Tímarit lögfræðinga - 01.09.1995, Síða 8
og galla á fjölræði. Né heldur hafa þeir neitt annað orð um sama efni. Engu að
síður virðist vera greinileg þróun í átt til fjölræðis að undanförnu á íslandi, til
dæmis í átt til sjálfstæðis fjölmiðla. I fjölmiðlun á Islandi, og á ýmsum öðrum
sviðum líka, hefur flokkaræði verið að víkja fyrir fjölræði. Annað dæmi af allt
öðru tæi um tilhneigingu til fjölræðis, og þar með valddreifíngar, á íslandi eru
ráðagerðir stjórnvalda um að flytja skólahald frá ríki til sveitarfélaga, án þess
ég viti mikið um hvernig þær ráðagerðir eru hugsaðar.
En enginn minnist á fjölræði. A hinn bóginn er annað orð á hvers manns vörum,
og hefur kveikt heitar ástríður hjá alþingismönnum, blaðamönnum og almenningi.
Það er „einkavæðing". Nú er einkavæðing - sala á opinberum fyrirtækjum til
einkaaðila - hugsanlega eitt tækið til að stuðla að tjölræði. En bara hugsanlega. Það
fer meðal annars eftir því hverjir kaupa. Svo má ekki gleyma því að einkarekstur
og einkaeignarréttur virðast alls ekki vera ófrávíkjanlegar forsendur fjölræðis. Það
virðist vel hægt að hafa mjög sjálfstætt Ríkisútvarp - eins og brezka útvarpið - og
mjög sjálfstæða háskóla þó svo að þetta séu opinberar stofnanir. Engum dettur í
hug að einkavæða Hæstarétt til að tryggja sjálfstæði hans. Og Morgunblaðinu gekk
ljómandi vel að vera ósjálfstætt í skoðunum í áratugi þótt það væri í einkaeign. Það
var eins og hvert annað tlokksblað en er það naumast lengur.
Svo að fjölræði og einkavæðing eru sitt hvað. Nú virðist mér blasa við að fjöl-
ræðið sé margfalt mikilsverðara mál en nokkur einkavæðing að henni þó ólast-
aðri. Og þegar einkavæðingin er varin eða boðuð - einkavæðing Ríkisútvarps-
ins til dæmis - þá er það oftar en ekki gert út frá fjölræðissjónarmiðum, og
stundum öðrurn lýðræðissjónarmiðum, án þess þó að fjölræðið sem slíkt sé
nokkurn tíma nefnt á nafn. Og þetta finnst mér vera ofurlítil gáta. Hvers vegna
erum við svo lágvær um fjölræði, sem þó er þögult og bítandi allt í kringum
okkur, og svo hávær um einkavæðingu? Það ætti að vera öfugt.
Kannski ég megi nefna enn eitt dæmi til að varpa ljósi á fjölræði. Dæmið er
af hugtaki sem Evrópubandalagið hefur gert frægt á allra síðustu árum. Á út-
lendum málum heitir það „súbsídíarítet". Það er fróðlegt að hugsa til þess, sem
Michael Dummett rökfræðingur í Oxford fræddi mig á, að þetta sérkennilega
orð „súbsídíarítet“ er ættað úr þýzkri þýðingu á næstum sjötíu ára gömlu páfa-
bréfi eftir Píus páfa XI. Þess má geta að páfabréf eru að jafnaði afbragðsrit fyrir
skýra hugsun og glæsilega framsetningu.
Þetta páfabréf skrifaði Píus XI gegn fasistastjórninni á Ítalíu þegar hún bjóst
til að safna sem mestum völdum í landinu í hendur ríkisstjómarinnar í Róm. Þar
setti páfi fram þá reglu að allt vald skyldi falið lægstu einingu í landinu sem
með það gæti farið. Ef hreppsnefnd gæti farið með valdið þá skyldi henni falið
það. Og þessa reglu hefur nú Evrópubandalagið - að minnsta kosti í orði kveðnu
- gert að sinni. Að minnsta kosti nota þeir orðið í Brussel. Eg veit ekki nema
það standi í sáttmálanum frá Maastricht. En þar í sveitum mun vera þó nokkur
ágreiningur um hvernig eigi að skilja páfaregluna og beita henni. Ég hef heyrt
og séð brezku stjórnina sakaða um að beita henni í Brussel en brjóta hana misk-
unnarlaust í London, til dæmis bæði á sveitarstjórnum og háskólum.
194