Tímarit lögfræðinga - 20.12.1990, Blaðsíða 41
4) Fram að 1. júlí 1992, er aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdavalds kemur
til framkvæmda, er ekki ólíklegt að upp komi spurningar um hæfi dómara á
ýmsum sviðum, þar sem hann hefur áður haft afskipti af máli.
Sem dæmi, þá má velta því fyrir sér hvort þeir bæjarfógetar og sýslumenn utan
Reykjavíkur, sem einnig eru innheimtumenn fyrir ríkissjóð, teljist hæfir til þess
að gera lögtak fyrir þeim opinberu gjöldum sem þeir sjá um innheimtu á, en í
slíkum tilvikum koma þeir einnig fram í málinu sem fyrirsvarsmenn gerðarbeið-
anda. Ekki er að sjá að á þetta hafi reynt fyrir Hæstarétti.
Hér er fyrst að athuga að frá því er HRD 1973 373 gekk, verður ekki betur séð
en gengið hafi verið út frá því sem meginreglu, eins og áður var minnst á,5'* að
dómarar væru taldir vanhæfir þar sem þeir væru fyrirsvarsmenn aðila í máli. Hér
má einnig minna á fógetaréttarmál þar sem fógeti hefur verið talinn vanhæfur í
slíkum tilvikum. HRD 1951 355 þar sem fógeti var umboðsmaður þjóðjarðar og
HRD 1967 810 þar sem fógeti var fyrirsvarsmaður fyrirtækis sem var í sömu
stöðu og gerðarþoli. Loks má geta þess að í almennum einkamálum hefur
dómari máls verið talinn vanhæfur, þar sem hann hefur jafnframt verið stefnandi
máls sem fyrirsvarsmaður ríkissjóðs við innheimtu skatta, sjá HRD 1961 446 og
HRD 1967 47.60
Ef litið er til framangreindra dóma virðist liggja í augum uppi að fógeti hljóti
að teljast vanhæfur þegar hann er jafnframt fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda.
Þegar betur er að gáð kemur hins vegar í ljós að í framkvæmd virðist hafa verið
gengið út frá gagnstæðri niðurstöðu á grundvelli 2. ml. 1. tl. 36. gr. eml. svo og
þess Iögskýringarsjónarmiðs sem gerð var grein fyrir í kafla 5.1.
Með þá staðreynd í huga að hér virðist byggt á sömu sjónarmiðum og
Hæstiréttur hafnar í HRD 9. janúar 1990, vaknar sú spurning hvort ekki sé hægt
að draga þá ályktun af dóminum að fógeti hljóti eftirleiðis að teljast vanhæfur við
slíkar aðstæður.
Ef kaflar eru 7.1-7.6 eru skoðaðir kemur í ljós að flest sömu rök eiga hér við
og liggja til grundvallar HRD 9. janúar 1990, nema hvað hér við bcetist ein af
elstu og áhrifamestu vanhæfisástæðunum að dómari kemur einnigfram í málinu
sem fyrirsvarsmaður annars aðilans. Með tilliti til þessa, dóma þeirra sem hér að
framan var getið, tilgangs hæfisreglnanna svo og lögskýringarsjónarmiða sem
getið var í 4. kafla, verður að telja Ijóst að draga megi óhlutdrægni fógeta í efa
með skynsamlegum rökum, þegar hann er jafnframt gerðarbeiðandi, sem
innheimtumaður ríkissjóðs.
59 Sjá hér kafla 5.2.
60 Þess má geta að á árunum 1977-1986 viku t.d. héraðsdómarar í 7 málum þar sem þeir voru
fyrirsvarsmenn ríkissjóðs við innheimtu opinberra gjalda, Páll Hreinsson: Setudómarar, 57.
239