Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Blaðsíða 42
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/200942
frístUndaheimil i fyrir 6–9 ára börn í reykvískU skólastarfi
Kennarar tóku við faglegu skipulagi og framkvæmd þjónustunnar í stað fóstra, sem
leitt höfðu starf skóladagheimilanna, og starfið átti að byggjast á „meginsjónarmiðum
kennslu og uppeldisstarfs, sem mörkuð eru í 2. gr. grunnskólalaga um fagleg sjón-
armið“ (Skólaskrifstofa Reykjavíkur, 1995). Hafa ber í huga að þó að kennarar hafi
verið meirihluti starfsmanna fyrstu veturna fór þeim fljótlega fækkandi (Freyja Birg-
isdóttir, 1998; Kári Arnórsson, 1993). Því er ljóst að ábyrgð á daglegu starfi hvíldi ekki
síður á vaxandi hópi ófaglærðra starfsmanna sem sinntu börnunum í leik og starfi.
Ástæður þessarar þróun hafa án efa verið margvíslegar, en m.a. voru uppi raddir um
að hlutverk kennara væri að kenna, ekki að sinna dagvistun eða tómstundum. Þá var
launakostnaður skólanna töluvert hærri þegar ráðnir voru kennaramenntaðir starfs-
menn og virðist sem það hafi skipt máli.
Ljóst er að með hugtakinu heilsdagsskóli var verið að vísa til skólans í heild, þ.e. að
hver grunnskóli væri heilsdagsskóli. Áhugavert er að skoða hvernig skipt er um hugtök,
sum hverfa og önnur koma í staðinn, og gefur það vísbendingar um áherslur stjórn-
valda. Í ársskýrslum Fræðslumiðstöðvar (síðar Menntasviðs) er hugtakið heilsdags-
skóli lítið notað, en í staðinn eru hugtökin lengd viðvera (Fræðslumiðstöð Reykjavíkur,
e.d.-a) og skóladagvist tekin upp (Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, e.d.-b, e.d.-c, e.d.-d). Ef
til vill stafaði það af því að misvísandi hafi þótt að nota orðið skóli um þjónustuna sem
börnunum var boðið eftir hefðbundna kennslu, ekki síst eftir að kennaramenntuðum
starfsmönnum fór fækkandi. Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi þáverandi minni-
hluta, gagnrýndi rekstur heilsdagsskólans harðlega í Morgunblaðinu (19. apríl 1994)
og sagði m.a. að heilsdagsskólinn væri ekki skóli heldur gæsla, sem væri ekki nema
að litlu leyti tengd hinu daglega starfi skólans.
Umsjón með rekstrinum var alfarið á ábyrgð hvers skóla á þessu tímabili og lítið
formlegt samráð milli umsjónarmanna skóladagvista um innra starfið. Deildarstjóri
rekstrardeildar skólaskrifstofu Reykjavíkurborgar hafði umsjón með miðlægum
rekstrarmálum og úrlausn mála, s.s. varðandi húsnæðismál, en strax í upphafi var
ljóst að víða þrengdi mjög að starfseminni innan skólanna (Hermann Valsson, 1994).
Jafnframt var kennsluráðgjafa á Fræðslumiðstöð falið að skipuleggja fundi með um-
sjónarmönnum skóladagvista og standa að fræðslu eftir þörfum og óskum starfs-
manna (Skólamálaráð, 1992). Haldnir voru reglulegir fundir yfir skólaárið með um-
sjónarmönnum og þar gafst tækifæri til að skiptast á hugmyndum um innra starf og
skipulag (Matthildur Guðmundsdóttir, 1997). Dæmi voru um vel heppnað samstarf
við einkaskóla, svo sem danskennslu, skipulagt íþróttastarf og blokkflautunám, en
þar sem framboð á tómstundastarfi var (og er) mjög mismunandi milli hverfa reyndist
mörgum skólum erfitt að koma til móts við ólíkar óskir foreldra þar að lútandi. Könnun
á starfsemi heilsdagsskólans árið 1998 bendir til þess að lítið hafi farið fyrir því mikla
lista- og menningarstarfi sem áformað hafði verið að bjóða upp á í samvinnu við margs
konar einkaskóla (Freyja Birgisdóttir, 1998). Mikill munur var á milli skóla á dag-
skrá heilsdagsskólans en áhersla var á frjálsan leik á úti- og innisvæðum eftir langan
skóladag, skipulagt starf ýmisskonar og aðstoð við heimanám (Freyja Birgisdóttir,
1998). Víða fór fram öflugt og skapandi starf innan skóladagvistanna sem meðal ann-
ars birtist í því að á mörgum stöðum voru haldnar metnaðarfullar sýningar að vori