Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.02.1959, Blaðsíða 31
væri duglegur og góður drengur. Hana langaði ósegj- anlega til að biðja hann að fara suður að Þúfum og biðja Laugu að finna sig, en það þætti nú líklega óþarfi. Hún fór hvað eftir annað fram fyrir til að vitja um Geirlaugu, sem bylti sér í óráðsmóki og talaði um, að gólfin væru óþvegin og skilvindan orðin ónýt. Líklega hefði heldur enginn munað eftir að brynna kúnum. Þetta varð hræðilega langur dagur. Einu sinni kom Bogga inn í baðstofuna, þegar Rósa var að vitja um Geirlaugu. Hún skellti á lærið og hló kjánalega: „Þú ert þá bara komin á fætur,“ sagði hún. „Nú held ég, að húsbóndanum þyki vænt um.“ „Ég er ekki komin á fætur,“ sagði Rósa. „Eins og þú sérð, er ég bara í náttkjólnum og berfætt í skónum. Ég er svo hrædd um, að hún Geirlaug fari fram úr rúminu.“ „Hún er alltaf að rífast við mig, ef ég kem inn, um hvað gólfin séu óhrein. Hún ætti þá bara að hafa sig fram úr og þvo þau sjálf,“ sagði Bogga. „Þú ert kjáni, sem ekkert sldlur. Hún er svo veik, að hún er með óráði,“ sagði Rósa gremjulega. „Nú, það var nú allt verra,“ sagði Bogga. Kristján skildi mjólkina sjálfur um kvöldið og þvoði skilvinduna, en kunni svo ekki að setja hana saman aftur. Þá sagði hann Boggu að fara með skálarnar inn til Rósu, hún hlyti að geta sett skilvinduna saman. Hún gerði eins og hann sagði henni. Næsta morgun kom Jón litli með fötin fram í mask- ínuhús til Boggu og bað hana að hjálpa sér í fötin, því mamma sín væri svo veik, að hún gæti það ekki. Bogga gerði það, en þegar því var lokið, fór hún inn í hjóna- húsið til að vitja um Rósu. Hún flýtti sér fram aftur og mætti Kristjáni í göngunum: „Ég hef aldrei séð hana Rósu eins veika og nú. Hún ætlar víst að deyja í dag,“ sagði hún óðamála. „Hvers lags rugl er þetta í þér, stelpa?“ sagði hann en varð þó talsvert þungt um andardráttinn og stikaði inn í hjónahúsið. Það var rétt, sem stelpan hafði sagt, þó vitlaus væri. Rósa virtist vera ólíkt veikari nú en hún hafði verið nokkru sinni áður. „Hvað er þetta, manneskja! Því læturðu mig ekki vita, að þú ert svona veik?“ sagði hann. „Hvernig átti ég að fara að því að láta þig vita það, þegar enginn er einu sinni svo hugulsamur að láta vatn inn til mín, hvað þá að spyrja um líðan mína? Ég býst við, að flestum sé sama um mig nema Geirlaugu,“ sagði hún lágt. „Líklega er það bara hitamælirinn, sem er vit- laus,“ bætti hún við.“ „Það er nú nóg annað að gera en að sitja inni yfir sjúklingum,“ sagði Kristján og var horfinn fram úr húsinu. Hann hrópaði á nýja smalann: „Sæktu hestana í hvelli. Það er ekki um annað að gera en að sækja læknisbulluna, þó að það verði sjálfsagt ekki til neins. En allt verður að reyna.“ Jón litli kom inn til móður sinnar og sagði henni, að pabbi sinn væri farinn að sækja lækninn, svo henni og Geirlaugu batnaði. Rósa klappaði honum á kinnina og sagði, að hann væri góður og duglegur drengur. „Kannske geturðu hlaupið suður að Þúfum og beðið Laugu að finna mig.“ Hann var horfinn, áður en hún hafði sagt allt, sem hún ætlaði að segja. Það leið ótrúlega stutt stund, þangað til Lauga var komin inn að rúminu til Rósu. „Ég hefði getað sagt mér það sjálf, að eitthvað væri að, þar sem Geirlaug kom ekki suður eftir í morgun, eins og undanfama morgna,“ sagði Lauga, þegar hún hafði heilsað og kastað mæðinni. „Jón litli hljóp í ein- um spretti milli bæjanna og kom löðrandi sveittur í hlaðið.“ „Þú hefur sjálfsagt átt óþægilegt með að finna mig núna,“ sagði Rósa, „en það er nú verið að sækja lækni, en ég get varla látið hann sjá, hvernig lítur út hérna inni. Jón litli var að reyna að klæða sig sjálfur í morgun og gekk ekki sem snyrtilegast um, eins og þú sérð. Sjálf hef ég ekki þrótt til að greiða mér, hvað þá meira. Ég varð að fara ofan í gær til að vitja um Geirlaugu. Lík- lega hefur mér versnað af því.“ „Ég átti hreint ekkert bágt með að koma. Drengur- inn er mikið hressari en hann hefur verið, og mamma er farin að klæða sig. Hefði ég vitað, að Geirlaug væri fallin í valinn í gær, hefði ég komið þá,“ svaraði Lauga. Hún var búin að greiða báðum sjúklingunum og búa um þær, og húsið og baðstofan leit vel út, þegar lækn- irinn kom. Kristjáni varð hreint ekkert vel víð, þegar hann sá nágrannakonuna frá Þúfum. Hann tók nú samt vin- gjamlega í hönd henni og þakkaði henni fyrir hjálp- ina. Þó hefði hann enga manneskju síður viljað sjá á heimili sínu. Læknirinn bjóst við að mislingarnir myndu koma út á Geirlaugu á næsta sólarhring, og þá færi henni að skána, en hún yrði að fara vel með sig. En það var öllu daufara hljóðið í honum yfir ungu konunni. Hann ætl- aði náttúrlega að reyna að láta hana hafa meðul, en ef henni batnaði ekki af þeim, þá yrði hún að fara á spít- alann. „Hvernig lízt þér á heimilisástæðurnar núna hérna á heimilinu?“ sagði Kristján við nágrannakonu sína. „Þær eru allt annað en álitlegar, en þetta er ekki nema það sem öll heimili hafa átt við að stríða nú undanfam- ar vikur,“ svaraði Lauga. „Þið vörðuð ykkur bara svo lengi. Þú verður víst að reyna að útvega þér stúlku, sem getur hugsað um innanbæjarstörfin. Ég skal koma út eftir og búa um þær á meðan þess er þörf. Meira get ég ekki.“ Laugu langaði heldur ekkert til að gera Kristjáni meiri greiða. Heima er bezt 71

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.