Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Qupperneq 100
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/2009100
helstU nýmæli í lögUm Um leikskóla og áhrif Þeirra á leikskólastarfið
mikill, breiðum göngum og sameiginlegri fataaðstöðu fyrir fleiri en tvær deildir, tak-
markaðri sérkennsluaðstöðu, takmarkaðri hvíldaraðstöðu fyrir börn og starfsfólk sem
og takmarkaðri vinnuaðstöðu barna og starfsfólks (Félag leikskólakennara, 2007). Er
hér verulega komið til móts við þessa gagnrýni og verður athyglivert að fylgjast með
hönnun nýrra leikskóla út frá hinum nýju lögum, þ.e. hvaða breytingar verða í hönn-
un og frágangi húsnæðis.
Varðandi fjölda barna er hér stigið stórt skref með því að leggja það í hendur rekstr-
araðila, í samráði við stjórnendur leikskóla, að ákveða barnafjölda á hvern starfsmann.
Samkvæmt nýju lögunum á að ganga út frá aðbúnaði í hverjum leikskóla fyrir sig og
samsetningu barnahópsins, en ekki að reikna barnafjölda út frá ákveðnum fermetra-
fjölda í reglugerð. Leikskólakennurum hefur oft og tíðum þótt skorta á að tillit sé
tekið til mismunar á húsnæði milli leikskóla og barnahópar séu oft hafðir það stórir
að vandi hafi verið að sinna þeim með velferð og hag barnanna að leiðarljósi. Þar sem
fermetrar hafa nær eingöngu ráðið barnafjölda í leikskóla s.l. 18 ár er hér brotið blað í
þeirri sögu og þarna gefst tækifæri til að bæta leikskólastarfið til muna.
Foreldraráð
Fjallað er sérstaklega um foreldra, réttindi þeirra og skyldur, og um mikilvægi þess að
aðkoma foreldra að leikskólastarfi verði aukin. Stofnun foreldraráða við leikskóla er
ein leið til að styrkja aðkomu foreldra að málefnum leikskóla þar sem þeim gefst þá
kostur á að hafa meiri áhrif á faglegt starf leikskóla og því var í lögunum gert ráð fyrir
að slíkum vettvangi yrði komið á í leikskólum. Hlutverk foreldraráðs er að fjalla um
skólanámskrá og aðrar þær áætlanir sem varða starfsemi leikskóla og gefa leikskól-
anum og sérstakri nefnd, sbr. 2. mgr. 4. gr., umsögn um þær, fylgjast með að áætlanir
séu kynntar foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar. Þá er einnig gert ráð fyrir
að við ákvarðanir um allar meiri háttar breytingar á skólastarfi sé haft samráð við for-
eldraráð.
Með því að lögfesta stofnun foreldraráða er ekki verið að koma í veg fyrir að
foreldrafélög starfi áfram við leikskóla. Lögin gera ráð fyrir því að það sé í höndum
foreldra að taka ákvörðun um hvort starfandi sé foreldrafélag samhliða foreldraráði
eða ekki.
Foreldrasamstarf í leikskólum er einn mikilvægasti þátturinn í leikskólastarfinu og
dagleg samskipti skipa þar háan sess. Lagt var til fyrir nokkrum árum að í öllum leik-
skólum í Reykjavík skyldi vera starfandi samráð leikskólakennara og foreldra sem
starfaði fyrir utan stjórn foreldrafélagsins. Ekki gekk þetta eftir alls staðar, en gafst
vel þar sem það var sett á laggirnar. Ber að fagna þessari skipan foreldraráða við leik-
skóla því að foreldrar virðast hafa fullan hug á að hafa meiri áhrif á uppeldis- og
menntastarfið en nú er, samkvæmt viðhorfakönnun meðal foreldra leikskólabarna
(Leikskólasvið Reykjavíkurborgar, 2007). Búið er að stofna foreldraráð við flesta leik-
skóla og verður fróðlegt að fylgjast með hvaða áhrif þau hafa á leikskólastarfið í fram-
tíðinni.