Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 30

Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 30
vera sælum. Þetta voru hennar einu vinir í lífinu. Nú var hún viss um, að hún væri að hverfa frá þeim. Það var ósennilegt, að hún ætti langt eftir, fyrst hún var á annað borð að veikjast. Hún minntist þess ekki, að hún hefði verið í rúminu einn einasta dag í þessi sextíu ár, sem hún átti að baki sér. Hún treysti sér ekki til að brynna kúnum. Strákurinn varð að gera það, þegar hann kæmist á fætur. Kristján var að drekka kaffið við maskínuhússborðið, þegar hún kom inn. Hún bauð honum góðan daginn. Hann tók dauflega undir það en spurði, hvort hún hefði litið inn til Rósu. „Já, hún er víst við það sama,“ anzaði hún. „Og svo bætist það við, að ég er víst að veikjast sjálf, svo að nú fer að verða erfiður búskapurinn, að minnsta kosti inn- anbæjar.“ „Hefurðu ekki alltaf talið, að þú værir búin að fá mislingana?“ sagði hann hörkulega. „Ég hélt það nú, en svo getur það reyndar verið eitt- hvað annað, sem að mér er nú, en ég finn það bara, að ég get ekki lengur á fótum verið,“ sagði hún. „Kýrnar eru vatnslausar. Ég treysti mér ekki til að bjástra við að brynna þeim.“ „Skárri er það bölvaður vesældarskapurinn sem við- gengst á þessu heimili,“ sagði Kristján. „Ég sé ekki annað, en að fóllc á öðrum bæjum sé komið á fætur og farið að vinna.“ „Það er af því, að veikin kom hingað seinna en á hina bæina,“ svaraði Geirlaug. „En ég býst ekki við að fara á fætur aftur. Ég finn það á mér, að ég er bráðfeig,“ bætti hún við með kjökurhljóði. „Hún er eins og vant er, bölvuð ekki sen móðursýkin í ykkur kvenfólkinu. Ég hef nú aldrei heyrt, að misl- ingar væru banvænir. Þú hefðir sjálfsagt ekki tekið veikina, ef þú hefðir ekki verið sífellt inni í þessari veikindamollu, sem er í bænum,“ sagði hann gramur. „Það er allt annað en heilsusamlegt, að koma ekki út undir bert loft allan guðslangan daginn.“ Geirlaug var ekki lengur skjálfrödduð. Gremjan út- rýmdi kjarkleysinu úr huga henni. „Ég verð nú bara að segja það, að ég hef haft annað að gera nú um tíma, en að sitja úti, þó það hefði kannske verið hollara fyrir mig,“ sagði hún ergilega. „Ég verð nú bara að segja, að þú verður að fá einhverja manneskju á heimilið, sem kann að skúra gólfin og þvo þvottinn og gera ekki skil- vinduna ónýta, en það kunna þær ekki, þessar vinnu- konur, sem þú hefur núna.“ „Ætli það sé einhver sérstök kúnst, að setja saman skilvinduna og snúa henni,“ sagði hann úrillur og fór út. Geirlaug skildi mjólkina, þvoði skilvinduna og setti hana saman, eins og hún átti að vera, þvoði svo föt- urnar og lét þær þar, sem þær gátu þornað, án þess að gisna. Svo skammtaði hún morgunmatinn, sem alltaf var kaldur á sumrin. Eftir það fór hún inn og háttaði. „Þetta kalla ég heldur bágar heimilisástæður,“ sagði Kristján þegar verið var að borða. „Þú verður að reyna að hugsa um miðdegismatinn, Bogga, og þvo upp mat- arílátin og láta þau á þann stað, sem þau'eiga að vera.“ Eftir það fór hann inn til konu sinnar og bauð góðan daginn í húsdyrunum, eins og hann var vanur. Jón lifli stóð við rúmið hjá móður sinni. Hún var að reyna að hjálpa honum í fötin. „Þetta er nú heldur umhendis fyrir þig,“ sagði hann kuldalega. „Það væri ólíkt þægilegra að vera á fótum, enda sé ég ekki annað ráð en að þú reynir það, fyrst þín mikla hjálparhella Geirlaug er nú komin í rúmið.“ „Heldurðu að ég væri ekki komin í fötin fyrir æði löngu, ef ég gæti það?“ svaraði Rósa. „Það dettur víst engri manneskju í hug að fara úr rúminu, sem hefur jafn háan hita og ég hef.“ „Það er nú eitt af mörgu, sem gerir hverja manneskju að aumingja, að trúa á þennan hitamæli, þó hann sé ef til vill hringlandi vitlaus,“ sagði Kristján. „Ég ldæði mig ekki fyrr en ég er orðin hitalaus," sagði Rósa. „Þó að ég hefði engan mæli, fyndi ég, að ég er engin manneskja til að vera á fótum. Þó að lífið hafi ekki margt gott að bjóða mér, þá langar mig til að lifa hjá drengnum mínum.“ „Þú frískast aldrei meðan þú ert inni í þessu pestar- Iofti,“ sagði Kristján, meðan hann var að láta skóna á drenginn. Svo fór hann með Jón litla út. Nokkru seinna sá Rósa, að hann var kominn á hest- bak og snerist innan um lambféð. Sjálfsagt hafði hann meiri áhuga fyrir rollunum en því, hvernig henni liði. Það var ekki hægt að heyra annað, en að hann áliti, að hún lægi í rúminu að gamni sínu. Hún ætlaði heldur ekki að tala utan að því, að læknis yrði leitað. Kristján hafði farið til læknis, þegar Jón litli hafði verið sem veikastur. Rósa var honum þakklát fyrir það, hvað hann var góður við drenginn. Það var líka orðið það eina, sem hún gat fellt sig við í fari þess manns, sem henni hafði fundizt gallalaus fyrir nokkrum árum. Svo gat lífið verið óskiljanlegt stundum. Rósa fór ofan á- gólfið og reyndi að hrista upp sæng- ina sína og koddann. Svo fór hún fram fyrir, til að vita um, hvernig Geirlaugu liði. — Hún mókti, eldrauð í framan af sótthita. Rósa opnaði baðstofuhurðina og kallaði, svo hátt sem hún gat á Boggu, en það anzaði enginn. Hún fór þá inn fýrir aftur og lagðist undir sængina og grét. Hún Óskaði þess, að hún hefði fengið að deyja með drengn- um sínum, þegar hann var veikur og nýlega fæddur. Þá hefði hún verið laus við að þjást svona dag eftir dag, hver vissi hvað lengi. Út yfir allt tók þó, að Geirlaug skyldi vera lögzt, þessi mikla stoð og stytta heimilisins. Nokkru seinna kom Jón litli inn til mömmu sinnar. Hún bað hann að ná vatni í glas handa sér. Hann kom með hálft glasið. Hitt hafði hellzt niður hjá honum á leiðinni, blessuðum drengnum. Hann hafði sótt vatnið alla leið út í læk. Rósa þakkaði honum fyrir, hvað hann 70 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.