin mesta dugnaðarfólk, traust, ábyggileg og vinsæl. Metúsalem hefur ekki leitað gæfunnar í langri skóla- göngu eða utan landsteinanna. Hann hefur fundið hana hið innra með sjálfum sér, í störfum sínum og í því að prýða og bæta heimili sitt og heimaland. Enginn hefur skilið betur, að framtíð íslenzks land- búnaðar er undir því komin, að vinna með heilhug, trú og bjartsýni að þeim störfum, sem miða að því að gera landið betra og frjórra og með því að tryggja það, að stór bú geti sem víðast risið upp, og að stórir hópar gangandi fjár prýði gruríd og grösugar hlíðar, og að sá atvinnuvegur megi verða svo arðvænlegur, að fólk vilji við hann starfa og tileinka sér hann. Það er trú mín, að hverjum, sem í alvöru reynir að feta í fótspor Metúsal- ems, muni vegna vel. Metúsalem hefur unnið eindæma mikið og gott starf. Að launum hefur hann hlotið lífshamingju, sem hann er verðugur að njóta, og óska ég, að hún megi endast honum til hinzta dags. BRÉFASKIPTI Ég undirritaður óska eftir bréfaskiptum við pilta eða stúlkur á tvítugsaldri. Gunnlaugur Sigvaldason, Grund, Langanesi, N.-Þing. Ég óska eftir að komast í bréfasamband við pilt eða stúlku á aldrinum 14—15 ára. Óska að mynd fylgi. Ólafur Helgi Jóhannesson, Hnausakoti, Miðfirði, V.-Hún. 48 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.