Dvöl - 01.07.1945, Síða 83
„Of djúpt fyrir augliti guðs?“ Skyndilega ljómuðu augu hans. og
röddin varð mild og viökvæm. „Aldrei. Þótt fen spillingarinnar sé dýpra
en díki vítis, nær kærleikur Jesú Krists til hvers einasta syndara.“
Stúlkan kom aftur með skilaboð.
„Ungfrú Thompson biður að heilsa og segir, að sér sé ánægja að tala
við séra Davidson, bara að hann komi ekki þegar mest er að gera.“
Þögn sló á hópinn, og brosið, sem færðist yfir andlit læknisins, dó
von bráðar út. Hann vissi, að konunni hans myndi gremjast, ef hann
hefði gaman af ósvífni ungfrúarinnar.
Þau luku máltíðinni, án þess að mæla orð. Að því búnu risu kon-
urnar á fætur og tóku til við vinnu sína. Frú Macphail hafði prjónað
kynstrin öll af treflum, frá því ófriðurinn skall á, og nú var enn einn
í smíöum. Læknirinn kveikti í pípu sinni, en trúboðinn sat grafkyrr í
stólnum og starði fram á borðið eins og í leiðslu. Loks stóð hann upp
og gekk þegjandi út. Þau heyrðu hann fara niður stigann og heyrðu,
að ungfrú Thompson mælti ögrandi rómi: „Kom inn,“ þegar hann
barði að dyrum. Hann dvaldi hjá henni í klukkustund. Og Macphail
læknir horfði út í regnið. Það var tekið að raska sálarró hans. Það
líktist ekkert milda, enska regninu, sem drýpur mjúklega til jarðar;
það var miskunnarlaust og á einhvern óljósan hátt hræðilegt; úr því
andaði þeirri óhugnan, sem læsir sig um sálina andspænis frumstæð-
ustu öflum náttúrunnar. Það streymdi ekki, það helltist niður eins og
syndaflóð og buldi á bárujárnsþakinu svo óaflátanlega jafnt og þétt,
að sturlun gat valdið. Ofsi þess virtist engu líkur. Og stundum vakn-
aði löngunin til þess að öskra af öllum lífs og sálar kröftum, ef ekki
yrði lát á. regninu, og síðan lagðist maran skyndilega yfir, eins og
hvert bein væri brotiö; og heimurinn varð grár, lífið einskis virði.
Læknirinn skotraði augunum til trúboðans, þegar hann kom aftur,
og konurnar litu báðar upp.
„Ég gerði mitt ýtrasta til þess að tala um fyrir henni. Ég lagði aö
henni að sjá að sér. Hún er syndum spillt kona.“
Hann þagnaði sem snöggvast, og læknirinn sá, að augu hans urðu
myrk og svipurinn harður og strangur.
„Nú mun ég nota þá svipu, sem Jesús Kristur sveiflaöi yfir höfðum
okurkarla og víxlara, þegar hann hreinsaði musterið.“
Hann gekk um gólf. Varirnar voru samanbitnar og dökku brúnirn-
ar þungar.
„Þótt hún legði á flótta út á enda veraldar, myndi ég veita henni
eftirför."