Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 22

Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 22
bekk svo langt frá fuglinum, að hún gat ekki náð til hans úr sæti sínu. Fuglinn var í búri sínu á veggnum á móti henni. Hún horfði hugfangin á fuglinn, en þorði þó ekkert að segja. En þá skeði undrið. Skipstjórinn og foreldrar hennar brugðu sér augnablik út úr herberginu, en Selma varð ein inni hjá paradísarfuglinum. Aldrei gat hún síðar gert sér grein fyrir því, hvernig það gerðist, en allt í einu hafði hún risið á fætur og gengið óstudd þvert yfir gólfið að búrinu og snert fugl- inn! Foreldrar hennar komu að í þessu og trúðu naumast augum sínum. Hér hafði gerzt kraftaverk! Eftir þetta gat Selma gengið, en var þó dálítið hölt, og þegar hún stækkaði, varð annað fóturinn dálítið styttri. Enginn gat skilið eða skýrt þessa undralækningu, en sjálf trúði Selma því, að fuglinn hefði læknað sig. Þegar þetta gerðist, var Selma sjö eða átta ára gömul. Þar sem annar fótur Selmu var ofurlítið styttri, var hún alla ævi hölt, og þess vegna urðu æskuár hennar öðruvísi en annarra heilbrigðra bama. Þegar jafnaldrar hennar hlupu um í glöðum leik, þá sat Selma oft við gluggann í herberginu sínu eða á bekk úti í garðinum og horfði á leik barnanna. Ekki varð hún þó önug eða þunglynd, heldur jafnan glöð og hress í viðmóti. Hún las mikið og lærði gömul kvæði og þjóðsögur og var talin mjög bráðþroska andlega. Heima hjá Selmu voru veizluhöld tíð og mikið sungið og dansað. Selma lærði dálítið að dansa, en af því að hún var hölt, naut hún sín aldrei í dansinum, en Gerða systir hennar, sem var lítið eitt eldri, var falleg stúlka, létt á fæti og mjög eftirsótt í dansinum. Þótt Selma væri jafnan glöð og hress í viðmóti, þá þjáðist hún í leyni, þótt hún reyndi að harka af sér og dylja sem bezt harm sinn fyrir foreldrum sínum. Eitt atvik kom fyrir á æskuárum hennar, þar sem kjarkur hennar brast. — Á næsta bæ við Márbacka átti að halda mikla veizlu. Þar átti að fara í ýmsa leiki og dansa. Var þangað boðið allri fjölskyldunni frá Márbacka. Þegar fólkið fór að búa sig, vildi Selma ekki skipta fötum og sagðist ekkert ætla að fara. Faðir hennar herti mjög að henni að koma með og varð síðast hávær og stórorður. Sagði þá Selma, að hún ætti þangað ekkert erindi. Eng- inn vildi dansa við sig, þar sem hún væri hölt. Hún lét þó loks undan pabba sínum og fór með þeim í boðið. Á dansleiknum fór eins og Selma bjóst við. Systir henn- ar flaug um gólfið í hverjum dansi, en sjálf dansaði Selma mjög lítið. Þetta fékk svo mikið á hana, að hún gat ekki dulið harm sinn og barst svo illa af, að faðir hennar dauðsá eftir að hafa þvingað hana til að fara með þeim. — Eftir þetta bað hann hana aldrei að fara þangað, sem dansað var. Þegar þetta gerðist, var Selma 14 eða 15 ára. Nokkru síðar ákvað faðir hennar að senda hana í skóla og láta hana ganga menntaveginn, sem svo var kallað, en slíkt var þó mjög fátítt á þeim tímum með stúlkur úr sveit af alþýðustétt. Var það afráðið, að hún færi til Stockhólms í því skyni. Frá Márbacka í Verma- landi til Stockhólms er löng leið, og fór Selma þetta í járnbrautarlest. Bróðir hennar, sem nýlega var orðinn stúdent, var með henni. Á leiðinni kynnti hann hana fyrir félaga sínum, sem var glæsilegur, ungur stúdent. Selma varð strax hrifin af honum, en duldi tilfinningar sínar. Henni fannst hún vera eins og kóngsdóttir í ævintýri, þar sem hann var prinsinn. Hún fann til ó- kennilegrar gleði, sem hún hafði aldrei þekkt fyrr. Hún var hamingjusöm og sæl. Litlu eftir að þau komu til Stockhólms, stóð hún eitt sinn við glugga á húsinu, sem hún átti heima í, og sá vin sinn ganga framhjá. Hann leit upp í gluggann og brosti hlýlega, um leið og hann heilsaði og hélt leiðar sinnar. Gleði og hamingju Selmu er varla hægt að lýsa. Henni fannst allt svo hlýtt og bjart, og það var eins og hún svifi um gólfið. En daginn eftir las hún það í einu dagblaðinu, að þessi ungi stúdent hefði kunngert trúlofun sína og ætl- aði að gifta sig næstu daga. Hún tók þessari fregn með mestu ró. Ævintýr hennar hafði aldrei átt sér neitt slíkt takmark — en hún geymdi það eins og helgan dóm í hjarta sínu. Selma giftist aldrei, og rættist því sá spádómur líka. í endurminningum sínum lætur hún liggja að því, að aldrei framar hafi hún orðið ásthrifin af nokkrum manni. Sumarið 1946 fór ég víða um Vermaland. Þá kom ég líka að Márbacka. Selma var þá dáin fyrir sex árum. Márbacka er fagurt sveitasetur. Þar var æskuheimili Selmu, og þar dvaldist hún síðustu áratugina. Á skólaárum Selmu dó faðir hennar. Hann hafði ætíð verið eyðslusamur og mikill höfðingi heim að sækja. Hann var því stórskuldugur, er hann dó. Jörðin og allt búið var selt á uppboði. Selmu tók það mjög sárt, að móðir hennar skyldi þurfa að selja jörðina, því að hún elskaði æskuheimili sitt. Þegar Selma var rúmlega fimmtug og hafði hlotið Nóbelsverðlaunin árið 1909, þá keypti hún æskuheimili sitt aftur. Hún byggði þar upp og gerði garðinn frægan. 62 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.