Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 26
honum og dylst það ekki, að hinn gamli, góði félagi
hans er eitthvað breyttur, en hann brýtur ekki heilann
um það frekar og fer að raula fjörugt danslag.
Valur vinnur af enn meira kappi en áður, og blóðið
ólgar í æðum haris. Hann þekkir vel ævintýralíf vinar
síns og óreglu, en á þeim vettvangi hafa þeir aldrei átt
neina samleið, þrátt fyrir náinn kunningsskap. Hreiðar
er ekki vanur að láta standa við orðin tóm, og Valur
er þess fullviss, að hann býður Ástu með sér á dansleik-
inn í kvöld. En hverju svarar hún boði hans? Fer hún
með Elreiðari en neitar boði hans sjálfs? Eiga hans
fegurstu framtíðarvonir að visna þannig á vori lífsins?
Er þá stúlkan sem hann fann á svo sérstæðan hátt og
gaf þegar ást sína, aðeins hverful draumsýn í lífi hans?
Hann hallast helzt að þeirri ömurlegu ályktun. Ást hans
er heit og hrein, eins og lífsstraumur vorsins sjálfs, og
þrár hans bjartar og fölskvalausar, eins og heiðríkur
sumarhimininn, sem hvelfist yfir höfuðbólinu hans
glæsilega. í kvöld verður hann að stjórna heitum til-
finningum sínum á réttan hátt, hvernig sem allt snýst,
því sínu helgasta leyndarmáli ætlar hann ekki að kasta
fyrir gestina í Ártúni....
Heyið er allt komið í hlöðu, og fólkið gengur heim.
Kvöldverðurinn er tilbúinn og bíður á borðinu. Ásta
hefir séð vel fyrir öllu. Frú Hildur lítur athugul yfir
störf eldhússtúlkunnar og er fullkomlega ánægð með
frammistöðu hennar. Fólkið sezt að snæðingi með góðri
matarlyst eftir erfiði dagsins og bragðast vel á ljúf-
fengum réttum borðsins, og tíminn líður.
Kveldverðinum er lokið, og ævintýrin heilla. Valur
er einn í herbergi sínu og býr sig á dansleikinn. Glugg-
inn stendur opinn, og Valur sér Ástu á gangi úti við
þvottasnúrurnar. Hún er að sækja þangað þurran fatn-
að. Valur stendur kyrr um stund og fylgist með starfi
hennar, en skyndilega sér hann Hreiðar koma suður
fyrir húsið og ganga til Ástu. Valur færir sig ósjálfrátt
nær glugganum og hlustar. Hann heyrir vin sinn bjóða
Ástu á dansleikinn, ófeiminn og formálalaust, og svar
hennar hljómar einnig strax stutt og ákveðið:
— Nei, þakka þér fyrir. Ég verð heima í kvöld.
Heit fagnaðarbylgja fer um sál Vals, en hann getur
ekki annað en brosað að svipbrigðunum á andliti vinar
síns. Hann er næstum því viss um, að þetta er í fyrsta
skipti, sem Hreiðar fær afsvar hjá stúlku, og það svona
stutt og ákveðið.
Ásta gengur heim frá snúrunum með fangið fullt af
þvotti og lætur sem hún sjái ekki kaupmannssoninn, sem
stendur rétt hjá henni. Valur horfir á eftir henni, þar
til hún hverfur um húshornið, og aldrei hefir hún verið
yndislegri í augum hans en einmitt þessa stundina.
Hreiðar hefir víst tæplega áttað sig til fulls á svari
Ástu. Hann stendur kyrr um hríð eins og steini lostinn,
og vonbrigðin særa metnað hans og sjálfsálit. Eldhús-
stúlkan að neita honum. Sú er merkileg með sig. En
honum er nokkurn veginn sama um hroka hennar, nóg-
ar eru til samt, og hann þarf varla að dýrka sveitastelp-
urnar lengi til að dansa við sig í kvöld. Valur er nú
ferðbúinn og gengur fram úr herbergi sínu. í forstof-
unni mætir hann Sísí og Hreiðari, sem eru að leita hans
og bíða þess með óþreyju að komast af stað á dansleik-
inn. Bifreið Hafsteins kaupmanns er til taks heima við
húsið, og unga fólkið ekur í henni á skemmtistaðinn.
Ásta stendur við éldhúsborðið og brýtur saman þvott-
inn, en augu hennar fylgja eftir bifreiðinni, sem rennur
úr hlaði. Hún sér Val og Sísí í aftursætinu, en Hreiðar
við stýrið, og henni hefir auðsjáanlega verið ætlað sæti
við hlið hans. í þeim tilgangi hafa þeir báðir boðið
henni á dansleikinn, Valur og Hreiðar. Um það efast
hún ekki. Valur hefir vitanlega viljað útvega vini sínum
skemmtifélaga, og þess vegna boðið henni, en sjálfur
hefir hann ætlað að njóta gleðinnar með kaupmanns-
dótturinni. Ástu þykir svo ósegjanlega vænt um að hafa
fengið tækifæri til þess að neita þeim báðum, Hreiðari
og Val, og ljúfsár sigurgleði streymir um hana alla
nokkur andartök.
Bifreiðin fjarlægist óðfluga og hverfur brátt úr aug-
sýn, en skammt í fjarlægð teygar æskan bikar gleð-
innar í hljómfögrum söngvum og léttum dansi í faðmi
sumarskvöldsins. Ásta hættir að brjóta saman þvottinn
og hallar sér fram á eldhúsborðið. Ömurlegur tómleiki
læðist inn í vitund hennar, og tárdöggvuð augu stara
út í bláinn.
XVIIT.
Elín opnar eldhúsið og lítur þar inn. — Nú, þú ert
þá hér ein, Ásta mín, — segir hún og gengur inn til
Ástu.
— Já, ég er nú það svo oft.
— Ég hélt að þú hefðir drifið þig af stað á dans-
leikinn með hinu unga fólkinu, eða var þér kannske
ekki boðið að vera með?
Ásta brosir kalt: — Jú, mikil ósköp, ekki stóð á því,
en ég átti bara enga samleið með þessu heldra fólki.
— Jæja, og þú ert þá líklega eins sæl að vera heima.
Var það kaupmannssonurinn, sem bauð þér?
— Finnst þér hann líklegastur til þess?
— Já, honum var bezt trúandi til að bjóða þér út í
rallið. Ég er farin að þekkja hann nokkurn veginn rétt,
hann er búinn að koma hingað að Ártúni svo mörg
sumur og dvelja hér lengri eða skemmri tíma. Þær hafa
yfirleitt ekki haft á móti því, stúlkurnar, sem hér hafa
verið á sumrin, að skemmta sér með honum, og hann
hefir líka notfært sér það. Mér hefir nú stundum þótt
nóg um, en það er nú kannske ekki að marka, ég er
orðin svo gamaldags.
— Þetta Reykjavíkurfólk kemur líka í þeim tilgangi
að skemmta sér, og því skyldi það ekki njóta þess eftir
föngum.
— Það hefir heldur ekki svikizt um að skemmta sér
undanfarin ár, en í sumar hefir það varla komið á hest-
bak, og slíkt er óvanalegt. Valur gefur sér heldur ekki
tíma til neinna ferðalaga með því. Hann er allur í vinn-
unni, enda hefir heyskapurinn gengið vel hér í sumar.
66 Heima er bezt