Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Blaðsíða 47
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/2009 47
kolbrÚn Þ. pálsdóttir
Skortur á samræðu um sameiginleg markmið og gildi
Starfið á frístundaheimilinu lýtur öðrum lögmálum en kennsla; markmið starfsins
eru önnur, það miðast við val barnsins og áhuga þess, að gefa því kost á að leika
sér í vinahópi, efla félagstengsl og taka þátt í ólíkum skapandi verkefnum. Áherslum
í innra starfi frístundaheimila svipar að miklu leyti til markmiða leikskólans; báðar
stofnanir leggja áherslu á frjálsan leik og skapandi starf, á val barnsins og félagslegan
þroska þess (Kolbrún Þ. Pálsdóttir, 2007; Menntamálaráðuneytið, 2006b). Ramminn
utan um athafnir barnsins er því víðari á frístundaheimilinu en í hefðbundnu skóla-
starfi, börnin eru frjálsari að fara á milli leiksvæða, svo sem á milli úti- og innisvæðis.
Þessu fylgir að sjálfsögðu líf og fjör í skólahúsnæðinu, órói og hávaði á göngum þegar
börn fara á milli svæða, ekki síst þar sem aðstaðan er oft mjög dreifð um skólann. Sá
órói sem börnunum fylgir veldur gjarnan togstreitu þar sem kennarar og aðrir starfs-
menn skólans sinna frágangi og undirbúningi á meðan starfsemi frístundaheimilis
fer fram í skólahúsnæðinu (Kolbrún Þ. Pálsdóttir, 2006). Athyglisverð er 7. grein hús-
næðis- og rekstrarsamnings ÍTR og Menntasviðs þar sem tilgreint er að starfsmenn
frístundaheimila fari eftir „sömu samskipta-, umgengnis- og vinnureglum og farið er
eftir innan viðkomandi skóla, nema samið sé um annað“. Ber þessi grein vott um að
skólinn og menning hans eigi að hafa áhrif á þær reglur sem starfsmenn og stjórnend-
ur frístundaheimilis setja, vera einhvers konar yfirvald yfir menningu frístundaheim-
ilisins. Hafa þarf hugfast að þó að eðlilegt sé að innan skóla og frístundaheimilis ríki
sambærilegar kröfur um góða umgengni og almennar samskiptareglur lýtur starfið á
frístundaheimilinu öðrum lögmálum en hefðbundið skólastarf.
Jóhanna Einarsdóttir (2007) hefur bent á að ýmsir hafi áhyggjur af því að hug-
myndafræði grunnskólans sé að færast inn í leikskólann og að leikskólastarfið verði í
auknum mæli skólamiðað. Ýmislegt bendir til þess að það sama geti gerst í samstarfi
frístundaheimila og skóla, þ.e. að hugmyndafræði og gildi hins hefðbundna skóla-
starfs nái yfirhöndinni. Með því að styrkja stöðu frístundaheimila innan skólanna opn-
ast möguleiki á því að snúa þróuninni við og efla barnmiðaða hugsun og leik í starfi
með yngstu börnum grunnskólans. Langur vinnudagur barna krefst þess að hann sé
brotinn upp með fjölbreyttum verkefnum og að hlustað sé eftir röddum barnanna
sjálfra við mótun og þróun starfsins. Starf frístundaheimila ætti að njóta viðlíka sjálf-
stæðis og starf leikskóla eða grunnskóla. Það þætti undarlegt ef starfsmenn leikskóla
yrðu stöðugt að gæta þess að börnin trufluðu ekki aðra starfsemi í sama húsnæði; þeir
þyrftu að standa yfir börnunum í fataklefa, sussa á þau og taka tillit til þess að starfs-
fólk annarrar stofnunar fundaði eða sæti að störfum í næsta herbergi. Hér virðist því
vera tilefni til að huga að sameiginlegum markmiðum skóla og frístundaheimilis, og
það er nauðsynlegt að skilgreina sameiginleg gildi og skýra þá hugmyndafræði sem
starfað er eftir í skólanum annars vegar og á frístundaheimilinu hins vegar.
Samkvæmt húsnæðis- og rekstrarsamningi ÍTR og Menntasviðs er gert ráð fyrir að
umsjónarmaður frístundaheimilis sitji samráðsfundi með „aðilum frá skóla til að fá
sem bestar upplýsingar um nemendur og þarfir þeirra“ (Húsnæðis- og rekstrarsamn-
ingur frístundaheimila og Menntasviðs, 2006). Þó að sumum gæti þótt undarlegt að
slíka setningu sé að finna í samningi um húsnæðis- og rekstrarmál, þá er hún eini