Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 9

Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 9
HALLDÓR STEFÁNSSON: ÆviJ)áttur ArnLjargar Bjarnadóttur Kjerulf að bar til á bænum Illugastöðum í Laxárdal í Húnavatnssýslu 8. ágúst árið 1781, að vinnu- kona á bænum, Kristín Guðlaugsdóttir að nafni, ól meybarn, sem við skírn hlaut nafnið Arn- björg, fallegt nafn og fremur fágætt á þeim tíma. Faðir barnsins var bóndinn á Skálárhnjúki, Bjarni Jónsson, er síðar bjó í Kálfárdal í Gönguskörðum, og við þann bæ hefur þessi dóttir hans verið kennd, þótt aldrei hafi hún að líkindum komið þar. Þessi mær var þannig getin í meinum og sennilega óvelkomin öllum, nema þá ef til vill móðurinni. En hún virðist ekki hafa verið þess umkomin að geta haft dótt- urina hjá sér. Og í húsi föðurins virðist ónógt hjarta- rúm eða aðrar heimilisástæður hafa hamlað því, að hún fengi þar fóstur. Henni var fengið uppfóstur hjá beykis- hjónum dönskum í Höfðakauptúni á Skagaströnd, Jó- hanni Matthiesen að nafni. Ekki má vita að óreyndu, hvað til gæfu verður og vegs. En á annan veg og ólíkan myndi ævi Arnbjargar litlu hafa orðið, ef hún hefði alizt upp í föðurranni. Hjá beykishjónunum ólst mærin upp til fermingar- aldurs. Þá fór hún á vist hjá öðrum dönskum hjónum í Höfðakauptúni, Schram verzlunarstjóra og konu hans, sem léttastúlka húsmóðurinnar við innanhússtörf. Stóð svo um sinn. Arnbjörg Bjarnadóttir þroskaðist vel og mannaðist í uppvexti og var komin í ungmeyjarblóma, þegar tig- inn gest bar að garði Schrams. Það var hæstráðandi til lands og sjávar yfir fslandi, Jörundur Hundadagakon- ungur. Sá orðrómur hafði borizt um landið af Jörundi, að hann vildi hafa vildarþjónustu til sængur eigi síður en til borðs. Þess er ekki getið, hver fylgdi honum til sængur um kvöldið. Líklega hefur það verið Schram sjálfur eða frúin. En um morguninn féll það í hlut hinn- ar blómlegu ungmeyjar að bera honum lcaffi á sængina. Vegna orðrómsins af Jörundi var það með nokkrum ugg að hún gekk í herbergi hans. Þegar hún hafði á- varpað hann með morgunkveðju og látið kaffibakkann á borðið við rúmið, greip hann snöggt um framhand- legg hennar beran og sagði: „De er kold, min Pige.“ Henni varð felmt við, sleit sig lausa og hvarf sem bráðast til dyra. Frá Schrams-hjónum vistaðist Arnbjörg til Jakobs N. Havsteens, verzlunarstjóra á Hofsósi. Þar var hún að- eins eitt ár. Frá því ári minntist hún unaðsríkrar ferðar á fögru vorkvöldi út á Þórðarhöfða. Frá Hofsósi vistaðist Arnbjörg til Hemmertshjóna á Akureyri. Brátt eftir það kynntist hún ungum bónda- syni úr nágrenninu, Sigurði, syni Jakobs bónda Þor- valdssonar í Kaupangi. Leiddu þau kynni til hjúskapar. Fengu þau lauslega ábúð í Kaupangi með foreldrum hans. Eftir fárra ára sambúð missti Arnbjörg mann sinn. Hann drukknaði á Grímseyjarsundi 1818. Þau höfðu eignazt einn son, Kristján Frímann að nafni. Hann var þá orðinn fjögra eða fimm ára. Stóð Arnbjörg uppi með þennan son sinn einstæð og staðfestulaus. Um þessar mundir voru þeir Scheel og Frisak við landmælingar á Austurlandi og höfðu aðsetur á Vopna- firði. Þeir höfðu áður haft bækistöðvar á Akureyri og voru því kunnugir þar. Með vist sinni og innanhússþjónustu hjá einni fjöl- skyldu danskri eftir aðra, var Arnbjörg orðin leikin í að tala dönsku og hafði kynnzt dönskum matháttum og umgengnisvenjum. Að líkindum hefur það verið af þessum ástæðum, að hún réðst ráðskona til landmælinga- mannanna sumarið 1819. Má vera, að það hafi verið fyrir atbeina eða milligöngu Hemmerts-hjóna, sem voru báðum aðilum kunnug. Þetta sama ár var skipaður fjórðungslæknir á Austur- landi Jörgen Kjerulf, danskur maður. Hann settist að fyrst í Eskifjarðarkaupstað. Um sumarið kom hann til Vopnafjarðar. Hefur hann þá hitt mælingamennina samlanda sína og kynnzt ráðskonu þeirra. Og með því að mælingamennirnir þurftu ráðskonunnar ekki við lengur en til haustsins, en hins vegar var Kjerulf læknir ókvæntur og var ráðskonu vant, réðst svo, að Arnbjörg færi til hans um haustið. Varð kynning þeirra svo skjót og náin, að þau gengu í hjúskap þegar 26. október um haustið. Næsta vor fluttust þau að læknissetrinu Brekku í Fljótsdal. Bjuggu þau þar ellefu ár og eignuðust fjögur böm, Andrés Hermann 1. jan. 1821, Dorotheu Lovísu 7. marz 1822, Jóhönnu Sigríði 1. apríl 1826 og Kristján Jörgen 1. marz 1832. Að áliðnu ári 1831 (11. des.) dó Kjerulf læknir. Arn- björg stóð þá uppi ekkja í annað sinn með þrjú böm ung og það fjórða í vonum. Kristján Frímann, sonurinn af fyrra hjónabandi, var kominn á þroskaaldur. Dvalarárin á Brekku má ætla að Arnbjörg hafi lifað rósömu og áhyggjulitlu lífi. Hún situr í einna mestu virðingarsæti húsmæðra héraðsins og nýtur álits sem Heima er bezt 49

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.