19. júní - 19.06.1988, Síða 71
Álfrún Gunnlaugsdóttir. List er orðin neysla, ekki sjóður.
munu þó einkum vera hugvísindin
sem verða fyrir barðinu á þessum við-
horfum, enda gefa þau ekki af sér
beinharðan gróða. Þetta sést meðal
annars á því að konur eru í yfirgnæf-
andi meirihluta í heimspekideild.
— Eru þær þá meiri hugsjóna-
menn í starfsvali en karlmennirnir?
Ég held að þær séu meiri hugsjóna-.
menn hvað þetta atriði varðar, en
þetta gamla á svo við um piltana, þeir
geta ekki leyft sér að fara í óarðbært
nám. í rauninni segir fjöldi kvenna í
heimspekideild ekki svo mikið, því
þær væru kannski jafn margar í deild-
inni þó að þessi stefna væri ekki uppi.
Hitt segir meira að piltarnir eru guf-
aðir upp. Ogekki ósennilegt að kven-
fólkið muni gufa upp líka.
Starf hugans er ekki eins hátt skrif-
að og önnur störf, og það kemur með-
al annars fram í fjárveitingum til hug-
vísinda og sköpunar, — og reyndar
má víðar sjá þess merki en í háskólan-
um. Maður þarf ekki nema koma í
Þjóðleikhúsið til að sjá lýsandi dæmi
um þetta. Niðurníðslan á öllu þar er
augljós, það virðist sem mönnum eigi
ekki einu sinni að líða vel á stað þar
sent listræn tjáning fer fram. Margir
virðast vera farnir að líta á menningu
sem stundarfyrirbrigði, eins og ekki
sé verið að skapa verðmæti til lengri
tíma, heldur sé þetta aðeins augna-
bliksgaman. Þetta er náttúrlega allt
annað viðhorf til menningar og lista
en var. List erorðin neysla, ekki sjóð-
ur sem menn sækja til, til að auðga
sjálfa sig og aðra. List er orðin neyslu-
vara og ætlast er til að menn taki við
henni sem þolendur, þekkingarleitin
sem tengist henni virðist eftir öllum
sólarmerkjum að dæma vera dottin
upp fyrir.
— Hvernig gengur þér að sameina
þína sköpun og þekkingarleit? Er
ekki erfitt að sameina bókmennta-
fræðinginn og rithöfundinn?
Nei, þetta fer ágætlega saman, að
því leyti að ég er alltaf að hugsa um
bækur og bókmenntir. Auðvitað er
þetta tvennt ólíkt, en samt tengt, því
að í báðum tilvikum er um að ræða
bækur. Ég held að það væri erfiðara
að samræma hvort tveggja ef þetta
væri gjörólík vinna. Ég hef kannski
ekki mikinn tíma til að skrifa á vet-
urna en ég get velt hlutunum fyrir
mér, og reyni líka að skrifa eitthvað
til að missa ekki „tengslin", jafnvel
þótt ég noti það svo ekki. Mér finnst
mikilvægt að halda ímyndunaraflinu
gangandi, enda heki ég að flestir lifi
meira á því en þeir kannski gera sér
grein fyrir.
— Þú átt ekki á hættu að fara að
greina eigin verk á meðan þú ert með
þau í smíðum?
Það dettur mér ekki í hug að gera,
maður skapar innan frá, en ekki utan
frá. Hinsvegar hef ég ekki hugrekki
til að lesa textann aftur þegar ég er
búin að setja endapunktinn og ganga
frá próförkum, líklega vegna þess að
ég er hrædd um að þá fari ég að greina
verkið. Og kannaðist jafnvel ekki við
það!
Menningin er ekki
forngripur
Rithöfundurinn og bók-
menntafræðingurinn geta
kannski virkað hvetjandi
hvor á annan?
Já, ég held það. Þegar ég fjalla um
bókmenntir er ég auðvitað að reyna
að ná tökum á því sem aðrir hafa
skapað, og sé um leið hvernig þeir
hafa leyst ýmsa hluti. Höfundar læra
mest af öðrum höfundum, og ég held
að þeir hafi flestir lagst í verk ann-
arra. Þá á ég ekki við að þeir líki eftir
því sem aðrir hafa gert, heldur að þeir
læri af því að skoða hvernig aðrir höf-
undar hafa unnið, og geti svo beitt
þeirri þekkingu til að skapa sjálfstætt
og með því lagt sitt af mörkum til
bókmenntanna og hefðarinnar. Sem
betur fer á mannkynið langa bók-
menntahefð, og þetta er ein aðferðin
við að varðveita hana, og auka við
hana um leið. Það er oft talað urn að
það þurfi að varðveita menninguna.
En hún verður ekki varðveitt með
öðrum hætti en þeim að láta hana lifa,
sækja alltaf til hennar. Það má sem
sagt ekki varðveita hana sem ein-
hvern forngrip, við verðum að taka
sömu bækurnar upp aftur og aftur,
lesa þær og hugleiða, öðruvísi lifa þær
ekki.
Þannig er fræðistarf líka sköpun,
en ekki andstæða hennar. Það er
sköpun með öðrum hætti, en gengur
ekki þvert á bókmenntirnar heldur á
sinn þátt í að halda lífi í þeim. Og til
að verk haldi áfram að lifa, getur
milliganga fræðimanna verið nauð-
synleg. Það er til lítils að varðveita
handrit í Stofnun Arna Magnússonar
ef enginn er til að fjalla um þau eða
gefa þau út. Ég er til dæmis efins um
að við getum skilið miðaldabók-
menntir á sama hátt og fólk á þessu
tímabili gerði, hins vegar geta þær
orðið lifandi á annan hátt og við notið
þeirra, en þurfum til þess, oftar en
ekki, aðstoð manna sent eru ötulir við
að finna nýjar leiðir og aðferðir til að
nálgast þessi verk. Þannig verða þau
„síung“. í þessum efnum er ekki til
neinn einn sannleikur. Mér hefur
skilist að vísindum sé ætlað að finna
„sannleika". Það á að minnsta kosti
ekki við um bókmenntir. Líf þeirra er
undir því komið að við endurnýjum
þær og jafnvel endursköpum. Án les-
enda, — og þar með eru fræðimenn
taldir, — eru þær naumast til. Höf-
undurinn hefur ekki seinasta orðið,
heldur verkið sjálft í margbreytileik
sínum. Og verkið eitt skiptir máli,
hvort sem það heyrir fornöldinni til
eða nútímanum.
71