Morgunn - 01.06.1938, Qupperneq 91
MORGUNN
85
að sannfæra hana um að ég hefði séð þennan framliðna
mann. Mér fanst ég hafa unnið stórsigur. Hún leit nú öðr-
um augum á þennan hæfileika minn, en hún hafði gert
áður. Geta má þess, að skömmu eftir að ég hafði sagt
móður minni af návist hans, kom sonur þessa manns á
heimili okkar. Sennilega hefi ég einhvern tíma séð mann
þennan áður, en sjálfur man ég ekkert eftir að svo hafi
verið, enda mun hann hafa komið á heimili okkar einkum
þau ár, er ég var á bernskuskeiði, en ég hefi sjálfsagt haft
litil kynni af honum, því að ég man að eins eftir útliti
hans í sambandi við sýnina áðurnefndu.
Húskveðjan.
Haustið 1935 lá ég á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Þar lá
og kona ein, Guðrún Þ. Þorkelsdóttir að nafni, frá Þor-
leifsstöðum í Blönduhlíð; hún var búin að liggja þar rúm-
föst í 11 ár. Aðfaranótt þess 5. nóv. s. á. dreymdi mig
óvenju einkennilega. Ég man eftir því í draumnum að ég
lá í rúmi mínu á sjúkrahúsinu og mér fanst ég vera að
lesa í bók. Alt i einu sé ég, að hurðin að næstu stofu er
opnuð og sé mér til allmikillar undrunar, að Guðrún kem-
ur inn í stofuna, þar sem ég lá, og gengur að rúmi einu,
er stóð nálægt dyrunum. í rúmi þessu lá gamall maður,
Magnús Jónsson að nafni. Hún staðnæmdist við rúm hans
og segir við hann: »Þá er öllu lokið fyrir mér, nú er ég
komin heim«. Þá er hún hafði sagt þetta gekk hún aftur burtu,
en leit til mín um leið og hvarf út. Morguninn eftir var
mér sagt lát Guðrúnar. En ég átti eftir að sjá meira í
sambandi við hana. Jarðarför hennar var ákveðin 15. s. m.
og hófst athöfnin með húskveðju, er haldin var á sjúkra-
húsinu.
Starfsfólk sjúkrahússins og sjúklingar þeir er ferlivist
höfðu voru viðstaddir kveðjuathöfnina auk margra annara,
vina og vandamanna hinnar látnu, en ég var þá rúmliggj-
andi og lá í svo nefndri norðvesturstofu, sem er næst gang-
inum, en þar stóð kistan, meðan húskveðjan var haldin.