Tímarit lögfræðinga - 01.04.2001, Blaðsíða 21
fella málið niður. Þá kveður c-liður 1. mgr. 17. gr. á um það að hafi viðkomandi
maður þegar verið dæmdur fyrir þá háttsemi sem er tilefni kæru til dómstólsins
og dómstólnum er óheimilt að rétta í málinu samkvæmt 3. mgr. 20. gr. sam-
þykktarinnar beri að vísa rnálinu frá dómstólnum. Þetta ákvæði, sem endur-
speglar meginregluna um ne bis in idem,24 þ.e. að óheinrilt sé að dæma mann
tvívegis eða oftar fyrir sömu háttsemi, er hins vegar takmarkað við þær aðstæð-
ur þegar ríki hefur í raun og veru ætlað að koma lögum yfir hinn ákærða, sbr.
a-lið 3. mgr. 20. gr. Þá hafi rannsókn og dómsmeðferð í ríkinu farið að öðru
leyti fram með óháðum og óhlutdrægum hætti í samræmi við meginreglur um
réttláta málsnreðferð sem viðurkenndar eru að þjóðarétti, sbr. b-lið 3. mgr. 20.
gr. samþykktarinnar.
Að líkindum mun mikið reyna á túlkun fyrirmæla a- og b-liðar 1. mgr. 17. gr.
Rómarsamþykktarinnar þegar Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn tekur til starfa
a.m.k þegar fyrir liggur árekstur lögsögureglna að landsrétti og lögsögu dóm-
stólsins samkvæmt samþykktinni. Samningsaðilar voru því meðvitaðir um mik-
ilvægi þess að ákvæðin um það hvenær ríki, sem lögsögu hefur í máli, skortir
vilja eða getu í merkingu a- og b-liða 1. mgr. 17. gr., yrðu eins skýr og kostur
væri. í ljósi þessa var farin sú leið að skilgreina með nokkuð ítarlegum hætti í
2. og 3. mgr. 17. gr. hvenær ríki telst skorta vilja eða getu samkvæmt framan-
greindu. Verður nú vikið að þeim ákvæðum.
3.3.3 Skortur á vilja ríkis eða getu, sbr. 2. og 3. mgr. 17. gr.
Rómarsamþykktar
3.3.3.1 Endurskoðunarvald Alþjóðlega sakamáladómstólsins
Samkvænrt upphafsmálslið 1. mgr. 17. gr. Rómarsamþykktarinnar er það á
valdi Alþjóðlega sakamáladómstólsins að meta hvort um sé að ræða skort á
vilja eða getu ríkis í tilteknu máli, sbr. orðalagið „skal dómstóllinn ákveða að
vísa máli frá þegar:“. Dómstólnum er með öðrum orðum falið endurskoðunar-
vald til að rneta hvort meðferð máls í ríki hafi farið fram með þeim hætti að það
hafi í raun skort vilja eða getu í merkingu 2. og 3. mgr. 17. gr. til þess að rann-
saka og saksækja hinn grunaða.
24 Meginreglan um ne bis in idem er lögfest í íslenskum rétti í 8. gr. a í almennum hegningarlög-
um nr. 19/1940. Þar kemur fram að hafi maður hlotið refsidóm í rfki þar sem brot var framið eða í
ríki sem er aðili að samningi um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. mars 1970 skuli ekki höfða mál
á hendur honum, dæma hann né fullnægja viðurlögum hér á landi fyrir sama brot og hann var
dæmdur fyrir í því ríki ef (1) hann var sýknaður, (2) dæmdum viðurlögum hefur þegar verið full-
nægt. verið er að fuilnægja þeim, þau fallin niður eða hafa verið gefin upp í samræmi við lög í því
ríki þar sem dómur var kveðinn upp, eða (3) hann hefur verið sakfelldur án þess að refsing eða önn-
ur viðurlög hafi verið ákvörðuð. Hafa verður í huga að ákvæði 8. gr. a almennra hegningarlaga tek-
ur ekki til refsidóma sem kveðnir hafa verið upp hjá alþjóðlegum dómstólum og var því talin þörf
á að leggja til sérstakt ákvæði um það efni að því er varðar dóma Alþjóðlega sakamáladómstólsins
í frumvarpi til laga um framkvæmd Rómarsamþykktarinnar sem áður er getið, sjá neðanmgr. 4.
15