Tímarit lögfræðinga - 20.12.1990, Blaðsíða 27
4.1.5 Mat á því hvort tengsl dómara við tiltekna hagsmuni af úrlausn máls telst
vanhæfisástæða
Vandamálið í þessum efnum er það hversu mikill vafi þurfi að vera á því að
viss tengsl dómara við tiltekna hagsmuni af úrlausn máls geti haft ómálefnaleg
áhrif á niðurstöðu í máli þannig að rétt sé að dómarinn víki sæti. Þurfa að vera til
staðar veruleg líkindi, skynsamlegur vafi eða nægir vafi eingöngu?16 Sjónarmiðin
sem hér koma til álita eru, annars vegar, að gengið sé það langt að komið sé vel
til móts við öryggis- og traustssjónarmiðin og þar með stuðlað að málefnalegri
niðurstöðu og trausti almennings á dómstólunum, en hins vegar ekki gengið það
langt, að vikið sé sæti í málum, þar sem hverfandi lítil eða engin hætta er á því að
dómari verði hlutdrægur, með þeim afleiðingum að skilvirkni dómstóla minnki
og kostnaður vegna þeirra aukist.
Það hefur yfirleitt verið gert ráð fyrir því að ekki væri nægjanlegt að aðilar
vantreystu dómara,17 heldur yrðu til grundvallar þessum vafa um óhlutdrægni að
liggja einhverjar hlutlægar ástæður sem væru til þess fallnar að vekja vafa á
skynsamlegan hátt.18 Því er almennt gerð sú krafa, að frá sjónarhóli hlutlauss
þriðja manns séu aðstæður slíkar að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa með
skynsamlegum hætti.1'1
Undantekning er þó frá framangreindri reglu. Vikning á huglægum grundvelli
er heimil í þeim tilvikum þar sem dómara finnst sjálfum hann ekki geta litið
óhlutdrægt á málavöxtu.20
Þegar hættan á því að dómari sé vanhæfur er metin út frá traustssjónarmiðun-
um er ekki litið til persónuleika dómara, hvort hann sé ólíklegur til þess að láta
tiltekin tengsl við hagsmuni af úrlausn máls hafa áhrif á sig.21 Þetta var gert áður
fyrr samkvæmt öryggissjónarmiðunum og var þá aðallega litið á horf dómara við
16 Benda má á, að í einum enskum dómi var gengið svo langt að telja dómara rétt að víkja ef „not
necessarily reasonable people“ drægi óhlutdrægni dómarans í efa sbr. Eckersley and others v.
Mersey Docks and Harbour board (1894)2 Q.B. 667. Dómarsem fallið hafa eftir það íenskum rétti,
hafa þó ekki gengið svo langt og er oftast vitnað í gamlan dóm þar sem krafist var að fyrir lægi „a real
possibility of bias“, sbr. R. v. Rand and others (1865-66) L.R. 1 Q.B. 230.
17 Sjá t.d. HRD 1929 189; HRD 1929 1288; HRD 1976 735; Hurwitz: Tvistemaal, 45 og UfR. 1921
917.
18 í eftirtöldum dómum voru aðilar máls ekki taldir hafa réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni
dómarans í efa. HRD 1976 90. Dómari vísaði aðila máls úr þinghaldi svo stöðva mætti ræðuhöld hans
utan dagskrár. HRD 1939 129. Dómari hafði áður dæmt refsimál á hendur aðila máls. HRD 1958
466. Dómari hafði áður dæmt í sams konar máli áður.
19 Zivilprozessordnung, 122.
20 I athugasemd við 36. gr. í greinargerð frumvarps þess er varð að eml. segir m.a.: „Ef engin ytri,
(objektiv) atriði liggja fyrir, þá verður það samviskusök dómarans, hvort hann víkur eða ekki, t.d.
kali til aðilja, er ekki hefir opinberlega komið fram. Og verða litlar leiðbeiningar um þau efni
gefnar.“ f athugasemdum við 37. gr. segir: „Dómari getur alltaf vikið af sjálfsdáðum (ex officio), ef
honum virðast ástæður til þess vera fyrir hendi...“, Alþt. 1935-A, 941. Sjá einnig ummæli hjá
Gomard: Civilprocessen, 582.
21 Andersen. Poul: Dansk Forvaltningsret, 446.
225